21.11.1972
Sameinað þing: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

279. mál, laxarækt í Laxá

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Spurningum hv. 5. landsk. þm. er ekki unnt að svara afdráttarlaust enn sem komið er. Málavextir eru þessir:

Á fundi náttúruverndarráðs 10. des. s.l. var samþykkt svo hljóðandi ályktun:

„Lífkerfi Mývatns er með afbrigðum sérstætt um alla Evrópu og þótt viðar sé leitað, og efri hluti Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu er að áliti flestra óaðskiljanlegur hluti þessa lífkerfis. Eins og er, er enginn lax í Laxá efri eða í Mývatni, og tilkoma lax á þessu lokaða svæði er breyting, sem kann að valda röskun á lífkerfi þess með afleiðingum, sem ekki er hægt án undangenginnar ítarlegrar rannsóknar að segja fyrir um, hve alvarlegar kunna að verða. Náttúruverndarráð lítur því svo á, að ekki sé rétt að ráðast í gerð laxastiga við Brúar né flutning lax á annan hátt upp í efri hluta Laxár, nema rannsókn hafi verið látin fara fram og sú rannsókn leitt í ljós, að ekki þurfi að óttast tilfinnanlega röskun á jafnvægi Laxár- og Mývatnssvæðisins.“

Náttúruverndarráð sendi þessa ályktun síðan til iðnrn. og jafnframt var dýrafræðingi ráðsins, dr. Finni Guðmundssyni, falið að hafa samband við nefnd líffræðinga, sem unnið hafa að rannsóknum á Mývatni og Laxá. Varð það úr, að n. tók að sér að semja sérstaka álitsgerð um málið. Samkv. upplýsingum sérfræðinganna Péturs Jónassonar og Jóns Ólafssonar, sem báðir eiga sæti í n. þessari, mun n. skila bráðabirgðaálitsgerð í des. n.k., m.a. um þau atriði, sem hér ræðir. En endanleg álitsgerð mun væntanlega liggja fyrir að ári liðnu.

Málið er m.ö.o. til athugunar hjá sérfræðingum, er munu skila áliti um það í næsta mánuði. Að fenginni álitsgerð sérfræðinganna mun væntanlega unnt að taka afstöðu til efnis fsp. þeirra, sem hér hafa verið bornar fram.