27.11.1972
Neðri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

93. mál, almannatryggingar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki verra en vant er, þegar rædd eru mál, sem varða þann hæstv. ráðh., sem nú er hér og tekur þátt í umr. í hv. d. Þá efnir hann yfirleitt til mikils eldhúsdags um mál viðreisnarstjórnarinnar frá upphafi og hvað sé að gerast núna, hvað sé mikil endurhæfing að ske í okkar flokki og Alþfl. o.s.frv. Það má varla hreyfa nokkru máli hér, sem út af fyrir sig ætti ekki að vera pólitískt þras um, þá leiðir hæstv. ráðh. umr. inn á þennan vettvang. Hann ræddi um jaðarvandamál. sem hefðu skapazt í sambandi við tekjutryggingarákvæði almannatryggingal. Ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðh., ef hann segir, að þarna sé um jaðarvandamál að ræða: Í hverju er þetta jaðarvandamál fólgið, ef það er engin réttarskerðing — eða kannske ætti að orða það þannig: ef það er ekki óhöndulegt, að fólk, sem vinnur sér kannske fyrir 3–4 þús. kr. á mánuði eða á rétt á lífeyrisgreiðslum úr sjóði verkalýðsfélaganna, fær þeim mun minni greiðslur frá almannatryggingum? Ég hef skilið, að þetta jaðarvandamál sé í þessu fólgið, og ég hef verið að gagnrýna þetta jaðarvandamál. Ég hef bent á þetta bæði hér á hv. Alþ. og í blöðum, og stundum hefur svo borið við, að mér hefur verið mjög kröftuglega mótmælt út af þessu, m.a. í Þjóðviljanum af hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, sem skrifaði sérstaka grein um þetta. En ég vil fá að vita það frá bæði þessum hv. þm. og hæstv. ráðh., í hverju þetta jaðarvandamál er fólgið. Það hefur aldrei komið fram í þeirra málflutningi.

Þegar þessi mál eru rædd og með þeim hætti, sem nú hefur verið gert, þá er eðlilegt, að um þetta spinnist almennar umr. um kjör aldraðra í þjóðfélaginu. Hér hef ég fyrir framan mig grein úr Þjóðviljanum 27. júní 1972, úr Bæjarpóstinum, og væntanlega má vitna í þetta sem skoðanir Þjóðviljans, eins og hæstv. ráðh. vitnaði í bréf frá venjulegum borgara, sem birtist í Morgunblaðinu. Þar stendur:

„Þessar hækkanir á bótum almannatrygginga ber að þakka og þá sérstaklega ráðh. Alþb., heilbrmrh. Magnúsi Kjartanssyni.“ En síðan segir: „En hvernig stendur á því, að hækkun bótanna er tekin aftur með skattheimtu?“ Og spurningin er yfir bréfinu: „Er Eysteinskan enn þá lifandi í Framsfl.?“ Væntanlega á hæstv. núv. fjmrh. þessa pillu.

