27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

93. mál, almannatryggingar

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er vissulega mikið fagnaðarefni, þegar fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. eru teknir til við að flytja frv. um endurbætur á almannatryggingal., því að það fór vægast sagt lítið fyrir slíkum tillöguflutningi á undanförnum áratug. Þá fóru þessir tveir flokkar með stjórn þeirra mála, og á því tímabili dröbbuðust almannatryggingarnar hreinlega niður á Íslandi, þannig að þær voru komnar langt aftur úr því, sem gerðist í nágrannalöndum okkar, t.d. á Norðurlöndum, sem við berum okkur einatt saman við. Því er það mjög ánægjulegt, að fulltrúar þessara flokka skuli nú hafa upptendrazt af áhuga á þessu máli, og er vonandi, að af því hljótist margvíslegt gott.

Hvað viðvíkur efnisatriðum þessara frv., vil ég gjarnan láta þess getið um það atriði, sem talað er um í 1. gr. frv. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur o.fl., að mæðralaun skuli greidd þar til börn hafi náð 17 ára aldri, þ.e.a.s. miðað skuli við 17 ára aldur, að ég er algerlega sammála því ákvæði. Ég tel, að rétt sé, að þar verði miðað við sama aldursmark og við greiðslu barnalífeyris og meðlaga. Hins vegar tel ég, að þetta ákvæði ætti að orða þannig, að þessi greiðsla ætti ekki aðeins að falla til ekkjum, heldur einnig ekklum, þegar eins stendur á, að þeir hafi börn á framfæri á þessum aldri, þannig að þarna sé ekki gert upp á milli fólks eftir kynferði. Mér finnst sem sagt eðlilegt, að þessi breyting verði framkvæmd, hvort sem hún verður gerð í sambandi við þetta frv. eða í sambandi við önnur frv. um tryggingamál, sem hér liggja fyrir.

Hitt atriðið, sem kemur fram í báðum frv., er mál, sem oft hefur verið rætt hér á þingi, og það er um framkvæmd tekjutryggingarinnar. Eins og ég hef margsinnis tekið fram, er ég alveg sammála mönnum um það, að þarna er um að ræða tiltekið jaðarvandamál, sem unnt er að leysa. Hins vegar er ég algerlega ósamþykkur því, þegar hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir talar um réttarskerðingu í þessu sambandi. Þarna er sannarlega ekki um neina réttarskerðingu að ræða. Tekjutryggingunni var ætlað að aðstoða það fólk, sem bjó við erfiðust kjör í þjóðfélaginu, fólk, sem hafði ekki neinar tekjur nema tekjur sínar frá almannatryggingunum. Og þó að þetta fólk fái lágmarksupphæð til sín, er ekki verið með því að skerða rétt nokkurs annars manns, og röksemdir af því tagi eru hvorki réttmætar né heldur stuðla þær að réttu siðferðilegu mati. Þarna var verið að taka tillit til tekjulægsta fólksins í þjóðfélaginu, þess fólks, sem bjó við verst kjör, það var verið að veita þessu fólki alveg sérstaka aðstoð, og með því var ekki verið að skerða rétt þess fólks, sem bjó við ögn skárri kjör áður, þótt það fengi sömu upphæð í sinn vasa.

Þetta er sjónarmið, sem við þekkjum ákaflega vel. Við þekkjum það úr verkalýðsbaráttunni t.d. Ef það er samið um einhverja kauphækkun fyrir það verkafólk, sem hefur lægst kaup, þá koma allir aðrir á eftir og segja: Það er gengið á rétt minn, ef ég fæ ekki þessa sömu tekjuhækkun. — En þetta sjónarmið er alls ekki rétt. Hitt er hins vegar sjálfsagt að athuga og kanna, hvort við höfum tök á því að hafa þessa tekjutryggingu víðtækari, þ.e. að hún nái til stærri hóps en þess, sem við vorum með í upphafi og einvörðungu hafði tekjur sínar frá tryggingunum. Það má vel hugsa sér að hafa tryggingu, sem nær yfir víðtækara svið. En á hitt vil ég leggja áherzlu, að hér er ekki um að ræða skerðingu á rétti nokkurs manns, heldur réttarbót fyrir þó nokkurn hóp af fólki og það fólk, sem mest þurfti á réttarbótum að halda.

