23.11.1972
Sameinað þing: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

68. mál, eignarráð á landinu

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að þreyta þm. ekki með löngu spjalli, en ástæðan til þess, að ég kvaddi mér aftur hljóðs, var sú, að mér finnst hv. 5. þm. Norðurl. v. leggja dálítið annan skilning í ýmislegt í þessari till. heldur en ég sem einn af tillögumönnum geri. Að vísu tók hv. 8. landsk. fram sumt, sem ég annars hefði viljað koma hér á framfæri.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. lítur á þetta sem mjög mikla eignaugptökutill. og bendir á, hvað eigi að felast í frv. Hann tók t.d. 1. tölulið: „Allt hálendi landsins og óbyggðir, að svo miklu leyti sem skýlausar eignarheimildir annarra aðila en ríkisins liggja ekki fyrir, sé lýst alþjóðareign“. Þarna lít ég á, að sé verið að taka fram það, sem eru ekki skýlausar eignarheimildir á, og eins og flestir vita, þá hlýtur þarna að vera átt við afréttir, sem í margra hugum eru fyrst og fremst almenningseign, þó að viss sveitarfélög slái eign sinni á þær.

Í öðru lagi er hér sagt: „Sú grundvallarregla verði mörkuð, að stefnt skuli að því, að allt land verði með tímanum alþjóðareign (eign ríkis eða sveitarfélaga), en bújarðir megi ganga kaupum og sölum til búrekstrar, meðan bændur kjósa þann hátt á, fremur en hafa lönd sín á erfðafestu. Ríki og sveitarfélögum sé þó tryggður forkaupsréttur á öllu landi.“ Hér er greinlega mörkuð sú stefna, að meðan bændur óska eftir, geti þeir átt sínar bújarðir, selt þær og keypt, eftir því sem þeir vilja, en þegar jarðir eru seldar til annarra, þá hafi ríki og sveitarfélög forkaupsrétt. Og í 6. lið er tekið fram, að glöggt sé kveðið á, hvernig landareign og landnytjar færist úr einkaeign í eign ríkis og sveitarfélaga og hvernig bætur skuli reiknast fyrir. Það er greinilega hugsað, að bætur komi fyrir, þegar eignin fer úr höndum bænda, svo að þetta er ekki eignaupptaka að minni hyggju. En það, sem má skilja sem eignaupptöku, er fólgið í 3., 4, og 5. lið, og hv. 9. landsk. gerði einmitt þau atriði að umtalsefni, og kom fram hjá honum, sem ekki var nema eðlilegt, þar sem hann er lögfræðingur að mennt, að hann fór að velta fyrir sér lögskýringu stjórnarskrárinnar. Að lokum, eftir að hann var búinn að skilgreina ýmis álit og álit sitt, mælti hann þessi orð: Þegar við gefum okkur þessar niðurstöður. — Það lá alveg greinlega í hans orðum, að hann var engan veginn alveg 100% viss um, að þetta væru réttar skýringar, m.ö.o., hann var ofurlítið hlynntur þeirri skýringu, sem ég var með hér í upphafi máls míns, að eignir, sem væru bundnar öðrum eignarhugtökum en giltu, þegar ákvæði stjórnarskrárinnar urðu til. m.ö.o. virkjunarréttinum, jarðvarmaréttinum og námuréttinum, væru alþjóðareign, en ekkert af þessu var verulega til í hugum landsmanna, þegar stjórnarskráin var sett, því að hún er gömul, eins og við vitum, aðallega eftir danskri fyrirmynd. Og það er þessi eignarréttur, sem ég hef hvað eftir annað lagt áherzlu á í mínum málflutningi. Eign, sem alþjóðarátak, alþjóðarfé, alþjóðarsamtök þarf til að nota, finnst mér og ég held okkur flm. öllum eðlilegt, að sé í höndum ríkisins: fallvötnin, sem eru undirrót vatnsorkunnar, jarðvarminn, sem ríkisfé eða ríkisforsjá þarf til þess að ná í, og námugröfturinn. Þetta mætti kannske skilja sem eignaupptöku, en er í mínum huga fyrst og fremst lögskýring á því, yfir hvað eignarrétturinn, eins og við skildum hann, á ekki að ná.

Þá vil ég aðeins geta um það, sem hv. 6. þm. Sunnl. drap á, hvers vegna við miðuðum ákvæðið um jarðvarma ekki við yfirborðið, heldur 100 metra dýpi. Hér koma fram ein rökin enn fyrir því, að við viljum ekki seilast lengra í ágangi, eins og þeir kalla það, á eignarréttinn en svo, að við erum ekki að ásælast það, sem liggur svo til á yfirborði og einstaklingurinn getur náð til með sínu framtaki, heldur viljum við, að það, sem almannaátak þarf til að ná, komi undir eign ríkisins.

Aðeins eitt að lokum: Það var í sambandi við afréttirnar, sem hv. 4. þm. Sunnl. var að minnast á í sinni ræðu, um umhirðu sveitarfélaganna og gæzlu þeirra. Mig langaði aðeins til að drepa á það, án þess að ég ætlist til. að það sé tekið sem ádeila, en t.d. á Suðurlandi hefur það verið margtekið fram í opinberum skjölum, að um afréttirnar sé ekki of vel hirt eða þeirra gætt af hálfu sveitarfélaganna, ofbeit sé að verða gengdarlítil hér á Suðurlandi, uppblástur og örfok víða, að ég held, að það veitti ekkert af, að ríkið færi að fylgjast betur með þessum málum.