21.11.1972
Sameinað þing: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

68. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er alllöng, og ég ætla að leyfa mér að lesa hana þegar í upphafi máls míns, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj., að hún láti sérfróða menn semja frumvarp eða frumvörp að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir byggðu landi sem óbyggðu, stöðuvötnum í byggð og óbyggðum, fallvötnum, jarðhita og hvers konar námum og vinnslu verðmæta úr jörðu. Við samningu frv. eða frumvarpa að lagagerð þessari sé m.a. þessa gætt:

1. Að allt hálendi landsins og óbyggðir, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðíla en ríkisins liggja ekki fyrir, sé lýst alþjóðareign og skýrt sé kveðið á um mörk þessarar ríkiseignar.

2. Sú grundvallarregla verði mörkuð, að stefnt skuli að því, að allt land verði með tímanum alþjóðareign (eign ríkis eða sveitarfélaga), en bújarðir megi ganga kaupum og sölum til búrekstrar, meðan bændur kjósa þann hátt á, fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum sé þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.

3. Stöðuvötn í afréttum og öll fallvötn verði lýst alþjóðareign, þar í falinn virkjunarréttur. Ríkið eitt geti leyft og leigt fiskræktar- og veiðirétt, svo sem viðkomandi sveitarfélögum og öðrum félagslegum samtökum, en greiddur sé arður til landeigenda samkv. arðskrá.

4. Allur jarðvarmi undir 100 metra dýpi og aðstoðar hins opinbera þarf til að bora eftir og virkja verði lýstur alþjóðareign.

5. Öll verðmæti í jörðu, á landi og landgrunni, sem finnast fyrir atbeina ríkisins eða leyfis ríkisins þarf til að leita eftir, skuli teljast ríkiseign og háð valdi þess.

6. Glöggt sé kveðið á, hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkis eða sveitarfélaga og hvernig bætur skulu reiknast fyrir.

7. Kveðið skal á um umgengnisskyldur við landið og viðurlög við spjöllum.“

Þegar landið var numið í upphafi, fluttu landnámsmennirnir með sér til landsins eignarréttarhugmyndir og eignarréttarvenjur þjóða, sem höfðu fasta búsetu og lifðu fyrst og fremst á jarðargróða. Þeir námu landið, töldu sig eiga svo og svo stóran hluta af því, gáfu af landnámi sínu eða seldu. Landið skiptist upp í jarðir, sem gengu kaupum og sölum, en til fjalla, sérstaklega lengra úr byggð, voru almenningar, sem allir máttu nota, a.m.k. til beitar fyrir búfé. Slíkir almenningar virðast og hafa verið í stærri stöðuvötnum í byggð og óumdeildanlega í óbyggðum. Hitt virðist ekki ótvírætt, hvort slíkir almenningar töldust öllum heimilir eða fyrst og fremst þeim, sem byggðu nærliggjandi héruð. En í megindráttum var þetta í upphafi svo, að landnámshöfðinginn og búar hans ýmsir, seinna goðinn og búar hans, enn seinna sjálfseignarbændur almennt, áttu landið. Þjóðin lifði af gögnum þess og gæðum og var bændaþjóðfélag. Hugmyndir manna um eignarumráð á landi voru bundnar við heyöflun, beitarnot, eldivið, hlunnindi eins og veiðiskap í ám og vötnum, eggver og því um líkt, sem einstaklingsframtakið gat gengið að, en hvorki samtakamáttar né þjóðfélagslegrar forsjár þurfti til að afla. Þetta voru gögn og gæði landsins, sem lágu á yfirborði þess, og allt líf bændaþjóðfélagsins byggðist á því, að þeirra væri aflað og þau notuð. Engan þarf að undra, þótt nýjar hugmyndir um eignarréttinn létu lítt á sér kræla í slíku þjóðfélagi.

Í dag erum við Íslendingar ekki bændaþjóðfélag, sem á sínar jarðir, á sitt land og lifir af yfirborðsgögnum þess og gæðum nema að litlum hluta. Við höfum á nokkrum áratugum stokkið úr bændaþjóðfélagi yfir í borgar- og bæjaþjóðfélag að meginhluta. En um 3–4 þús. manns af 207 þús. manna þjóð teljast nú eiga landið, gögn þess og gæði. Þau hlunnindi, sem þjóðina munar mest um, vatnsaflið og jarðhitinn, notast henni ekki nema með alþjóðarátaki og undir ríkisforsjá. Gerbreyttar aðstæður kalla á breytt eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum, segjum við jafnaðarmenn.

