21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

80. mál, afskipti ríkisstjórnarinnar af fjármálum Ríkisútvarpsins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þar eð þm. er aðeins ætlaður tveggja mínútna ræðutími við slíkt tækifæri, ræði ég auðvitað ekki efni málsins, en kveð mér hljóðs til þess eins að koma einni viðbót við upplýsingar hæstv. menntmrh. á framfæri. Eins og við var að búast, fór hann algerlega rétt með þær lagaheimildir, sem gilda um rétt hans og skyldu til að ákveða afnotagjald ríkisútvarpsins. Og ég er honum sammála um, að það þarf að gera hvort tveggja, taka tillit til þarfa ríkisútvarpsins og til almannahagsmuna. Í áratugi og þangað til fyrir fáum árum hafði sá háttur verið í gildi, sem hann lýsti, að ríkisútvarpið gerði fjárhagsáætlun sína snemma á ári. Hún var síðan grundvöllur að ákvæðum um tekjur og gjöld Ríkisútvarpsins í fjárlögum. En síðan hefur afnotagjald verið ákveðið, eftir að fjárlagaár var hafið. Þetta þótti mér fyrir nokkrum árum þurfa endurbóta við og beitti mér því fyrir þeirri breytingu á starfsháttum varðandi þetta efni, að ákvörðun um afnotagjald var tekin, áður en fjárlög voru samþykkt, venjulega á milli 1. og 2., stundum á milli 2. og 3. umr. fjárl., þannig að nú undanfarið hefur í nokkur ár verið í gildi sá starfsháttur, að afnotagjöld hafa verið ákveðin, áður en fjárl. voru samþykkt. Þetta breytir í engu rétti og skyldu hæstv. ráðh. til að ákveða gjöldin, svo að ég dreg að engu leyti í efa réttmæti þess, sem hann sagði um það efni. Þessum upplýsingum vil ég þó koma á framfæri til viðbótar. Þarna var komin í framkvæmd mikil endurbót á starfsháttum í þessum efnum.