23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

68. mál, eignarráð á landinu

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það hefur orðið mikil breyting á búsetu í landi okkar á undanförnum áratugum, breyting frá því, að þetta var fyrst og fremst dreifbýlisþjóðfélag, til þess, sem nú er, að langmestur hluti þjóðarinnar býr í þéttbýli. Með þessu hefur einnig fylgt sú breyting, að verulegur hluti þjóðarinnar, eins og flm. hafa vakið athygli á, á að nafninu til lítið í þessu landi, það eiga fáir. Ég er því ekkert undrandi á því, að slík krafa komi fram, eins og birtist í þessu þskj., og það er fullvissa mín, að ef ekki verður fundin einhver leið til samkomulags milli þess mikla fjölda, sem byggir eyrina, og hinna, sem eiga landið, þá verði þessi krafa háværari. Og ég óttast, að þeir, sem hafa, að því er þeir telja, hagsmuni landeigenda fyrir brjósti, muni eiga erfiðara að verja þá hagsmuni, þegar fram líða stundir og meiri fjöldi landsbúa verður fjær þessum mönnum, þessum eigendum landsins, og skilur síður það, sem hér er um að ræða. Þá óttast ég, að þetta verði hrifsað.

Ég er mjög fylgjandi því, að einstaklingar eigi landið að skynsamlegu marki. Ég get ekki fylgt þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, eins og hún er nú, — alls ekki. Hins vegar hefur þess verið getið, að lögð var fram þáltill. á síðasta þingi, og að vísu var sagt, að till. hefðu verið svipaðar, en í mínum huga var þar mikill munur á. Sú till. gekk ekki nálægt því eins langt og þessi. E.t.v. eru þetta merki um vaxandi kröfur þéttbýlisins á hendur dreifbýlinu. Ég gat vel skoðað hug minn um það að fylgja þeirri þáltill., sem fram var lögð á síðasta þingi, e.t.v. með nokkrum breytingum þó. Ég fyrir mitt leyti harma því, að þeir Alþfl.- menn skuli hafa teygt sig svo langt í þessari till. Ég hefði kosið fremur, að við hefðum getað rætt þetta á einhverju plani, sem væri fremur aðgengilegt fyrir okkur fleiri.

Ég er í grundvallaratriðum fylgjandi 1. lið till., sem fjallar um hálendið, sérstaklega það, sem þeir kalla almenning, þó að það sé teygjanlegt hugtak. Mér sýnist eðlilegt, að þessi hluti landsins sé eign okkar allra, og það væri æskilegt, ef löggjafarvaldið vildi taka af öll tvímæli um það. Mér sýnist þetta einnig vera sú stefna, sem dómstólar hafa nokkuð markað upp á síðkastið. Þennan lið mætti skoða, og væri gott, ef n. á vegum hins opinbera kannaði það og legði fyrir frv. um þann þáttinn.

En það, sem hvatti mig fyrst og fremst til þess að standa hér upp, var að taka undir orð hv. 5. þm. Norðurl. v., þar sem hann sagði, að nauðsynlegt væri, að eitthvert samkomulag næðist með veiðiréttareigendum og þeim, sem vilja veiða. Ég veit, sem betur fer, að margir fulltrúar bænda hafa sagt svipað, og þeir skilja það, og kemur það mjög af því, sem ég sagði í upphafi. Þarna er um vissa eign að ræða, sem við íbúar þessa lands teljum okkur allir eiga nokkra hlutdeild í. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að í sambandi við eignaraðild að jörð t.d. er ekki leyfð frjáls ráðstöfun. Það er ekki leyft að ráðstafa slíkri jörð til erlendra manna. Í sambandi við afurðir af jörðum landsmanna er ekki heldur leyfð frjáls verzlun. Það er ekki leyft að flytja inn erlendar búvörur til þess að keppa við það, sem þannig er framleitt. Og ég vil taka það fram, að ég er þessu hvoru tveggja fylgjandi og tel það vera nauðsynlegt af þjóðhagslegum ástæðum og eðlilegt. En hvers vegna á að gilda annað þarna um eitt enn, þ.e.a.s. veiðiréttinn? Á ekki veiðirétturinn að falla undir svipuð lög, ekki sízt með tilliti til þess, að eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. gat réttilega um, þá lítur vaxandi fjöldi landsmanna á þessi hlunnindi sem mikilvægan þátt í sínum lífsgæðum og lífskjörum? Ég held því, að það þurfi einnig og það fyrr en síðar að verða samkomulag með þeim, sem eiga þennan veiðirétt, og öðrum landsmönnum, sem vilja gjarnan njóta hans. Ég hvet til þess, að stefnt verði að slíku samkomulagi fyrr en síðar, því að ég óttast, að annars muni hinn vaxandi fjöldi, sem þarna á ekkert, hrifsa til sín. Á þetta vil ég leggja sérstaka áherzlu.

Hv. þm. gat sérstaklega um eina laxveiðiá fyrir norðan og taldi, að þar væri aldrei skortur á Íslendingum, sem vildu veiða. Það vill nú svo til, að ég þekki dálítið til þessara mála. Í þessari á er takmark sett, 20 laxar á stöng á dag. Það mun vera einsdæmi í þessu landi. Þetta er líka alveg sérstök á. Ég þekki ýmsa menn, sem þangað fara. Þeir fara þangað og greiða gífurlega hátt verð fyrir veiðileyfið vegna þess, að þeir sjá nokkra von í því að fá laxa upp í kostnað. Þetta er sá andi, sem alls ekki á að ríkja við slíka útivist. Þarna hefur verið hægt að veiða næstum því gegndarlaust og orðið að setja þetta hámark. Hins vegar held ég, að ég fari með rétt mál. þegar ég fullyrði, að hv. þm. á hlut í annarri á. Þar hefur að vísu ekki þurft að setja neitt slíkt hámark. Það er góð á, en langt frá því að vera eins fiskisæl og sú, sem bann nefndi. Sú á er leigð útlendum mönnum yfir allan bezta laxveiðitímann, og það kemst, að því er ég bezt veit, enginn Íslendingur þar að. Íslendingar komast þar aðeins að snemma á laxveiðitímanum og siðast, þegar hann er lélegastur. Og þannig mætti lengi rekja þessi mál. Það er sannfæring mín og ég hygg allra, sem til þekkja, að markaðurinn fyrir þessi lífsgæði er nálægt því ótakmarkaður og við erum aðeins að byrja að snerta við hinum alþjóðlega markaði. Hver erlendur maður, sem kemur hingað og greiðir jafnvel 20–22 þús. fyrir veiðina á dag, ber með sér marga á næsta ári. Þetta hefur verið reynslan. Þetta er ekki stórfé í augum þessara manna, sem hafa margfaldar tekjur á við það, sem hér tíðkast, — ég leyfi mér að segja sem betur fer, því að hér er meiri jöfnuður í launum, — og þetta eru lífsgæði, sem þeir hafa sóað og eytt í sínum löndum.

Ég held, að það beri að fara með þessi mál af mikilli varúð og mikilli alvöru, bæði réttinn til eignar landsins, og reyna að finna þar, eins og ég sagði í upphafi, eitthvert samkomulag, og ekki síður réttinn til gæða landsins, þar með talinn veiðiréttinn.