21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

80. mál, afskipti ríkisstjórnarinnar af fjármálum Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 5. þm. Vestf. er í rauninni tvíþætt. Í fyrsta lagi er spurt um heimild til að ákveða afnotagjöld Ríkisútvarpsins og hvort handhafi þeirrar heimildar sé bundinn af þeim áætluðu afnotagjöldum, sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun Ríkisútvarpsins í fjárl. 1972. Í öðru lagi er spurt, hvort það sé stefna ríkisstj., að dregið verði úr rekstrarkostnaði Ríkisútvarpsins með sparnaði, m.a. í dagskrárgerð.

Um fyrri þátt fsp. er það að segja, að í 13. gr. útvarpsl., nr. 19 1971, segir:

„Útvarpsstjóri kynnir fjárhagsáætlun fyrir útvarpsráði, en sendir hana menntmrh. Alþingi staðfestir áætlunina endanlega í fjárlögum.

Menntmrh. ákveður afnotagjöld og auglýsingataxta að fengnum till. útvarpsstjóra og útvarpsráðs.“

Sá hluti lagaákvæðisins, er lýtur að ákvörðun afnotagjalda, er skýr og ótvíræður. Ákvörðunaraðilinn er menntmrh. Frá stofnun Ríkisútvarpsins og frá því að fyrst voru sett lög um það hefur ákvörðun afnotagjalds verið með þessum sama hætti og aldrei mér vitanlega verið dregið í efa, að þessi heimild væri hjá ráðh. samkv. þeim lögum, sem Alþ. hefur sett um útvarpsrekstur ríkisins, og heimildin væri ekki hjá Alþ. eða ríkisútvarpi. Ástæðan fyrir því, að ákvörðunarvaldið í þessum efnum er lagt í hendur ráðh., en ekki Ríkisútvarpsins sjálfs, er væntanlega sú, að ekki hefur þótt fara vel á því, að Ríkisútvarpið hefði sjálfdæmi um ákvörðun afnotagjalda og gæti þannig ákveðið á eindæmi tekjur sínar.

Ákvörðun afnotagjalda Ríkisútvarpsins hefur hlotið sömu málsmeðferð í minni ráðherratíð og mun hafa tíðkazt í tíð fyrrv. ríkisstj., þ.e. að till. um upphæð afnotagjaldanna berst menntmrn. frá útvarpsstjóra og útvarpsráði. Erindið er síðan sent Efnahagsstofnun, nú Framkvæmdastofnun, til umsagnar. Þá er málið lagt fyrir ríkisstj. til endanlegrar ákvörðunar, og tilkynnir menntmrn. Ríkisútvarpinu síðan, hver gjöldin skuli vera. Ýmsar ástæður geta valdið því, að eigi er ávallt í einu og öllu unnt að fara eftir till. og óskum ríkisútvarpsins um upphæð afnotagjaldanna. Hlutverk rn. í þessu efni er að leitast við að gæta bæði hagsmuna ríkisútvarpsins og gjaldenda. Enn fremur þarf að huga að atriðum eins og þeim, að verðstöðvunarlög eru í gildi í landinu og að ekki er heppilegt, að opinberar stofnanir gangi á undan um hækkun á þjónustu sinni og verðskrám. Almenningur hlýtur að gera þá kröfu á hendur ríkisvaldinu, að leitazt sé við að halda verði á þjónustu opinberra stofnanna innan eins skynsamlegra marka og unnt er.

Þá skal vikið að þeim þætti fsp., sem lýtur að því, hvort ráðh. sé bundinn af till. Ríkisútvarpsins um upphæð afnotagjaldanna, sem lagðar eru til grundvallar í fjárhagsáætlun ríkisútvarpsins fyrir árið 1972 og Alþ. hefur staðfest í fjárl. Þegar menntmrn. sendi fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn. fjárhagsáætlun útvarpsins fyrir árið 1972, fylgdi henni bréf frá menntmrn., dags. 7. ágúst 1971, þar sem segir:

„Vegna fjárlagagerðar 1972 sendir rn. hér með áætlun ríkisútvarpsins um rekstur stofnunarinnar á næsta ári ásamt fskj. Rn. vekur athygli á því, að í áætluninni er gert ráð fyrir, að afnotagjald útvarps verði hækkað úr kr. 1180.00 í kr. 1650.00 á ári og afnotagjald sjónvarps úr kr. 2800.00 í kr. 3600.00 á ári. Rn. hefur ekki tekið ákvörðun um þessi atriði. Verði afnotagjöldin ákveðin óbreytt eða á annan veg önnur en þessi áætlun gerir ráð fyrir, þarf að sjálfsögðu að breyta fjárlagatill. útvarpsins í samræmi við það.“

Af þessu bréfi má vera ljóst, að þegar rn. sendi nefnda fjárhagsáætlun áleiðis til Alþ., var fyrirvari gerður um upphæð afnotagjaldanna, og enda þótt slíkur fyrirvari hefði ekki verið gerður, hefur jafnan verið litið svo á, að samkv. eðli málsins væri slíkur fyrirvara jafnan undanskilinn, þegar rn. sendi fjárhagsáætlunina til Alþ. Eins og kunnugt er, eru fjárlög fyrst og fremst heimildarlög og venjulegum lögum verður ekki breytt með fjárl. Fjárhagsáætlun útvarpsins í fjárl. hefur því ekki áhrif á rétt ráðh. og skyldu til að ákveða afnotagjöldin eins og honum virðist réttmætast, þegar það atriði kemur til úrlausnar hverju sinni.