Ég sagði áðan, að ég fagnaði því, að þm. úr Sjálfstfl. og Alþfl. væru farnir að flytja frv. til l. um tryggingamál, og ég segi þetta ekki sízt vegna þess, að bv. þm. Ragnhildur Helgadóttir komst svo að orði, að í öðru frv., sem fyrir lægi, væri boðið betur, og hv. þm. Bragi Sigurjónsson tók það þegar til sín og túlkaði þetta sem yfirboð, og þannig er áreiðanlega litið á þetta í þjóðfélaginu, því að það muna allir, hvernig aðdragandi þessa máls var. Það er rifjað upp á dálítið einkennilegan hátt í grg. með frv. til l. frá hv. þm. Braga Sigurjónssyni o.fl. Þar segir:

„Þegar lög um almannatryggingar voru endursamin og samþ. vorið 1971 voru þau nýmæli meðal ýmissa annarra, að hverjum elli- og örorkulífeyrisþega skyldu tryggðar a.m.k. 84 þús. kr. lágmarkstekjur, þ.e. að væru tekjur hans lægri alls en 84 þús. kr. á ári, skyldi skylt að lækka lífeyri hans svo, að bilið yrði brúað. Með lagabreytingu í des. 1971 var þetta tekjulágmark hækkað í 120 þús. kr., enda hafði almennt kaupgjald hækkað verulega frá vordögum eða fyrri lagasetningu og dýrtið aukizt umtalsvert. Nú hefur verðbólguhjólið enn snúizt drjúgan síðan í des. 1971, og veitir því ekki af að hækka lágmarkið á ný, ef tekjutryggingin á ekki að sverfast af.“

Hér er sem sé reynt að halda fram þeirri kenningu, að tekjutryggingarákvæðin hafi verið samþykkt vorið 1971, og ókunnugir kynnu að ætla, að þau hafi komið til framkvæmda þá. En svo var sannarlega ekki. Þetta frv. var gert að lögum vorið 1971 vissulega, en það var fellt með öllum atkv. Alþfl. og Sjálfstfl., að frv. kæmi til framkvæmda. Það átti alls ekki að koma til framkvæmda fyrr en um áramótin 1971–1972. Það voru felldar allar brtt. um hækkun, m.a. á tekjutryggingu. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðum til, að tekjutryggingin yrði 120 þús. Það var fellt með nafnakalli, þ. á m. af öllum þm. Alþfl. og Sjálfstfl., væntanlega þá líka af þessum hv. þm., sem sagði, að málið hefði verið í n. og hann hefði þar sjálfur talið, að þessi tekjutrygging þyrfti að vera 120 þús. Við lögðum einnig til. að þessi ákvæði tækju gildi á miðju árinu eða einhvern tíma áður en um áramótin 1971–1972. Það var einnig fellt. Það var ekki fyrr en núv. ríkisstj. var mynduð og það var mítt fyrsta verk í heilbr.- og trmrn. að láta vinna að því, að sett yrðu brbl. um, að þessar breytingar á almannatryggingunum kæmu tafarlaust til framkvæmda. Þetta voru fyrstu brbl., sem núv. ríkisstj. gaf út, þannig að það var engin afleiðing af ákvörðun Alþ. vorið 1971, að tekjutryggingin kom til framkvæmda 1. ágúst í fyrra. (Gripið fram í.) Já, en framkvæmdin var einvörðungu til komin vegna þess, að núv. ríkisstj. setti um það brbl., að þetta skyldi koma til framkvæmda. Og það var ekki afleiðing af neinni dýrtíð, að þessi tekjutrygging var síðan hækkuð í 120 þús. um síðustu áramót, heldur vegna þess, að núverandi stjórnarflokkar töldu, að þessi upphæð væri of lág. Það væri ekki sæmandi að ætla fólki að lifa af svona lágri upphæð.