Sannleikurinn er sá, eins og kom fram hér, þegar ég í vor spurðist fyrir um upphæðir lífeyrisgreiðslna, bæði til aldraðra og öryrkja, þá kom fram í svari ráðh., að það eru ekki nema rétt um 8% af bótum almannatrygginga, sem eru greidd vegna tekjutryggingarákvæðisins. Að vísu voru þá ekki öll kurl komin til grafar, ég vil taka það skýrt fram, því að það kom fram í svari hæstv. ráðh., að það væru ekki öll kurl komin til grafar þá um það, hversu mikinn þátt tekjutryggingarákvæðið hefði í framkvæmd almannatryggingal. að þessu leyti, þar sem framkvæmdin var komin skammt á veg. En eins og kom fram hér í máli hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur, er samt hér um þessa staðreynd að ræða, hún gat um þessar upphæðir. Ráðh. nefndi, að það væru 439 millj. kr., sem væru greiddar í heild á fyrsta ársfjórðungi í lífeyrisgreiðslur til þessara aðila, en þar af aðeins 36 millj. vegna tekjutryggingarákvæðisins. Auðvitað er þetta vegna þess, að það er mikill fjöldi af eldri borgurum, sem hefur einhverjar tekjur og vill vinna. Ég tek undir þau orð ráðh., að auðvitað eiga menn ekki að skilja vinnuna þannig, að hún sé böl, og allra sízt eldra fólki, því að það er lífsnauðsynlegt fyrir það að fá að vinna. En mig minnir, að ég hafi heyrt þá menn, sem leggja nú höfuðáherzlu á, að eldra fólk eigi ekki að taka neitt tillit til þess, hvað það fær í aðra hönd fyrir vinnuna, — mig minnir, að ég hafi oft heyrt þá tala um, að t.d. sjómenn fengjust ekki á fiskiskip vegna þess, hversu lítil laun þeir fengju þar, og svo fram eftir götunum. Ég held, að allir hv. þm., sem hér eru nærstaddir, hafi oftar heyrt kröfur um launahækkanir til handa hinum og þessum í þjóðfélaginu frá þessum ágætu mönnum. Og það er alveg furðulegt, ef þær röksemdir eiga ekki að gilda fyrir fólk, þegar það er orðið 67 ára gamalt. Þá allt í einu á það að vinna einfaldlega vegna þarfarinnar fyrir að vinna.

Ég hef skilið það þannig, að bótaþegum, sem eru orðnir 67 ára að aldri, finnist, að það sé í alla staði óeðlilegt, að leggi þeir á sig að vinna fyrir smávægilegum tekjum, þá skerðist bætur þeirra frá almannatryggingunum. Það er ekki þess vegna, að þetta fólk sé haldið leti og ómennsku, eins og ráðh. hafði hér eftir Morgunblaðinu eða einstaklingi, sem hafði skrifað í Morgunblaðið. Það er ekki af því, sem þarna er um jaðarvandamál að ræða. Það er vegna þess, að fólki finnst óeðlilegt, að réttur þess skerðist að vissu marki við það, að það fer og aflar sér einhverra tekna, t.d. við störf, eins og hér var búið að ræða um áður.

Það hefur verið talað um einstök dæmi í þessum umr. um lífeyrisþega. Ég ætla ekki að fara að bæta miklu við það. En ég get getið þess, að ég þekki t.d. einn öryrkja, sem er alger öryrki að öðru leyti en að hann getur unnið einföld störf, sem gefa í arð, ef hann vinnur allan mánuðinn, um 4–5 þús. kr. Hann fær þeim mun minni bætur úr almannatryggingunum. Hann velur hins vegar þennan kostinn að vinna, vegna þess að það er honum lífsfylling, eins og hæstv. ráðh. komst réttilega að orði. En er þetta rétt?

Ég vil að lokum minna á það, að hæstv. ráðh. sagði hér í þessari hv. d. 17. des. 1971: „Ég er algerlega sammála hv. þm. um, að það er vandamál í sambandi við tekjutrygginguna, hvernig fara eigi með fólk, sem vinnur og hefur nokkrar tekjur í því sambandi.“ Nú er liðið um það bil eitt ár síðan hæstv. ráðh. komst svona að orði. Samt hefur hann ekki komið fram með neinar till. um endurbætur í þessu efni. Hann hefur ekki einu sinni fengizt til að skilgreina hér nákvæmlega, í hverju jaðarvandamálið, sem hann kallar, er fólgið, að öðru leyti en þetta, sem hann sagði þá við þessar umr.

Ég held, að ég láti þá máli mínu lokið að þessu sinni, en vona, að þetta mál nái fram að ganga. Mér sýnist, að hér sé verið að fara eins hóflega í sakir og hægt er til þess að leysa þetta svokallaða jaðarvandamál, sem eitt hefði í rauninni átt að vera hér á dagskrá, ef hæstv. ráðh. hefði ekki kastað hér svo úr klaufunum eins og hann gerði.