28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

278. mál, Laxárvirkjun III

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Þriðja fsp., sem ég hef leyft mér að bera fram um orkumál, er varðandi Laxárvirkjun III.

Á allfjölmennum fundi, sem háskólastúdentar gengust fyrir á Hótel Sögu í fyrravetur um Laxármálið svonefnda, lýsti Sigurður Thoroddsen verkfræðingur, einn þekktasti virkjunarfræðingur núlifandi hérlendis og einnig kunnur náttúruverndarmaður, mjög eindregið yfir þeirri skoðun sinni, að fullvirkjun Laxár við Brúar væri tvímælalaust hagfelldasta lausn orkumála Norðlendinga á Laxársvæðinu miðað við 15–20 næstu ár, ef þar risi ekki orkufrekur iðnaður, sem enn er ekki vitað um. Sem miðlunarleið við veiðibændur við Laxá var hönnuð svonefnd Laxárvirkjun III, sem gerir aðeins ráð fyrir 20–22 metra stíflu í Laxárgljúfrum, svo að varla umtalsvert land fer undir vatn og hvergi ræktað land. Allur þorri íbúa Norðurl. e. er inni á þessari virkjunarlausn, sem öll fer fram á eign eða umráðasvæði ríkisins. Vegna forvitni kjördæmisbúa, sívaxandi orkuþarfar og ótta við yfirvofandi orkuskort, jafnvel skömmtun nú í vetur, leyfi ég mér að spyrja:

1. Hefur iðnrh. ekki í huga að freista þess að afla sér lagaheimildar til að Íáta fullbyggja Laxárvirkjun III?

2. Hvert væri kostnaðarverð hennar á núgildandi verðlagi?

3. Hvert væri kostnaðarverð á rafmagni frá henni miðað við stöðvarvegg á Akureyri?