Svo er að sjá sem hv. þm. Braga Sigurjónssyni sé ekki kunnugt um það, að tekjutryggingin hefur verið hækkuð síðan um síðustu áramót. Hún var hækkuð á miðju þessu ári í samræmi við hækkanir á almennu verkamannakaupi og er núna 11 200 kr. á einstakling eða 134 400 á ári. Það er svo að sjá sem þessi mikli áhugamaður um almannatryggingar hafi ekki veitt þessu athygli, því að það stendur í grg. með frv. og kom fram í ræðu hans, að hann virtist halda, að tekjutryggingin sé 120 þús. Það er ástæða til að minna á það einnig, að þegar núv. ríkisstj. hóf endurbætur á almannatryggingakerfinu, kvað við dálítið einkennilegan tón í málgögnum stjórnarandstöðunnar. Það var talað um, að ríkisstj. væri að slá upp veizlu. Það var talað um, að kjör þessa fólks, sem fékk tekjutrygginguna, væru slík, að það jafngilti veizluboði, að fólk fengi fyrst sem svarar 84 þús. kr. á ári, síðan sem svarar 120 þús. og nú 135 þús. Það var talað um þetta sem veizlu og sem eyðslu úr opinberum sjóðum. Það er hægt að vitna í ákaflega mörg ummæli af þessu tagi, að þessi ríkisstj. hafi verið svo veizluglöð, að hún hafi ausið úr almannasjóðum í því skyni. Þetta heyrist raunar enn þá. Menn heyra þann málflutning hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, að efnahagserfiðleikarnir í landinu stafi einmitt af þessari eyðslusemi ríkisstj., að verja fjármunum til þess fólks, sem býr við erfiðust kjör í þjóðfélaginu.

Það hefur líka heyrzt sá tónn í Morgunblaðinu, að greiðsla á tekjutryggingu til aldraðs fólks og öryrkja, sem ekki hafa aðrar tekjur, ýtti undir leti og ómennsku. Þannig var komizt að orði í Morgunblaðinu. (RH: Í aðsendu bréfi.) Í aðsendu bréfi í Morgunblaðinu, sem var birt með miklum virðuleik. (Gripið fram í: Það er allt birt í Morgunblaðinu.) Já, það má nú segja, það er allt birt í Morgunblaðinu, líka það, sem enginn annar teldi birtingarhæft. En þarna er líka uppi sjónarmið, sem mér finnst ákaflega ógeðfellt, og ég er sannfærður um, að þetta er sjónarmið, sem ekki er uppi hjá almenningi í landinu.

Ég hef oft minnzt á það hér áður, — og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir tók raunar undir það í orðum sínum hér áðan, — að það er ekkert böl, ef aldrað fólk og öryrkjar geta unnið, heldur er það mikil hamingja fyrir það fólk, sem getur starfað. Og það er ekki aðeins reiknað í peningum, heldur einnig í því, að þetta fólk lifir ánægjulegra lífi, hefur meira og betra samband við umhverfi sitt. Við skulum ekki vanmeta þetta viðhorf, því að að minni hyggju er þetta grundvallarviðhorf þeirra manna, sem vilja lifa heilbrigðu lífi. Þegar við skipuleggjum störf og athafnir í þjóðfélagi okkar, verðum við alltaf að minnast þess, að það er sjálf vinnan, sem verður að vera mönnum ánægja og lífsfylling. Það má ekki taka hana sem eitthvert böl, sem verði að taka greiðslu fyrir, og ef greiðslan sé ekki nægilega há, séu menn að leggja á sig einhverjar þjáningar án þess að fá það endurgoldið. Mér er fullkunnugt um það, að fólk af þessu tagi, aldrað fólk og öryrkjar, vinnur margt af mikilli ánægju einmitt til þess að geta verið í sambandi við þjóðfélagið og umhverfi sitt og við annað fólk.

En erindi mitt hingað upp var sem sagt aðeins að fagna því, að þarna hefur orðið alger andleg endurfæðing á fulltrúum Sjálfstfl. og Alþfl., og ég vona, að sú endurfæðing verði varanleg, að hún endist ekki aðeins meðan þessir flokkar eru í stjórnarandstöðu, heldur einnig, ef svo skyldi einhvern tíma til takast, að þessir flokkar lentu í ríkisstj., annar hvor eða báðir, því að reynsla aldraðs fólks og öryrkja og annarra viðskiptavina almannatrygginga af þessum flokkum á undanförnum 10 árum er slík, að ég hygg, að a.m.k. enn þá sé fólk ákaflega tortryggið gagnvart þeim og þeir þurfi að leggja á sig býsna mikið til þess að endurreisa mannorð sitt.