22.11.1972
Neðri deild: 17. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Forseti (GilsG):

Ég sé nú ekki, að það hafi neinn skynsamlegan tilgang, að ég fari að munnhöggvast hér frekar við hv. 7. þm. Reykv. um þetta mál. Mér þykir sérstök ástæða til að stytta mál mitt vegna þess, að milli mín og hv. þm. er enginn ágreiningur um, að það sé rétt og skynsamlegt að sporna eftir föngum við því, að varamenn komi inn að þarflitlu. Ég hef aldrei látið annað í ljós og mun ekki gera. En ég vil ekki fara að þreyta hv. þdm. á því að endurtaka það, sem ég hef áður sagt í sambandi við það einstaka tilfelli, sem hér er um að ræða.

Hv. þm. talar um, að æskilegt sé að fresta umr. um þetta tiltekna mál vegna fjarvistar hæstv. sjútvrh. Ég sé ekki ástæðu til þess vegna þess atviks, sem hér hefur aðallega verið til umr., þar sem vitanlega er hægt að ræða það og stefnuna í varamannamálinu, í framtíðinni án tillits til þess, hvort þetta mál fengi afgreiðslu nú eða ekki.

Ég vil í sambandi við málið, sem á dagskrá er, benda á, að ég hygg, að það sé að verða nokkuð brýnt, að það verði að lögum í einhverri mynd, og það er enn í fyrri d. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm., hvort hann geti fallizt á það, að umr. um þetta mál ljúki hér í d., en hitt atriðið verði eftir sem áður tekið upp, sem hann hefur rætt hér aðallega um. En ef hann telur miklu máli skipta, að 3. umr. verði frestað, þá skal ég, eins og ég sagði áðan, verða við því.