28.11.1972
Sameinað þing: 21. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (613)

278. mál, Laxárvirkjun III

Fyrirspyrjandi (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka þessar upplýsingar, sem ég vissi raunar allar fyrirfram, en ég vildi, að ráðh. gæfi þessa yfirlýsingu hér. ég vil bæta því við, að ég hef í höndum upplýsingar um það, að þegar og ef Laxárvirkjun III væri að fullu byggð og fullu nýtt, þá kostaði rafmagnið þar 32 aura. Þetta er það, sem ráðh. segir um, að önnur sjónarmið verði að hafa og veita mönnum norður frá miklu dýrara og óhagkvæmara rafmagn, enda þótt allir kunnugir viti, að hó að Laxárvirkjun III væri byggð, mundi það á engan hátt lýta eða skemma Laxá í Suður- Þingeyjarsýslu. Það er kannske rétt, að það komi hér fram, að enn hefur ekki fengizt leyfi til þess að ganga frá inntaksmannvirkjum við I. áfanga Laxárvirkjunar III, þannig að sú virkjun, sem ráðh. þó telur, að hann ætli að leyfa, hefur ekki fengizt fullgerð, eins og hún átti að verða, fyrir l. des. á þessu ári. Og nú horfa allir íbúar á Laxárvirkjunarsvæðinu fram á það í vetur, að skömmtun á rafmagni verði á öllu orkuveitusvæðinu, því að ekki einu sinni þessi litla virkjun, 6.5 megawött, fæst unnin, og langt er enn í fyrirheitna landið hjá iðnmrh., Sigölduvirkjun.