27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

93. mál, almannatryggingar

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Í frv. þessu felast þrjár töluvert mikilvægar breytingar og tvær smærri, sem ég vil nú gera grein fyrir í stuttu máli.

Í 1. gr. frv. er lagt til að tekjutryggingin hækki úr 120 þús. kr. á ári í 150 þús. kr. Á þessu er m.a. sú skýring, að þegar þau lög voru sett, sem nú gilda að meginstofni um almannatryggingar, var um það töluverður ágreiningur í þeirri þn., sem að lokum fjallaði um málið, hvar ætti að setja þessi mörk, og var ég einn í þeim hópi, sem taldi, að það væri rétt að miða þá við 120 þús. kr. Niðurstaðan varð hins vegar sú, að þá var miðað við 84 þús. kr., en síðan var það leiðrétt eða bætt undir lok s.l. árs. Ég tel hins vegar, að þær breytingar, sem orðið hafa á verðgildi peninga og aðstöðu manna til lífsgæðanna, hafi breytzt þannig, að nú sé engu síður nauðsyn að hafa 150 þús. kr. tekjulágmark heldur en 120 þús. kr. lágmark um s.l. áramót. Því er hér lagt til, eins og ég gat um áðan, að lágmarkstekjurnar eða það, sem miðað er við, verði hækkað úr 120 þús. kr. á ári í 150 þús.

Í öðru lagi er lagt til í sömu gr., að ekki verði dregnar frá, þegar þessi mörk eru ákveðin, aðrar tekjur allt að 6 þús. kr. Rökstuðningurinn bak við það er sá, að þegar farið var að athuga þessi mál frá ýmsum sjónarhornum, kom það í ljós, að út féllu frá þessum tekjumörkum ýmsir þeir, sem voru með mjög lágan lífeyri úr lífeyrissjóðum verkalýðsfélaganna, og eins ýmsir, sem voru með mjög lágar vinnutekjur, eins og t.d. konur, sem gerðu hreint, eða menn, sem voru í mjög smávægilegum störfum, meira sér til ánægju heldur en beinlínis til tekjuöflunar.

Hér var verið að ræða um það í sambandi við annað frv. rétt áðan, að mér fannst ekki alveg laust við, að flm. væri að gera því skóna, að þetta væru yfirboð frá hendi okkar Alþfl.-manna, en ég vil hugga þm. með því, að þetta frv. var orðið til, áður en hitt frv. sá dagsins ljós hér í þingsölunum, svo að það er ekkert samband þar á milli, heldur liggur á bak við þetta einfaldlega sú skoðun, að þetta sé sanngjarnt og eðlilegt, eins og spilin liggja í dag.

Annað, sem hér er talsvert breytt frá fyrri lögum, er, hvernig reikna skuli eða líta á ekkjulífeyri. Breytingarnar eru tvær. Annað er heimildarákvæði og fjallar um það, að nú skuli miðað við, að ekkja þurfi ekki að hafa verið í hjónabandi nema 10 ár, til þess að hún eigi heimild á ekkjulífeyri, þó að hún sé ekki orðin fimmtug, þegar hún hættir að taka barnalífeyri. Bak við þetta liggur einfaldlega ein saga, sem ég þekki persónulega. Það má kannske segja, að það sé ekki rétt að taka svo mikið tillit til einnar sögu, en þegar hér er um heimildarákvæði að ræða, tel ég, að vel megi breyta því svo, því að auðvelt ætti að vera fyrir tryggingaráð að koma í veg fyrir misnotkun á ákvæðinu, þegar öll gögn eru skoðuð niður í kjölinn. En sú saga, sem þarna er á bak við og ég vildi geta um, er, að einn starfsmaður Kaupfélags Eyfirðinga fyrir mörgum árum dó frá ungri konu og 8 börnum. Ekkjan kom öllum þessum stóra hópi sínum upp, en var ekki nema 49 ára gömul, þegar hún hætti að taka barnalífeyri, og hún náði ekki í það að fá ekkjulífeyri skv. þessum ákvæðum, sem nú eru í gildi, og þótti mörgum hart.

Hitt ákvæðið, sem hér er lagt til. að komi til breytingar, byggist á því, sem nú er í lögum, að ekkjulífeyrir konu, sem er orðin sextug eða eldri, er miðaður við fullan ellilífeyri eða örorkulífeyri, en hins vegar fær þessi ekkja ekki tekjutrygginguna, sem felst að baki elli- og örorkulífeyrinum. Þótt hún hefði engar tekjur og væri komin um eða yfir sextugt, fengi hún ekki nema lágmarkslífeyri, þó að, eins og ég sagði áðan, aðstæður hennar væru kannske ekkert betri heldur en elli- og örorkulífeyrisþegans, því að öll þekkjum við það, að mörg ekkjan, þó að ekki sé nema um sextugt eða 62–63 ára, getur verið jafnþrotin til að ganga á vinnumarkaðinn eins og margur 67 ára gamall er.

Hin tvö atriðin, sem ég gat um, eru smávægilegri og eru eiginlega miklu frekar leiðrétting. Má segja, að sé óþarfa nákvæmni í lögum og veldur oft leiðindum og stappi, en það er í 31. gr., þar sem getið er um bætur slysatrygginga í sambandi við sjúkrahjálp. Þar stendur nú í lögum undir f-lið, að bæta skuli að fullu sjúkraflutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabíl, fyrst eftir slys. Nú stendur oft svo á, að það er hægt að koma sjúklingnum á ódýrari og jafngóðan hátt með annars konar flugvél en sjúkraflugvél eða annars konar bíl en sjúkrabíl, og virðist einkennilegt, að endilega þurfi að miða bæturnar við flutning með sjúkraflugvél eða sjúkrabil. Því er hér lagt til í frv. að orða þetta svo: „Sjúkraflutning fyrst eftir slys“ o.s.frv., vera ekki að taka fram endilega um sjúkraflugvél eða sjúkrabíl.

Hitt atriðið er aðeins síðar í sömu gr. Þar er sagt, að greiða skuli að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni o.s.frv. Hérna er líka lagt til, að þetta sé orðað einfaldara og sagt: „Að hálfu ferðakostnað til læknis með leigubíl, enda sé sjúklingur ekki fær um að ferðast með áætlunarbíl eða strætisvagni, sleppt þessu, sem nú er í lögum: „Ekki skal þó greitt fyrir flutning með bifreið manns af sama heimili eða sama bæ né bifreið í eigu venzlamanns hins slasaða.“ Oft getur verið miklu auðveldara að koma hinum slasaða með bíl, sem er heima á staðnum, og sýnist engin ástæða til þess, að þann flutning megi ekki alveg eins greiða og ef hringt væri eftir leigubíl, beðið eftir honum og sjúklingurinn fluttur þannig.

Ég held, að ég þurfi ekki að gera öllu lengri grein fyrir þessum breytingum. Ég vænti þess, að menn hafi alveg gert sér ljóst, hvað á bak við þetta liggur, og treysti því, að allir vilji gjarnan undir þessar leiðréttingar taka og styðja þær.