23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

68. mál, eignarráð á landinu

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram.

Hv. 5. landsk. þm. virtist ganga út frá því sem gefnu hér áðan,eins og þegar hefur verið drepið á af síðasta ræðumanni, að hann talaði hér sem fulltrúi 200 þús. manna, við hinir, sem andmæltum þessari till., værum hins vegar fulltrúar 3000 landeigenda. Þetta er að mínu mati mikill misskilningur, og nægir að vitna til þeirra grundvallarsjónarmiða, sem hv. síðasti ræðumaður rakti hér áðan og eiga m.a. sinn mikla þátt í að skipa mönnum í stjórnmálaflokka hér á landi og annars staðar. Þetta er að mínu mati alger misskilningur, og hér er ekki verið að takast á um neitt, sem er í hugum þjóðarinnar einungis hagsmunir, réttur og skoðanir 3000 manna, sem eiga land, og allir aðrir landsmanna eru á móti.

Hv. flm. kvartaði undan því, að við, sem andmælt hefðum till. hans, hefðum ekki faríð neitt inn á það, sem hann kallaði aðalatriði þessa máls, en það væri uppgjör á milli hins forna og rótgróna bændaþjóðfélags, sem ríkt hefur hér á landi frá upphafi og fram undir þessa daga, og þess, sem hann kallaði bæja- og borgaþjóðfélagið í dag. Ég lít svo á, að á milli þessara viðhorfa þurfi ekki að fara fram neitt endanlegt uppgjör. Það er hins vegar ljóst, að með hliðsjón af þeim breyttu þjóðfélagsaðstæðum, sem orðið hafa í okkar landi m.a. af þessum sökum, er vissulega þörf á að skipa málum nokkuð með hliðsjón þar af. M.a. þess vegna kom ég inn á það, að þau viðhorf eru rík í hugum fólks nú, að það þurfi að sjá öllum landsmönnum fyrir aðgangi að landinu, frjálsum aðgangi að skipulögðum svæðum, þar sem fólk getur notið frístunda sinna í nánu samneyti við ferska og óspillta náttúru þessa lands. Þessum atriðum gerði ég nokkur skil í máli mínu hér áðan og ætla ekki að endurtaka það. Ég lít á það sem einn þáttinn í því að mæta þeim breyttu viðhorfum, sem nú eru í þjóðfélaginu, en þau breyttu viðhorf kalla alls ekki að mínu mati á þau þjóðnýtingaráform, sem þessi þáltill. boðar. Og þar skilur mjög á milli.

Hv. flm., 5. landsk, þm., taldi, að þessi till. væri aldeilis ekki hættuleg. Hér væri ekki um mikið mál að ræða. Að hans áliti var hér einungis um það að ræða að leggja fyrir ríkisstj. að skipa n. sérfróðra manna til þess að semja frv. að l. um eignarráð og eignarrétt yfir byggðu og óbyggðu landi, stöðuvötnum og fallvötnum og hvers konar gæðum og vinnslu þeirra úr jörðu. Hér væri aðeins um þáltill. að ræða. En hann virtist hafa gleymt framhaldinu. Hann virtist hafa gleymt því, að í næstu setningu segir á þskj. 72: „Við samningu frv. eða frumvarpa að lagagerð þessari sé m.a. þessa gætt“, og þar koma aðalatriðin í þessu máli nánar skilgreind, sem eru eignaupptaka og ráðagerðir um að þjóðnýta landið allt — í fyrsta lagi hluta þess og sem framtíðaráform landið allt. Hér er því alls ekki smátt mál á ferðinni, eins og raunar hv. síðasti ræðumaður, 9. landsk. þm., hefur vakið glögglega athygli á.

