20.11.1972
Neðri deild: 16. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 790 í B-deild Alþingistíðinda. (517)

79. mál, hafnalög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir vinsamleg orð hans um verbúðavandamálið, sem ég gerði að umtalsefni í fyrri ræðu. Ég fagna því, sem hann skýrði frá, að þetta atriði muni koma til athugunar í n., enda væri þangað komið erindi varðandi verbúðir frá Hafnasambandinu.

Ég get vel fallizt á, að deila megi um, eins og hæstv. ráðh. benti á, hvort bygging verbúða sé verkefni fyrir útgerðarmenn og sveitarfélög eða hafnarstjórnir. Þar sem ég þekki til, mundi ekki veita af sameiginlegu átaki allra þessara aðila, og þaðan er mjög sótt á um opinbera aðstoð við lausn á þessu vandamáli.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að varhugavert væri að setja of mikið af mannvirkjum í hafnalög, því að svo gæti farið, að þá yrðu framlögin til sjálfrar hafnargerðarinnar sem því næmi minni. Þetta er að sjálfsögðu matsatriði, og mætti þá benda á ýmislegt, sem er þegar í frv., er gæti haft mikil áhrif í þessa átt. Hafa menn gert sér grein fyrir því. hvað það gæti þýtt, að ríkið ætlar að borga 40% af stofnkostnaði við þurrkví. Ef einhver af stærri höfnum úti á landinu ákvæði að koma upp þurrkví, sem dygði fyrir mestallan íslenzka flotann, yrði það mannvirki, sem mundi kosta tugi, ef ekki yfir 100 millj. kr. Orðið „löndunarkranar“ hefur vissa merkingu í hugum okkar, sem fjöllum að mestu leyti um fiskihafnir. En orðið löndunarkrani gæti orðið býsna dýrt, þegar iðnaður fer að dreifast út um landið. Ef reisa ætti t.d. einhvers staðar á Norðausturlandi höfn fyrir álver, gæti verið, að löndunarkranarnir í þeirri höfn yrðu dýrir, þegar ríkið ætti að fara að greiða 40% af þeim. Allt eru þetta matsatriði, og ég vil benda á, að mannabústaðir fyrir það fólk, sem verður að flytjast á milli byggðarlaga til að vinna við útgerð og fiskvinnslu á vertíð, eru ekki ónauðsynlegri en flest önnur mannvirki við hafnir.

Ég get þannig fallizt á, að það sé matsatriði, hvort verbúðirnar eigi að vera í l. og njóta opinbers styrks eða ekki. Ég vil gjarnan heyra rök þeirra manna, sem athuga þetta nánar í n., en vil benda sérstaklega á, að verbúðavandamálið er fyrir hendi og það er allerfitt viðfangs fyrir mörg byggðarlög umhverfis landið. Ef Alþ. leysir það ekki í þessum l., þá verður það að leysa það á einhvern annan hátt. Við verðum e.t.v. að setja verbúðir í lög um íbúðabyggingar eða sérstök lög til þess að gera byggðarlögunum kleift að hafa sæmilega góðum verbúðum á að skipa.

Skortur á bráðabirgðahúsnæði er í mörgum þeim byggðum, sem ég þekki bezt til, beinlínis þrándur í götu þess, að fólk flytjist til þessara staða, þar sem vinna er fyrir hendi og góðar tekjur, og þar af leiðandi augljósasta hindrun fyrir því, að ýmis byggðarlög vaxi hraðar en þau gera. Ég vil taka fram, að þegar ég tala um að leysa þetta vandamál, er ég ekki eingöngu að hugsa um beinan ríkisstyrk. Það gæti komið til greina aðstoð við lausn á þessu vandamáli í hagkvæmu lánaformi eða e.t.v. á einhvern annan hátt.