28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér um ræðir, er að ýmsu leyti merk till. Í fyrsta lagi er okkur öllum það ljóst, að vandamál áfengisneyzlunnar er mjög stórt, og þótt aðrir vímugjafar séu e.t.v. vandamál meðal okkar þjóðar, þá kemst þó enginn í hálfkvisti við áfengið. Allt það, sem getur lagt þeim mönnum lið, sem vinna gegn ofneyzlu áfengis, er af hinu góða. Þessi till. á í fyrsta lagi að vera siðferðilegur stuðningur við alla þá, sem vilja ráða bót á því mikla böli, sem áfengið er í mörgum fjölskyldum í okkar landi.

Við vitum, að það þýðir ekki að tala um algert áfengisbann. Við vitum líka, að fjöldi manna fer þannig með áfengi, að ekki verður til stórskaða. Hitt er svo annað mál, að það eru kannske vissir starfshópar, sem beinlínis vegna starfa sinna þurfa og nærri verða að neyta áfengis fram úr öllu hófi. Og þar sem áfengi er viðurkennt ávanaefni, þá er mjög líklegt, að starfsaðstaða stórra starfshópa verði einhverjum að falli í baráttunni gegn áfenginu. Þetta á ekki sízt við einmitt um ýmsa þá starfshópa, sem vinna á vegum hins opinbera. Ég held því, að það liggi meira á bak við þessa till. og það mætti vænta af henni meiri umbóta heldur en virðist við fyrstu sýn.

Í öðru lagi er þetta sannarlega sparnaðartill. Ég á þó kannske ekki fyrst og fremst við, að hún spari innkaup á áfengi, en ég hef trú á því, að a.m.k. fyrsta kastið yrðu kannske haldnar færri veizlur og færri mundu mæta í veizlunum.

En varðandi það atriði, að hér sé ólíklegt um árangur, þá vil ég geta þess, að það er til árangur í áróðri fyrir slíkum hlutum. Fyrir nokkrum árum var varla haldin hér fermingarveizla, án þess að áfengi væri haft um hönd. Nú er þessi siður lagður niður vegna áróðurs góðra manna. Við þekkjum, að vín hefur verið haft hér um hönd í erfisdrykkjum frá upphafi okkar byggðar, en slíkt hefur farið mjög minnkandi á síðustu árum af sömu orsökum. Næði þessi till. samþykki og framkvæmd, þá er ekki nóg með það, að af henni yrði sparnaður, heldur mundum við eignast heilbrigðari þegna. Sannleikurinn er nefnilega sá, að áfengið er mjög hættulegt heilsunni, og það þarf ekki endilega að vera notað í miklu óhófi til þess. Þeir, sem hafa t.d. þann sið Íslendinga að drekka sjaldan en drekka sig illa fulla, geta orðið fyrir allmiklum áhrifum með tímanum þess vegna. Það er vegna þess, að áfengið hefur þann illa ávana, að það ræðst einkum á heilasellurnar. Fróðustu menn segja, að í hvert skipti sem maður drekkur sig fullan, drepist milljónir af þessum heilasellum. Og þær eru með þeim ósköpum gerðar, að þær eru einar af fáum frumum líkamans, sem ekki endurnýja sig sjálfar. Það ganga því margir með lík í hausnum.

En þetta er aðeins ein hliðin á málinu. Það er vitað mál, að æviskeið þeirra, sem drekka áfengi, er styttra en þeirra, sem ekki nota það, og enn fremur, að það leggst illa á ýmis mikilvæg líffæri, eins og lifrina, og veldur einnig þar heilsufarslegum skaða. Þetta er þó einungis það, sem kemur fram við þá, sem áfengisins neyta Hitt er kannske ekki síður alvarlegt, og það eru áhrifin á heimilin og fjölskyldur þeirra, sem ofnota áfengi. Ég ætla ekki að rekja slíkt, við þekkjum það öll. En ég hika ekki við að fullyrða, að áfengisneyzla er stærsta félagslega vandamál þessarar þjóðar. Og ég held í raun og veru, að það sé engin leið að hafa veruleg áhrif á áfengisneyzlu í okkar landi, nema ef vera kynni með áróðri og þá helzt að hann kæmi frá okkur rosknu mönnunum. Ég hef ekki mikla trú á því, að unglingarnir gleypi við og hætti að drekka brennivín, af því að alþm. hætta að nota það í sínum veizlum, en ég hef mikla trú á því, að þetta muni hafa áhrif smám saman í þá átt, að ýmsar veizluvenjur breytist, sem sagt að venjulegt fólk fyrirverði sig ekki lengur fyrir að hafa síðdegisdrykkju eða veizlu í heimahúsum án þess að nota áfengi.

Það eru margir einstaklingar í þessu landi, sem ofnota áfengi. Hér eru a.m.k. 2000 hreinir sjúklingar vegna áfengis, og hér eru 4000 manns, sem eru á þeirri braut að vera áfengissjúklingar. Það er líklegt, að 80–90 þús. manns í okkar landi noti áfengi. Könnun, sem nýlega var gerð, sýndi, að 30% af 15 ára drengjum höfðu neytt áfengis og 24% stúlkum, og af tvítugum drengjum höfðu 80% neytt áfengis og 83% af stúlkum.

Við erum ekki vel settir til að lækna þá, sem sjúkir verða af völdum áfengis. Við höfum að vísu átengisvarnastoð og við höfum hæli til þess að sinna þessu fólki. En hvort tveggja er í allt of litlum mæli, og það má segja, að þessi mál okkar séu í hreinasta ólestri. Okkur vantar staði til þess að veita fyrstu hjálp og ráðleggingar, okkur vantar staði til þess að taka þá, sem eru léttveikir af áfengisskýkinni, og okkur vantar hæli fyrir varanlega áfengissjúklinga. En mest af öllu, held ég, að okkur vanti þó sterkt almenningsálit gegn ofneyzlu áfengis. Það er í þeim tilgangi, sem þessi till. er flutt, fyrst og fremst til þess að vekja athygli á vandanum og til þess að gera tilraun til að hafa áhrif á almenningsálitið.