28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

277. mál, orkuflutningur frá Sigöldu til Norðurlands

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónason):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vestf. lét svo ummælt hér á dögunum við tillöguflutning sinn um nýtingu orkulinda landsins til raforkuframleiðslu, að við hana yrði að taka mið af skynsamlegri búsetu í landinu. Mér fannst hv. þm. hitta naglann á höfuðið, því að allri þjóðarheildinni er slíkt brýn nauðsyn, ekkert síður þéttbýlingunum hér við Faxaflóann en strjálbýlingunum úti um land. Og þá komum við strax að málum málanna í dag, hinu ómissandi rafmagni og eftirsótta jarðvarma. Hið síðara er fyrst og fremst kostgripur þéttbýlisins hér syðra, en rafmagnið getur komið í stað jarðvarma, ef það er ekki notendum þess of dýrt.

Nú hagar svo til í stærsta bæ á Norðurlandi, Akureyri, sem og á fleiri þéttbýliskjörnum þar, einnig nær öllum sveitabæjum landsins, að hitaveitum, jarðvarmaveitum, verður þar ekki komið við, eftir því sem nú er bezt vitað. Því brenna þessar spurningar í hugum okkar Norðlendinga, eftir að okkur hefur verið tjáð, að Sigöldurafmagnið verði næsta lausnarorðið í rafmagnsmálum okkar:

1. Hvað er áætlað, að háspennulína frá Sigöldu til Akureyrar muni kosta með núgildandi verðlagi og við hve mikinn orkuflutning verður hún miðuð?

2. Hvert verður kostnaðarverð þessa rafmagns komins til Akureyrar miðað við gildandi verðlag?

3. Mega Norðlendingar vænta þess, að þeim verði ekki selt rafmagn leitt sunnan yfir fjöll á hærra verði en Sunnlendingum — þar með taldir Reykvíkingar, — verður selt rafmagn frá Búrfellsvirkjun á sama tíma?