Hv. 5. landsk. þm. lét þess getið, að svo virtist sem við andmælendur þessarar till. hefðum misskilið einn þátt hennar, sem sé þann, að veiðiárnar og arður af veiðiréttindum ætti ekki að falla bótalaust til ríkisins. Nú er út af fyrir sig um sjálfa eignaupptökuna það að segja, að það er opið í till. sjálfri, hvort bætur skuli koma fyrir eða hve miklar og hvernig þeim skuli háttað. Um það, sem flm. gerði hér að umtalsefni, vil ég vekja athygli á því, að ef veiðiárnar og veiðivötnin væru komin í eigu ríkisins, þá er það væntanlega skv. þeim röksemdum, sem lesa má út úr grg. frv.,m.a. gert til þess að koma í veg fyrir ofsagróða einstakra manna og til þess að koma í veg fyrir brask og uppsprengt verð á þessum hlunnindum og þá ekki síður á leigu fyrir þessi hlunnindi til einstakra veiðimanna. Ef einhver meining er í þessu öllu, þá hlyti það vitaskuld að fylgja eign ríkisins á þessum réttindum, að komið yrði í veg fyrir, að þessi hlunnindi, þessi aðstaða að geta fengið að veiða lax og silung í veiðivatni, kostaði mikla fjármuni. Þar með væri vitaskuld sýnt, að arðurinn yrði ekki mikill eða a.m.k. stórum minni en hann er í dag og lítur út fyrir, að hann verði í framtíðinni með sömu skipan. Og svo segir einnig, að þessi arður skuli eftir arðskrá falla til jarðeiganda. Jarðeigandi er vitaskuld ríkið, eftir að þeim stefnumiðum, sem þessi till. boðar, er fullnægt, því að það segir í 2. tölul., að sú grundvallarregla verði mörkuð, að stefnt skuli að því að allt landið verði með tímanum alþjóðareign“, — og í 3. tölul.: „stöðuvötn í afréttum og öll fallvötn verði lýst alþjóðareign. Ríkið eitt geti leyft og leigt fiskræktar- og veiðirétt“. Þar með, ef litið er til lengri tíma, þá er vitaskuld tómt mál um það að tala, að þeir, sem nú teljast eigendur þessara réttinda, fái í sínu vasa þann arð, sem af þeim sprettur, þó svo að viðurkennt skuli, eins og flm. þessarar till. hafa hér talað um, að þetta gerist ekki í einni svipan.

Í sambandi við þetta vil ég aðeins víkja að því, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. um veiðiárnar, og þeim hugleiðingum hans, sem voru mjög á reiki, og hann sló engu föstu, en hann gat um það sem hugsanlega leið, að sveitarfélögin fengju ákveðinn hluta af veiðiarði. Þetta er e.t.v. hugsanleg leið. En hv. þm. láðist vissulega að geta þess, að sveitarfélögin fá talsverðan hluta af veiðiarði í sínar hendur í gegnum útsvör, og meira að segja, ef þessi réttindi eru í eigu utansveitarmanna, þá er þar mjög aukið álag á eða allt að áttfölduð sú skattheimta. Enn fremur fær ríkið í sínar hendur við skattlagningu mjög góðan hluta af þeim veiðiarði, sem einstakir veiðibændur fá í sinn vasa. Þessu atriði má vissulega ekki gleyma, þegar menn tala um, að þessi hlunnindi og arður af þeim renni eingöngu til veiðibændanna.

Það voru ekki mörg fleiri atriði, sem ég vildi gera aths. við í máli hv. 5. landsk. þm. Hann vitnaði til ræðu hv. þm. Björns Pálssonar um eignarráð á hafinu og sjónum kringum landið. Nú er það svo, að hverri jörð, sem á land að sjó, fylgir ákveðið belti, og er það til samræmis við vatnalög, eða um 115 metra beitt belti, sem hver jörð, sem land á að sjó, á. Það mundi auðvitað fylgja jörðunum, ef þær færu til ríkisins, eins og önnur réttindi. Í þessu sambandi vil ég aðeins drepa á eitt atriði, sem út af fyrir sig kemur þessu máli þó ekki mikið við. En ég hef orðið þess var, að ýmsir þeir bændur, sem eiga varplönd, eru mjög óánægðir yfir því, hvað þetta belti er mjótt, vegna þess, að þegar æðarfuglinn fer með unga sína til sjávar, þá hagar víða þannig til, að það er girt fyrir utan þetta belti af grásleppunetum svo þétt, að mjög mikill hluti af ungastofninum ferst þar. Þetta er auðvitað sérmál. sem ég vildi aðeins vekja hér athygli á, úr því að þessi þáttur kom inn í þessar umr.

