21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

Umræður utan dagskrár

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kvaddi mér nú hljóðs utan dagskrár til þess að geta snúið mér að gefnu tilefni til hæstv. forsrh. eða þess ráðh., sem fer með embætti forsrh. í fjarveru hans, sem mun vera hæstv. utanrrh.

Í Þjóðviljanum nú um helgina og í morgun eru gefnar mjög umfangsmiklar upplýsingar og vitnað í opinbera aðila þeim til stuðnings um vöxt þjóðartekna á liðnum árum og hlutdeild launamanna í vexti þjóðarteknanna. Þessar upplýsingar, sem gefnar eru í blaðinu, er að mínum dómi alrangar og fá ekki staðizt við þær upplýsingar, sem ég hef haft og reyndar allir þm. ættu að hafa aðgang að, og þá á ég sérstaklega við hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, sem var á sínum tíma innan vébanda Efnahagsstofnunarinnar, en Efnahagsstofnunin heyrði undir forsrh. áður og m.a. þann tíma, sem ég gegndi embætti forsrh. Nú er auðvitað mjög bagalegt, ef verulega rangar upplýsingar eru gefnar um slíka hluti á sama tíma sem hér situr á rökstólum þing Alþýðusambandsins. En því er haldið fram, að launamönnum hafi verið mjög naumt skammtað af vexti þjóðarteknanna og svo lítið, að á síðasta áratug hafi orðið aðeins 7% kaupmáttaraukning hjá þeim, þ.e. innan við 1% á ári að jafnaði. Þetta er líka mjög alvarleg ádeila á fulltrúa launþegasamtakanna, sem hafa verið í fyrirsvari fyrir launþegasamtökin á undanförnum árum, ef hægt væri að sýna fram á, að þeir hefðu vanrækt hlutverk sitt svo mjög sem í þessu felst, ef rétt væri. Nú skal ég ekki hefja deilur um þetta á þessum vettvangi, en upplýsingar mínar eru þær, að þjóðartekjurnar hafi frá árinu 1959 til 1971 vaxið um 59.5%, en kaupmáttur atvinnutekna verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna á sama tíma um 74.4%.

Ég vil nú biðja hæstv. forsrh., en undir hann heyrir hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunarinnar, að hlutast til um það, að hagrannsóknadeildin léti öllum alþm. í té, — og hún mun geta gert það eflaust án nokkurs fyrirvara, — réttar upplýsingar í þessu máli, og jafnframt, að hún leiðrétti þá þær upplýsingar, sem opinberir aðilar eru bornir fyrir, ef þær eru ekki réttar, eins og ég held fram, að þær séu, m.ö.o., að það komi í dagsins ljós án nokkurrar tafar, hvað rétt er í þessu máli, gagnvart alþm. og þjóðinni í heild.