21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (526)

80. mál, afskipti ríkisstjórnarinnar af fjármálum Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 86 til hæstv. menntmrh. um afskipti ríkisstj. af fjármálum Ríkisútvarpsins. Það er spurt um:

„1. Hvaða heimild telur ríkisstj. sig hafa til að skerða tekjur Ríkísútvarpsins, eins og þær eru ákveðnar samkv. fjárhagsáætlun stofnunarinnar, sem Alþ. hefur staðfest?

2. Hvers vegna hefur menntmrh. neitað að ákveða afnotagjöld sjónvarps og hljóðvarps fyrir áríð 1972 samkv. till. stofnunarinnar, sem eru lagðar til grundvallar í fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins fyrir þetta ár og Alþ. hefur staðfest?

3. Er það stefna ríkisstj., að dregið verði úr rekstrarkostnaði Ríkisútvarpsins með sparnaði m.a. í dagskrárgerð til að mæta þeim tekjumissi á þessu ári, sem sú ákvörðun menntmrh. veldur að ákveða afnotagjöld sjónvarps kr. 3100.00 og afnotagjöld hljóðvarps kr. 1300.00 í stað kr. 3600.00 og kr. 1650.00, eins og lagt var til og Alþ. hefur staðfest í fjárl. fyrir árið 1972 ?“

Það skal tekið fram, að í útvarpsl. frá 1971, 13. gr., stendur, að Ríkisútvarpið hafi sjálfstæðan fjárhag. Þetta atriði hefur ekki áður staðið í lögum, en þó verið meginlögmál í starfsemi stofnunarinnar í meira en 40 ár. Það segir einnig í lagagr. þessari, að útvarpsstjóri kynni fjárhagsáætlun stofnunarinnar fyrir útvarpsráði og sendi hana menntmrh., en Alþ. staðfesti áætlunina endanlega. Þá segir í sömu gr., að menntmrh. ákveði afnotagjöld sjónvarps og hljóðvarps að fengnum till. útvarpsstjóra og útvarpsráðs.

Í sambandi við undirbúning fjárl. fyrir árið 1972 sendi Ríkisútvarpið með bréfi, dags. 28. júlí 1971, fjárhagsáætlun sína til menntmrn. Hér var um að ræða fjárlagatill. fyrir árið 1972, annars vegar fyrir sjónvarpið og hins vegar fyrir hljóðvarpið. Tekjuhlið þessara till. varðandi sjónvarp var að upphæð samtals 175 millj. 800 þús. kr. og var sundurliðuð þannig: Afnotagjöld: 42 þús. afnotagjaldendur á kr. 3600.00 eða 151 millj. 200 þús. kr. Auglýsingar 32.8 millj. Ýmsar tekjur 1 millj. Til frádráttar kom framíag í Byggingarsjóð Ríkisútvarpsins, 5% samkv. lögum, 9.2 millj. Niðurstöðutala teknamegin 175.8 millj. kr. Þessa upphæð nákvæmlega 175.8 millj., samþykkti Alþ. óbreytta í fjárl. fyrir árið 1972. tekjuhlið till. varðandi hljóðvarp var að upphæð 140.6 millj. kr. og var sundurliðuð þannig af hálfu útvarpsins: Afnotagjöld: 60 þús. afnotagjaldendur á kr. 1650.00 eða 99 millj. kr. Auglýsingar 48 millj. kr. ýmsar tekjur 1 millj. Til frádráttar 5% í Byggingarsjóð Ríkisútvarpsins, 7.4 millj. Niðurstaða 140.6 millj. kr. Þessa upphæð, nákvæmlega 140.6 millj., samþykkti Alþ. óbreytta í fjárl. fyrir árið 1972.

Samkv. þessu hefur Alþ. lagt til grundvallar við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 1972, að afnotagjald sjónvarps yrði 3600 kr., en afnotagjald hljóðvarps 1650 kr. Aftur á móti hefur menntmrh. virt þennan vilja Alþ. að vettugi með því að ákveða, að afnotagjald árið 1972 skuli vera fyrir sjónvarp 3100 kr. og fyrir hljóðvarp 1300 kr.

Herra forseti. Hér er um alvarlegt mál að ræða, sem gefur fyllsta tilefni til fsp. Þess vegna spyr ég hæstv. menntmrh. um, hvaða heimild ríkisstj. telji sig hafa til að skerða tekjur Ríkisútvarpsins af afnotagjöldum frá því, sem fjárlög gera ráð fyrir. (Forseti: Hv. þm. hefur lokið ræðutíma sínum.) Já, ég á eina setningu eftir. (Forseti: Fsp. er prentuð á þskj., og það er engin ástæða til þess að lesa hana.) Nei, ég er ekki að lesa hana. Ég spyr einnig, hvað hafi komið ríkisstj. til að fremja slíkan verknað. Og loks spyr ég að því, hvort ríkisstj. hyggist spara á rekstri Ríkisútvarpsins með því að draga úr dagskrárgerð.