23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

68. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Þingið hefur nú hlýtt á þrjá fulltrúa hinna 3000 landeigenda tala gegn því, sem einn fulltrúi 200 þús. landlausra var að segja við ykkur í gær. Ekki veit ég, hvernig þm. hefur getizt að málflutningnum, á hvorn veginn sem var. En ég hjó eftir því, að hinir 3 fulltrúar landeigendanna sneiddu eiginlega gersamlega hjá því, sem ég taldi megininntak þessarar þáltill., að gera upp hinn gamla eignarrétt bændaþjóðfélagsins og sýna fram á röksemdir bæja- og borgaþjóðfélagsins fyrir því, að ýmsar eignir, sem hafa verið bundnar landinu og þeim, sem þar hafa setið á jörðum, ættu að fara yfir á hendur landsins alls, af því að þjóðin öll þarf á gögnum þeim og gæðum að halda, sem ég gerði aðallega þar að umtalsefni.

Ef við lítum á till. eins og hún liggur hér fyrir, — það er eins og menn séu að ræða um frv., en þetta er þáltill., — er þar kveðið svo á, að ríkisstj. láti sérfróða menn semja frv. að lögum um eignarráð og eignarréttindi yfir landinu. Þetta er ekki óskaplega hættulegt, að ríkisstj. skipaði sérfróða menn til þess að athuga þessi mál gaumgæfilega frá ýmsum sjónarmiðum. En einhverra hluta vegna eru fulltrúar landeigenda mjög hræddir við þetta. Þeir töluðu hér mest um viðhorf bóndans til jarðarinnar eða eign bóndans á jörðinni. En einmitt var í framsöguræðu minni bent á, að í raun og veru værum við ekki að róta svo mjög við því, sem bóndinn hefði áður og lengi talið fyrst og fremst eign sina, bújörðinni, bundið við það, sem hann gæti nýtt af gögnum hennar og gæðum á yfirborði jarðar. En það væri nauðsynlegt vegna breyttra hátta að breyta þessum eignarráðum á ýmsa lund, svo að fjöldinn, almenningur, sem býr í landinu, gæti notið þeirra gagna og gæða, sem allir sækjast nú eftir í þjóðfélaginu, og eru það þá fyrst og fremst vatnsaflið og jarðvarminn.

Hér var rætt um það áðan, að það virtist svo, að við hugsuðum okkur, að bóndinn mætti áfram braska með jörð sína í sambandi við búskapinn. Ég hygg, að það verði ekki ýkjamikið um brask, þegar jörð er seld úr hendi bónda til annars bónda til búrekstrar. En í sambandi við þetta þykir mér þó ástæða til að minnast á, að það hefur oft verið rætt um það af hálfu bænda, að það væri í raun og veru einkennilegt fyrirkomulag, að bóndinn, sem er búinn að yrkja jörð sína einn mannsaldur, eiga kannske og ala upp 4 börn, síðan væri hann að selja nýrri kynslóð þessa jörð og peningarnir, sem fyrir jörðina væru greiddir, gengju í flestum tilfellum til manna, sem væru að flytjast í þéttbýlið. Bóndinn væri að selja aftur og aftur jörðina, sem sæti kyrr í sveitinni, en peningarnir, sem fyrir hana væru greiddir, gengju í kaupstaðinn. Nokkuð mætti setja undir þennan leka með því, að jörðin, landið, væri alltaf ríkiseign og maðurinn, sem vill búa þar, þyrfti ekki að gjalda nema fyrir húsin og ræktunina. Og það er m.a. það, sem er skoðun okkar jafnaðarmanna, a.m.k. margra hverra. Í hverjum einasta flokki eru mismunandi skoðanir um ýmsa hluti, en það er skoðun okkar margra hverra, að þetta væri hagkvæmara fyrir bóndann. Og ég held, að maður, sem tekur jörð á erfðafestu, finni ekki, þegar frá líður, mikinn mun á því, hvort hún er hans raunverulega eign eða ekki. Hann mundi alveg eins vel sitja jörð, sem hann hefði að erfðafestu, eins og þótt hann hefði goldið fyrir hana svo og svo mikið fé.

Hér var líka gagnrýnt áðan og verið að tala um eignaupptöku. Í sambandi við það vil ég benda á, að það er ekki lengra síðan en í gær, að ég sat á fundi með fulltrúum frá stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, og þar var einn í þeim hópi að ræða um það, hvort alþm. væru nokkuð farnir að hreyfa því, að sett yrðu lög um, hvernig meta skyldi eignir til endurgjalds, ef þær væru teknar eignarnámi, og benti á, að það væru um þetta harla óljósar reglur, mat á eignum, sem væru seldar eða teknar eignarnámi, virtist ekki fylgja neinum ákveðnum reglum. En í þessari till. er einmitt farið inn á það, að setja skuli um það skýlaus ákvæði, hvernig landeign og landnytjar færðust úr einkaeign í eign ríkis eða sveitarfélaga og hvernig bætur skuli reiknast fyrir. Um þetta hygg ég, að ættu að geta verið óskiptar skoðanir, að það er nauðsyn á að setja ákvæði um þetta í lög.

