28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

84. mál, Sigölduvirkjun

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Hv. þm. Bragi Sigurjónsson spyr í fyrsta lagi, hvort ríkisstj. hafi tryggt sér lán til Sigölduvirkjunar og ef svo sé, þá hvar og hve há.

Stjórn Landsvirkjunar hefur nú um skeið átt í viðræðum við Alþjóðabankann um lán til byggingar hluta Sigölduvirkjunar, og benda líkur til þess, að lán þetta fáist á næsta ári. Þá er og í útboði gert ráð fyrir lántöku í sambandi við kaup á vélum og búnaði, og leikur lítill vafi á, að slíkt lán fáist, því að fjöldi fyrirtækja hefur sýnt áhuga á að gera tilboð með slíkum skilmálum. En bæði þessi lán áætlast samtals á þriðja milljarð kr. Þá vinnur stjórn Landsvirkjunar einnig að undirbúningi að lántöku á hinum alþjóðlega peningamarkaði, en hversu hátt það lán þarf að vera, fer eftir því, hve endanleg framlög eiga að verða og hver hagnaður verður af rekstri Landsvirkjunar á næstu árum.

Í annan stað spyr hv. þm., hvað sé áætlað nú, að Sigölduvirkjun muni kosta. Forráðamenn Landsvirkjunar tjá mér, að vegna yfirstandandi útboða sé óvarlegt að birta nú opinherlega nákvæmar tölur um áætlaðan stofnkostnað, og verð ég því að láta mér nægja að greina frá því, að hann er áætlaður á fjórða milljarð kr.

Hv. þm. spyr í þriðja lagi, fyrir hve mikinn hluta orkuframleiðslunnar sé þegar tryggður markaður og hver hann sé.

Áður en ég svara þessari spurningu, vil ég greina frá því, að samkv. tölvuathugunum, sem Landsvirkjun hefur látið gera, bætir Sigölduvirkjun árlega um 800 gígawattstundum af tryggðri orku við vinnslugetu landsvirkjunarkerfisins, sem á næsta ári verður um 2150 gwst., þegar Þórisvatnsmiðlun hefur að fullu verið lokið. Þessi orka, 800 gwst. á ári, miðast við, að orkukaupin séu að hluta stöðug allt árið um kring, eins og að jafnaði er, þegar orkufrekur iðnaður á í hlut. Séu hins vegar öll orkukaupin mun minni á sumrin en á veturna, en það er einkenni hins almenna markaðar og húshitunar, verður sú árlega orkuaukning, sem Sigölduvirkjun lætur í té, minni eða um 700 gwst. á ári.

Til viðbótar er þess að geta, að í kerfi Landsvirkjunar er allmikil ótryggð orka eða afgangsorka, eins og hún er oft nefnd, sem hinn almenni markaður og húshitun geta ekki nýtt nema þá að litlu leyti. Athuganir Landsvirkjunar sýna, að eftir tilkomu Sigölduvirkjunar verða allt að 300 gwst. á ári af þessari orku ekki ótryggari — en svo, að iðnaður eins og t.d. járnmelmis- iðnaður getur vel nýtt sér hana, enda slíkt gert viða erlendis, en þá eðlilega á lægra verði en fást mundi fyrir tryggða orku. Má sem dæmi nefna, að vel kemur til greina, að iðnaður af þessu tagi kaupi ótryggða orku að hálfu. Við það verður meiri tryggð orka aflögu til annarra þarfa en ella, auk þess sem tekjur fást af orku, sem annars væri ekki seljanleg.

Fyrsta hlutverk Sigölduvirkjunar er að sjálfsögðu að fullnægja hinum almenna markaði, en árið 1980 áætlast hann um 255 gwst. á ári á orkuveitusvæði Landsvirkjunar umfram það, sem núverandi kerfi getur annað, og er þá miðað við sama vöxt og verið hefur. Þessu til viðbótar er svo aukin húshitun með rafmagni, en það er yfirleitt stefna stjórnarinnar að vinna að því, að innlendir orkugjafar komi í stað innflutts eldsneytis, í samræmi við 4. lið 2. gr. l. um Landsvirkjun. Tiltölulega varlegar áætlanir sýna, að þrátt fyrir hitaveitur hlýtur þáttur raforkunnar að verða svo mikill í þessu efni, að hitunarmarkaðurinn getur verið kominn í um 175 gwst. árið 1980, ef vel er á haldið, eða að meðtöldum almenna markaðinum um 430 gwst. Þetta gefur svigrúm til nokkurrar sölu á raforku til orkufreks iðnaðar, eins og ég gat um áður, því að tími á að vinnast til að koma upp annarri virkjun fyrir lok áratugsins. Með þetta í huga og eins til þess að auka fjölbreytni í framleiðslu landsmanna hefur sérstök n. á vegum iðnrn. átt viðræður við ýmis erlend fyrirtæki, sem hafa sýnt áhuga á að stofna hér orkufrekan iðnað í samvinnu við Íslendinga, og eru öll líkindi á, að slík samvinna geti tekizt á þeim forsendum, sem ég hef margsinnis áður gert grein fyrir hér á þingi, þ.e.a.s. að Íslendingar eigi slík fyrirtæki að meiri hluta og þau lúti íslenzkum lögum í einu og öllu.