18.10.1972
Neðri deild: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

18. mál, Landhelgisgæsla Íslands

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. sagði hér áðan, að ekki væri vanþörf á, að landsmenn sýndu Landhelgisg. ofurlítið meiri skilning og þetta er sannarlega rétt. Það veitir sannarlega ekki af, að Landhelgisgæzlunni sé sýndur meiri skilningur og þeim mönnum, sem þar eru í fremstu línu, og veittur allur sá styrkur, siðferðilegur a.m.k., sem við getum veitt þessum mönnum, við, sem erum í landi. Ég skal taka dæmi.

Núna ekki alls fyrir löngu kom þýzka aðstoðarskipið Poseidon, það skip, sem Þjóðverjar hafa til aðstoðar veiðiþjófum sínum hér á Íslandsmiðum, inn til Akureyrar með sjúkan mann eða slasaðan, sennilega tvo, og skip þetta bað um vatn, það bað um olíu, að sjálfsögðu til þess að þurfa ekki að fara eitthvað annað til að sækja vatn og olíu, til þess að geta verið lengur á miðunum, þurfa ekki að telja sig frá því að veita veiðiþjófunum stuðning. Hvort tveggja var þessu skipi veitt, olían og vatnið. Og sömu sögu er að segja um brezka skipið Girolana, sem er líka til aðstoðar veiðiþjófum hér, brezkum. Það kom hér í fyrradag inn í Rvíkurhöfn með sjúkan mann eða slasaðan, og það fékk vatn. Ég held, að það hafi ekki beðið um olíu, en það liggur í augum uppi, að það hefði fengið hana eins og Poseidon fékk norður á Akureyri. Þetta vil ég kalla reginhneyksli. Og þetta kalla ég líka, að við í landi bregðumst Landhelgisgæzlunni. Hér er um að ræða skip, sem kalla má forustuskip þeirra sjóræningjaflota, sem hafa sig nú í frammi á Íslandsmiðum, sjálf flaggskipin, sem hljóta þessa þjónustu í höfnum okkar, hvenær sem þau biðja um. Og óneitanlega ferst öðrum nokkuð stórmannalegar í þessari baráttu fyrir landhelgismáli Íslendinga, öðrum en okkur sjálfum, og það eru Færeyingar, sem harðneituðu svona þjónustu, þegar fram á hana var farið af hálfu þeirra, sem brjóta lög á Íslendingum. Ég verð að segja, að maklegar þakkir, sem hæstv. forsrh. tjáði Landhelgisgæzlunni áðan, sannarlega maklegar, hefðu líka mátt fara til vina vorra, Færeyinga, fyrir stuðning þeirra. Þeir veita Landhelgisgæzlu okkar enn þá meiri siðferðilegan stuðning heldur en við gerum sjálfir.

Ég vildi aðeins vekja máls á þessu og láta í ljós þá von mína, að þessu hneyksli linni. Og ég vil beina því til hæstv. forsrh., þó að það megi e.t.v. segja, að þetta heyri ekki undir hans rn., — ég veit reyndar ekki, undir hvaða ráðh. þetta mundi heyra en það mundi heita siðgæðismálarn., — en ég vil beina því til hæstv. forsrh., að hann tjái hug sinn um þetta mál.