Áðan var hér sagt, að till. gerði ráð fyrir því, að t.d. veiðiréttur og fiskræktarréttur væri gerður upptækur, án þess að nokkrar bætur kæmu fyrir. Þetta er ekki rétt. Það er tekið fram í till., að greiddur sé arður til landeigenda samkv. arðskrá. Þeim er ætlað að fá greiðslur eftir vissum ákvæðum fyrir þessi ítök sín í veiðiárnar.

4. þm. Sunnl. las hér upp umsögn Dómarafélags Íslands frá fyrra ári um þá till., sem þá lá fyrir, en þessi er ofurlítið breytt. Einu sinni kom út þjóðsagnasafn norður í landi, sem hét og heitir Gríma. Ein af þjóðsögunum, sem þar var tilfærð, var höfð eftir manni, sem Baldvin Jónatansson hét. Hann kvað heimildarmann sinn Önnu Jónsdóttur, þar eð hann hefði áður sagt henni. Mér datt þetta ósjálfrátt í hug, þegar hv. 4. þm. Sunnl. las upp umsögn Dómarafélags Íslands, því að ég veit ekki betur en hann sé höfundur að umsögninni sjálfur.

Umsögn Búnaðarfélags Íslands var, ef ég man rétt, samin af Halldóri Pálssyni búnaðarmálastjóra, og allir vita, að hann er ákveðinn fulltrúi landeigenda, svo að það lá nokkuð ljóst fyrir, hvað lá á bak við þá umsögn.

Enn fremur var hér sagt áðan, að það virtist ætlun tillögumanna, að ríkið leysti til sín allar bújarðir í einu lagi. Þetta er alls ekki sagt í till. Það er einmitt tekið fram, að bújarðir megi ganga kaupum og sölum til búrekstrar, meðan bændur kjósi þann hátt á fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Og hér kem ég að því, sem ræðumenn áðan voru töluvert að fara inn á, að formaður Alþfl. hefði sagt í viðtali, að þetta yrði ekki á örfáum næstu árum, að allt landið yrði að alþjóðareign. Það liggur í hlutarins eðli, að slíkt mun taka allmörg ár. Það eru sjálfsagt fleiri bændur en Pálmi Jónsson á Akrí og Björn Pálsson á Löngumýri, sem vilja eiga sínar jarðir, þó að sett yrði undir þann leka, að þeir, ef þeir vildu, sem ég er ekki að væna þá um, vildu braska með jarðir sínar vegna veiðiréttindanna.

Björn Pálsson, 3. þm. Norðurl. v., var að tala um, að það gæti þá alveg eins komið til mála, að ríkið ætti sjóinn. Er það ekki það, sem við erum að halda fram, að við eigum landhelgina, að ríkið allt eigi landhelgina kringum landið og vilji hafa þar yfirráðarétt á. En okkur hefur aldrei dottið í hug, — og þetta er einmitt ágætt dæmi til samanburðar, — okkur hefur aldrei dottið í hug, að einhver ákveðinn landeigandi ætti þetta eða hitt miðið út af jörð sinni.

Hér var talað um veiðileyfin og það væri ekkert við það að athuga, að erlendir menn fengju að veiða í ánum, af því fengjum við þó nokkurn gjaldeyri, sem væri gott fyrir landsbúa að fá. Ég er því að vissu marki sammála. Þó hygg ég, að veiðiár okkar og veiði- og fiskræktarmöguleikar okkar eigi fyrst og fremst að vera bundnir við landsmenn og að gjaldeyristekjurnar, ef talsverðar eru, mættu gjarnan koma betur fram en grunur leikur á, að skilað sé í ríkiskassann nú. Man ég ekki betur en einmitt í víðlestnasta blaði landsins, Morgunblaðinu, væri í fyrra alllöng grein, þar sem var verið að benda á, að gjaldeyristekjur, sem bændur fengju í sinn lófa eða veiðifélög frá erlendum mönnum, skiluðust illa í ríkiskassann.

Eins og ég sagði í upphafi orða minna, er a.m.k. í mínum huga höfuðmark þessarar þáltill., að ríkið, þjóðin öll, fái umráð yfir fallvötnunum og jarðhitanum, þessum gögnum og gæðum, sem alþjóð þarf að nota, og einkaeignarrétturinn megi ekki hindra fyllstu og beztu nýtingu á þessum gögnum landsins og gæðum.