21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

82. mál, söngkennsla í skólum

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. skýr og greinargóð svör við fsp. mínum. Ég fagna því sérstaklega, að rn. hefur gert allmyndarlegt átak í þessum málum, sbr. það nál., sem hæstv. ráðh. sagði hér frá. En þess verður þá að vænta, að þarna verði ekki látið sitja við álitið eitt, heldur verði rösklega tekizt á við þann mikla vanda, sem hann réttilega benti á, að væri á ferðum. Í svari við síðasta hluta fsp., kom í ljós, að nær helmingur skólanna hafði enga reglulega söngkennslu. Markaði ég það af þeim orðum hæstv. ráðh., — sem ég vil alveg sérstaklega þakka, — er lutu að vanda hinna mörgu skóla í dreifbýlinu, sem eiga hér mjög erfiða aðstöðu, að hann vill þar úr bæta. Ég fagna því t.d. mjög, að hann minnti á þann möguleika, að komið yrði á farkennslu í söng í þeim skólum, sem ættu við erfiðasta aðstöðu að búa. Þetta er nefnilega fyrsti vottur um það, að eitthvað hafi verið gert í því að framkvæma till., sem ég flutti hér á Alþ. fyrir 15 árum og var samþykkt hér, en hún var einmitt á þá leið, að vandi þeirra skóla, sem við erfiðastan hlut byggju, yrði leystur með slíkri farkennslu. Ég fagna því alveg sérstaklega, ef það mál gæti komizt á einhvern rekspöl.