27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

93. mál, almannatryggingar

Flm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Það voru nokkur atriði í ræðu hæstv. trmrh., sem mér þótti rétt að gera aths. við.

Hann sagði hér áðan, að almannatryggingar hefðu drabbazt niður undir stjórn fyrrv. ríkisstj. Hann viðurkenndi þó, að hér hefðu verið sett ný lög um almannatryggingar, sem voru ekki lakari en svo, að þau eru nú að meginstofni það, sem breytt er eftir og unnið eftir, og það, sem aðallega hefur breytzt og hann nefndi, var, að fyrrv. stjórnarliðar ákváðu,. að lögin tækju hálfu ári síðar gildi en hann síðar ákvað, þegar hann kom í ráðherrastól. Hann lagði þunga áherzlu á, að þetta hefði hann gert. Allir þekkja málflutning hæstv. ráðh. af því, hvað hann undirstrikar sterkt, hvað hann hafi gert. En ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að þegar fyrrv. ríkisstj. ákvað að hafa þennan háttinn á, hafði hún ekki ákveðið hinn þáttinn, sem núv. stjórn ákvað, þegar hún kom til valda, að hefja mikla veizlu á Sólheimum. Og það er þessi mikla veizla á Sólheimum, sem gerði það að verkum, að ráðh. taldi öruggara, svo að ekki kæmi veizlugleðin allt of illa niður á sumum, sem taka bætur frá almannatryggingum, að byrja greiðslu eftir nýju lögunum fyrr.

Hinu gleymdi þessi hæstv. ríkisstj., að hún lagði svo miklar skattaálögur á margt af þessu gamla fólki og ýmsa aðra, sem tóku lífeyri sinn úr almannatryggingum, að þar var tekið aftur með annarri hendinni mikið af því, sem veitt var með hinni. Og sá stjórnarhátturinn þótti mörgum ekki skynsamlegur og þ. á m. mörgum, sem tóku bætur frá almannatryggingum.

Hins vegar þykir mér vænt um að heyra það, að hæstv. ráðh. tekur þessum till. vel, og vil vona, að hann fylgi þeim þá eftir. Hann sagði hér áðan, að ég mundi ekki hafa vitað, að tekjutryggingin er 11200 kr. á mánuði. Jú, ætli það ekki. En oft er okkur sagt, að til þess að lifa mannsæmandi lifi, veitti ekki af, að t.d. verkamaðurinn, sem vinnur hörðum höndum fyrir sínum launum, hefði a.m.k. 20 þús. kr. á mánuði. Margur slíkur verkamaður er þó einhleypur, eins og margur ellilífeyrisþeginn er líka. En það var að heyra svo á hæstv. ráðh., að þetta væri kannske ágætt, að ellilífeyrisþeginn fengi eins og helminginn af því, sem þætti mannsæmandi fyrir verkamanninn að lifa af.

Framangreindu vildi ég koma hér á framfæri og eitt enn. Ráðh. var að tala um, að ég mundi hafa greitt atkv. gegn því, að almannatryggingalögin tækju gildi 1. júlí, eins og hann hefði viljað, en ætlazt til þess, að þau tækju gildi 1. jan. 1972, eins og stóð í l. Þetta er alveg rétt. Það hafði orðið samkomulag um að leggja þetta til. En oft er í samkomulagi, að menn eru ekki ánægðir með það og gera þó ekki bókanir um það, sem þeir ætla að flagga seinna með, þegar þeim gott þykir.