Stökkbreytingin úr bændaþjóðfélagi í borgarog bæjaþjóðfélag án aðlögunar eignarréttarins að breyttum aðstæðum hefur kallað fram ýmiss konar meinsemdir í þjóðlífi okkar, orðið undirrót brasks með lóðir, lendur, jarðir, ýmis hlunnindi og réttindi og valdið óeðlilegri og óréttmætri gróðasöfnun. Örreytisland frá sjónarhóli bændaþjóðfélags hefur vegna þéttbýlismyndunar bæjaþjóðfélags komizt í ofsaverð ekki vegna tilverknaðar eigenda, heldur athafna íbúanna á staðnum, sem orðið hafa að gjalda verðmyndun sina dýrum dómum, svo sem dæmi eru um lóðakaup Keflavíkur og Þórshafnar t.d. Hinn landlausi almenningur hefur orðið að greiða fáliðanum í landeigendastétt milljónir af skattpeningum sínum. Hvað halda Reykvíkingar, að mörg krónan af útsvörum þeirra hafi runnið í vasa lóðareigenda hér í höfuðborginni? Það eru örugglega hundruð og aftur hundruð millj. Sú upphæð á eftir að hækka hrikalega í náinni framtíð, ef ekkert verður að gert. Hið vinsæla og eftirsótta sport að veiða lax hefur á síðari árum varpað margri veiðijörðinni á braskmarkaðinn. Er nú svo komið, t.d. á sunnanverðu Snæfellsnesi, að peningamenn í höfuðborginni hafa keypt upp jarðir meðfram heilum veiðiám, en af landbúnaðaráhuga þeirra fara litlar sögur. Þarf engum getum að því að leiða, að græðgiseign á jörð vegna laxveiða hennar orkar eins og drep á búsetu bænda í annars blómlegri sveit.

Þessi meðferð á eignarráðum yfir landi er landbúnaði og þar með hændum í heild hættuleg. Hún býður einnig upp á þann háska, að þeir Íslendingar séu til. sem vilji leppa kaup erlendra manna á hluta af landinu okkar. Hér þarf því að dómi okkar jafnaðarmanna að reisa rammar skorður við, og við trúum því ekki, að gjörhuglir bændur séu ekki sama sinnis.

Veiðileyfasalan er svo mál út af fyrir sig, sem hér verður ekki farið langt út í, en grunur minn er sá, að bændur skynji enn betur, að þau mál þurfi og að skoða vel, ef þeir vita, að hér í borg lifa a.m.k. 4 söluumboð góðu lífi á veiðileyfasölu í ár úti um land, að því er kunnugir telja. Braskréttur veiðibóndans á veiðileyfum er harla dýru verði keyptur í mörgum tilvikum, sýnist mér.

Í umræddri þáltill. er lagt til, að þjóðin öll eða ríkið skuli vera eigandi allra fallvatna og stöðuvatna í óbyggðum, en þann hátt hafa ýmsar nágrannaþjóðir okkar á, svo sem Norðmenn, Svíar, Skotar, Englendingar og Írar, einnig Bandaríkja- og Kanadamenn, en hins vegar fylgi veiði í ám og vötnum viðkomandi jörðum sem hlunnindi og sé veiðin goldin eftir sérstakri arðskrá, er ríkið láti setja að fróðra og góðra manna yfirsýn. Er fyrirmyndin að þessu einnig sótt til fyrrgreindra þjóða. Á þennan hátt mundu veiðileyfin varla fara á braskmarkaðinn og veiðijarðirnar tæpast heldur, a.m.k. ekki ef arður veiðihlunnindanna gengi alltaf til ábúenda jarðanna, eins og við flm. till. ætlumst til.