Hv. flm. sagði í sinni framsöguræðu, að veiðisportinu og veiðiánum væri varpað á braskmarkaðinn, og hann talaði um græðgiseign á veiðirétti. Þetta voru mjög smekklegar kveðjur til okkar, sem eigum þessi réttindi. Ég gat um það hér áðan, að það er ekkert efamál. að þörf er á hví að efla einhverja sjóði, sem sveitarfélögin geta sótt til. til þess að geta nýtt forkaupsrétt sinn, ef þau telja betur henta, að sveitarfélagið kaupi jarðir, sem sótt er í af utanaðkomandi aðilum, og sú leið er vel fær til þess að koma í veg fyrir, að veiðiárnar og veiðijarðirnar lendi í höndum þeirra manna, sem það er ekki talið henta.

Um ræðu hv. þm. Steingríms Hermannssonar, 1. þm. Vestf., vil ég aðeins segja örfá orð. Hann talaði mikið um, að það þyrfti að finna einhverja millileið, og hann lýsti því þó yfir, að hann gæti ekki fylgt þessari till., og var þakkarvert. Hann sagðist hins vegar hafa skoðað hug sinn mjög um það, hvort hann fylgdi till. eins og hún var orðuð á síðasta Alþ. Í framhaldi af þessum hugleiðingum sínum um millileiðina virtist mér hann gera mér upp orð um ósamkomulag á milli veiðiréttareigenda og veiðimanna, — ég orðaði það ekki á nokkurn hátt, ég tel, að yfirleitt sé því svo háttað, að samstarf veiðiréttareigenda og leigutaka sé gott, — og eitthvert samkomulag sem millileið í því efni yrði, að mér skildist, á þann veg að veita leigutökum einhverja aukna hlutdeild í þessari eign. Ég gat ekki skilið ræðu hans á annan hátt, því að hann sagði í framhaldi af þessu: Til þess að koma í veg fyrir, að leigutakarnir hrifsuðu ekki til sín þessi réttindi. — Ég er honum öldungis ósammála um þetta atriði og tel, að eignarrétturinn eigi að gilda í þessu efni sem á öðrum sviðum þessa máls. Og ég lít svo á, að það sé a.m.k. yfir höfuð og alls staðar þar sem ég þekki til gott samstarf á milli leigusala og leigutaka um þessi réttindi.

Ég skal ekki orðlengja þetta meira að sinni. Ég taldi mig þurfa að gera örfáar aths. við þau atriði, sem hér hefur verið drepið á, en ég ítreka það, að hér er um að ræða, að ég hygg, mestu þjóðnýtingartill., sem lögð hefur verið fram á Alþingi Íslendinga. Það er vitaskuld ekkert við því að segja, að hv. þm. einstakra flokka reyni á þennan hátt og annan að skýra stefnu sína sem bezt með flutningi einstakra mála, svo sem gert er með þessu þskj. En ég lít svo á, að hér sé um svo mikið grundvallarmál að ræða og mál, sem fari í berhögg við ekki einasta þau atriði, sem ég ræddi um í minni framsöguræðu, heldur einnig í berhögg við vilja og skoðanir meginþorra landsmanna, að það sé ekki áhorfsmál, að þessa till. á Alþingi Íslendinga beri að fella.