Þá verður einnig að líta svo á, að ríkisstofnanir, sem hafa sjálfstæðan fjárhag og óháðan ríkissjóði, hafa nokkra sérstöðu í fjári., og hefur til skamms tíma verið undir hælinn lagt, hvort fjárhagáætlanir slíkra stofnanna væru teknar með í fjárlög.

Rétt er að geta þess, að í fjárlagafrv. fyrir árið 1973 eru afnotagjöld ríkisútvarpsins eins og þau eru í dag, þ.e.a.s. 3100 kr. sjónvarpsgjald og 1300 kr. hljóðvarpsgjald, lögð til grundvallar fyrir fjárhagsáætlun útvarpsins 1973. Er þetta gert samkv. ákvörðun fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. Þessi málsmeðferð bindur þó í engu hendur ráðh, til að ákveða gjöldin önnur, þegar þá ákvörðun þarf að taka á sínum tíma.

Þá er spurt, hvort það sé stefna ríkisstj., að dregið verði úr rekstrarkostnaði ríkisútvarpsins með sparnaði, m.a. í dagskrárgerð. Ég hygg, að það hafi verið stefna allra ríkisstj. að leitast við að draga úr rekstrarkostnaði ríkísfyrirtækja með sparnaði. Hins vegar er það ekki ósk eða ætlan þessarar ríkisstj. frekar en annarra, að dregið verði úr dagskrárgæðum útvarpsins.

Ríkisútvarpið hefur jafnan legið undir gagnrýni fyrir ráðdeildarskort í fjármálum. Ég hygg, að sú gagnrýni hafi oftast verið orðum aukin. En engin stofnun er alfullkomin, ekki einu sinni ríkisútvarpið. Vel má vera, að sparnaði megi koma við í rekstri þess á ýmsum sviðum. Engin hagsýsluleg athugun hefur t.d. farið fram á rekstri stofnunarinnar í heild, eftir að sjónvarp kom til sögunnar hér á landi, og vera má, að samstarfi hljóðvarps og sjónvarps megi koma fyrir með hagkvæmari hætti að einhverju leyti en nú er. Innheimtudeild Ríkisútvarpsins, sem reyndar fæst við fleira en innheimtu, þ. á m. skráningar- og eftirlitsstörf, kostaði á árinu 1971 18 062 355 kr. Hugsanlegt væri að draga úr þessum kostnaði. Til að mynda eru afnotagjöld útvarps í Finnlandi innheimt ásamt símgjöldum af finnsku póst- og símamálastjórninni. Væri athugandi, hvort sú leið kynni að leiða til sparnaðar á innheimtukostnaði þessum hér á landi. Fyrir nokkrum árum var skipuð n. til að gera till. um hagkvæmara form um innheimtu afnotagjalda útvarpsins, og lagði hún til, að afnotagjöldin skyldu innheimt sem nefskattur ásamt öðrum beinum sköttum.

Þau dæmi, sem ég hef hér nefnt, eru meira og minna tekin af handahófi og eru aðeins til vísbendingar um, að hugsanlegt hlýtur að vera að koma við sparnaði á ýmsum sviðum í rekstri Ríkisútvarpsins, og þyrfti að kanna til hlítar, hvernig þeim sparnaði mætti við koma, þannig að eigi þurfi að bitna á gæðum dagskrár.

Í fáum orðum sagt eru svör mín við fsp. hv. þm. þessi:

1. Menntmrh, hefur bæði rétt og skyldu til að ákveða afnotagjöld Ríkisútvarpsins eins og hann álítur réttast og sanngjarnast hverju sinni með tilliti til allra málavaxta, og verður þá ekki einungis að taka tillit til hagsmuna Ríkisútvarpsins, heldur einnig og ekki síður til almannahagsmuna.

2. Með birtingu fjárhagsáætlunar Ríkisútvarpsins í fjárl 1972 er ekki tekin endanleg ákvörðun um upphæð afnotagjalda útvarpsins fyrir það ár, eins og skýrt kemur fram í bréfi menntmrn., dags. 7. ágúst 1971. Fjárlög breyta ekki ákvæðum almennra laga.

3. Það er ekki stefna ríkisstj., að dregið verði úr gæðum dagskrár Ríkisútvarpsins. Hins vegar telur hún æskilegt, að fyllsta sparnaðar verði gætt í rekstri þeirrar stofnunar eins og annarra ríkisstofnana, og vill hlutast til um, að kannaðar verði leiðir til þess, að svo megi verða.

Engum blöðum er um það að fletta, að heimildin til að ákveða afnotagjöld Ríkisútvarpsins er hjá menntmrh. samkv. skýlausum ákvæðum útvarpsl., nr. 19 1971. Er þetta sami háttur og gildir t.d. í Danmörku og Finnlandi, en í Noregi eru afnotagjöldin ákveðin af löggjafarþingi. Ef breyta ætti til sama háttar og í Noregi, þyrfti að koma til breyting á núgildandi útvarpslögum.

Ég hef áður í svari við fsp. á Alþ. vikið að því, að hin nýju útvarpslög kynnu að þurfa endurskoðunar við í ýmsu tilliti. Eitt af þeim atriðum, sem væntanlega þyrfti að endurskoða, eru ákvæðin um fjármálaábyrgð Ríkisútvarpsins. Þau ákvæði eru að mínu mati hvergi nærri nógu glögg og verkaskipting milli útvarpsstjóra, útvarpsráðs, rn. og Alþ. eigi nógu skýrt afmörkuð.