Hugsanlegur væri líka sá eignarhátturinn á þessu, að veiðihlunnindi jarðanna væru bundin eign viðkomandi sveitarfélaga og arður af hlunnindum gengi til sameiginlegrar hagsældar íbúanna. Gæti þessi eignarháttur komið í veg fyrir það tekjubil, sem nú hefur skapazt og víða valdið sundurlyndi milli veiðibænda annars vegar og bænda, sem fyrst og fremst yrkja jörðina. Nú þykjast margir eygja þann framtíðarmöguleika, að fiskrækt í ám og vötnum geti orðið blómleg atvinnugrein, en til þess þarf félagsleg samtök og framlög af almannafé. Enn er það þjóðarheildin, sem þarf að koma til skjalanna, og því er hér lagt til, að fiskræktarrétturinn og ræktunarforsjáin sé í höndum ríkisins, þjóðarinnar allrar, ella þá sveitarfélaga, eins eða margra sameiginlega.

Þegar þjóðin sem heild er orðin eigandi allra fallvatna landsins, er hún og orðin eini handhafi virkjunarréttar á vatnsaflinu. Slíkt mundi einfalda virkjunarmál okkar öll ótrúlega mikið. Kemur hér enn að því, að hér er réttur, sem hið forna eignarráðshugtak átti ekki rúm fyrir. Virkjun vatnsorku var þá ekki til á nútímavísu. Til slíkra framkvæmda þarf samátak og samnotkun margra. Þetta er þörf fjöldans, sem ekki á og ekki má vera háð eignarrétti einstaklinga. Það er fjarri allri skynsemd að áliti okkar jafnaðarmann, að fáir landeigendur, sem ekki geta leyst þessa auðlind úr læðingi af einkaframtaki sínu, hafi rétt á, ef þeim býður svo við að horfa, að neita hinum landlausa fjölda bæjaþjóðfélagsins um þessi eftirsóttu og nauðsynlegu auðæfi landsins. Hér á að vera nóg, að löggjafarþing þjóðarinnar segi til um, hvar virkja eigi og megi. Því verður að treysta til að meta þjóðarhag í þeim málum.

Í sambandi við virkjun fallvatna hafa ágjarnir og skammsýnir landeigendur freistazt til að gera ótrúlegar skaðabótakröfur á hendur virkjunaraðilum fyrir ýmis hugsanleg spjöll. sem aldrei verða sönnuð, eins og framtíðarveiðimöguleika, framtíðarfiskiræktarmöguleika og niður í það að heimta milljónir króna fyrir nakin hraunlönd og hrísmóa, sem aldrei þótti krónu virði, fyrr en bæjabjóðfélagið þurfti að leggja skika af þessu landi undir vatn, svo að hagkvæmasta virkjun yrði gerð í fallvatni, sem raun þar um. Skylt er að geta þess, að ekki breyta allir landeigendur svona, en við jafnaðarmenn teljum fráleitt, að einkaeignarráð yfir landi skuli vera með þeim hætti, að í þessa freistni skuli fallið, almenningi til stórra útgjalda og jafnvel útilokunar frá ódýrri vatnsorku.

Næst vatnsorkunni er jarðvarminn nú eftirsóttustu auðæfi landsins. Segja má, að allt suðvesturhorn landsins, þar sem meginhluti þjóðarinnar býr, sé ýmist þegar jarðhitavætt eða slík hitavæðing í undirbúningi eða vonum. Svo er og víðar um land. Meginhluti jarðvarmans, sem virkjaður er á þennan hátt, fæst úr iðrum jarðar við kostnaðarsamar boranir, sem fjöldinn borgar, en landeigandinn heimtar gögn og gæði af, oft milljónaupphæðir, án þess að þurfa að hreyfa litla fingurinn. Jarðir með jarðhita ganga á braskverði, og þurfi hinn landlausi íbúafjöldi bæjanna að leggja sína hitaveitu yfir mýri eða mó landeigandans, verður hann að greiða fyrir það stórfé fyrir landspjöll, heitir það. Enginn mundi hafa fárazt yfir greiðslum, ef í hófi væru, en slíkar eru nú fáar. Gott, ef ekki er sett lögbann á framkvæmdirnar, eins og Reykvíkingar fengu smjörþefinn af í sumar. Jafnaðarmenn telja einkaeignarráð yfir jarðvarma, sem almannafé þarf til að ná og nýta í þágu almennings, fráleitt og leifar af úreltum eignarréttarhugmyndum. Því leggjum við til, að allur jarðvarmi undir 100 metra dýpi verði lýstur alþjóðareign, sem og öll verðmæti í jörðu, á landi og landgrunni, sem finnast fyrir atbeina ríkisins eða leyfi ríkisins þarf til að leita eftir, og skuli það háð valdi ríkisins.

Enda þótt margir í röðum okkar jafnaðarmanna telji þau eignarráðin á landinu einföldust og æskilegust og það hljóti að vera framtíðarmarkið, að þjóðin í heild eigi landið allt, þá gerir þáltill. þessi ráð fyrir, að bændur eigi bújarðir sínar sjálfir, meðan þeir kjósi þann háttinn á, fremur en hafa þær á erfðafestu, og jarðir geti gengið kaupum og sölum til búsetu og búrekstrar. Við, sem erum aldir upp í sveit, þekkjum, hve tengslin milli moldar og manns geta orðið tilfinningabundin og við virðum þá kennd og höldum í heiðri. En við teljum brask með jarðir ekki eiga rétt á sér. Því þurfi að setja glögg og ótvíræð ákvæði um jarðasölur og hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Þessar aðilar hafi alltaf forkaupsrétt án þess að þurfa að sæta afarkostum brasksins og því þurfi að setja ákvæði í lög um það, hvernig bætur skuli reiknast fyrir þessi jarðarlögn, eins og segir í 6. lið þáltill.

Þær eignarráðshugmyndir, sem hér eru settar fram um landið, gögn þess og gæði, hafa vakið mikla athygli og kallað bæði á jákvæð og neikvæð viðbrögð, þau síðarnefndu sum hver byggð á misskilningi að minni hyggju. Heyrt hef ég menn segja, að hér sé á ferð mjög róttæk breyting á eignarráðshugmyndum, jafnvel sé um eignarupptöku að ræða, ef að lögum yrði. Einn af andmælendum þessara hugmynda okkar jafnaðarmanna um eignarráð á gögnum lands og gæðum, þóttist fyrir tveimur árum sanna með einni setningu, að bændur landsins ættu ótvírætt allt landið. Þeir eiga landið, sem yrkja það og nota það, sagði hann. Gott og vel. Að yrkja er að rækta. Notkun lands, eins og bændaþjóðfélagið fól í því hugtaki, hef ég þegar skilgreint. Hér er því haldið fram, að bóndinn eigi ræktarjörð sína, beitarjörð sina, heyöflunarjörð sína, hlunnindi þau, sem hann getur sjálfur nýtt. En þau gögn landsins og gæði, sem alþjóðarframtak, alþjóðarfé þarf til, að þjóðin fái notið, eiga að vera alþjóðareign, virkjunarrétturinn, fiskiræktarrétturinn, vatnsorkan, jarðvarminn, hugsanlegar námur. Landið á sá, sem yrkir það og notar það, í þessum tilvikum alþjóð, þjóðin öll, segjum við jafnaðarmenn.

Að lokum segir í þáltill. þessari: „Kveðið skal á um umgengnisvenjur við landið og viðurlög við spjöllum.“ Á síðustu árum hafa augu fjölmargra opnazt fyrir því, að mannkynið hefur þegar spillt umhverfi sínu stórlega á margan hátt, mengað loft og vatn, svo að jörðin kann að verða óbyggileg eftir nokkrar kynslóðir, verði ekki að gert hið bráðasta. Óspillt land, ómengað loft og vatn eru nú talin til hinna verðmætustu eigna hverrar þjóðar. Í þessum efnum erum við Íslendingar enn auðug þjóð, en ber þó að gæta fyllstu varúðar að spilla þeim ekki, jafnframt því sem við skulum nýta auðlindir okkar sem bezt. Hér þarf að varða veginn af fyllstu aðgæzlu, svo að hinn gullni meðalvegur verði genginn. Háskinn er á báðar hendur: of og van. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið, segir máltækið.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þáltill. þessa verði frestað að loknum þeim umr., sem nú kunna fram að fara, og málinu verði vísað til allshn.