28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

81. mál, bætt aðstaða nemenda landsbyggðar sem sækja sérskóla á höfuðborgarsvæðinu

Vilhjálmur Hjálmarason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós ánægju mína yfir því, að till., sem þessi er fram komin hér á hv. Alþ., hún er áreiðanlega ekki flutt að nauðsynjalausu.

Eins og hv. frsm. drap á, er það svo með ýmsa skóla hér á höfuðborgarsvæðinu, að þeir eru einir sinnar tegundar í landinu og allir, sem ætla sér að afla sér þeirrar menntunar, sem þeir veita, verða að koma hingað og dveljast hér. Á hinn bóginn eru nokkrir skólar, sem eru svo fáir sinnar tegundar, að margir, sem ætla að sækja þá, þurfa að fara úr sínum byggðarlögum og dveljast þar, sem skólar þessir eru, án þess að eiga þar kost á heimavistaraðstöðu.

Það er ekki langt síðan tekið var að veita beinan fjárstuðning nemendum, sem þurfa að sækja menntun sína á fjarlæg mið, ef svo mætti segja. Um þau mál er hins vegar nokkuð löng saga, aðdragandinn var nokkuð langur. Ár eftir ár voru fluttar hér á hv. Alþ. till. um að kanna þörfina á þessu. Þær fengu lítinn hljómgrunn fyrst framan af, en voru að lokum samþykktar. Athugun fór fram, og tekið var að veita fé í þessu skyni, fyrst í mjög smáum stíl. 10 millj. kr., minnir mig, fyrir eitthvað þremur árum, en síðan hefur þessi upphæð vaxið hröðum skrefum, því að í stjórnarsamningi núv. ríkisstj. var svo fyrir mælt, að áfram skyldi haldið á þeirri braut að jafna aðstöðu nemenda að þessu leyti. Í samræmi við það beitti ríkisstj. sér fyrir því strax á sínu fyrsta þingi, að sett var löggjöf um þetta efni, þar sem gert var ráð fyrir að auka þennan stuðning í áföngum.

Þrátt fyrir þetta held ég, að þessi till. eigi fyllilega rétt á sér. Það hefur farið í vöxt, að nemendur eigi erfitt með að fá inni hér í Reykjavík, og alveg sérstaklega nú, þar sem húsaleiga hefur hækkað ofsalega, að því er mér er tjáð og altalað er. Menn kannske kenna því um, að hér sé vaxandi húsnæðisekla. Ég er ekkert viss um, að svo sé. Ég dreg það í efa og miða t.d. við þær viðræður, sem ég hef átt við skólafólk utan af landi, sem hefur verið að berjast í þessu. Það vantar ekki, að það fái mörg tilboð, þegar það auglýsir eftir herbergjum, en gjaldið, sem upp er sett, er yfirþyrmandi hátt. Mér finnst þess vegna full ástæða til þess að leita félagslegra aðgerða í þessu efni.

Í till. er vikið að þeim möguleika að nýta hótelrými, sem kynni að vera lítið notað yfir veturinn, fyrir utanbæjarnemendur. Þetta finnst mér sérstaklega mikið sanngirnismál. Lítum bara á, hvað gerzt hefur í þessum efnum úti á landi. Dreifbýlið, sem hér á börn sín í vanda stödd, hefur nefnilega rækt merkilegt hlutverk í gistimálum. Ég á ekki við þá oft rómuðu gestrisni íslenzku sveitaheimilanna, ég þarf ekki að sækja svo langt. Ég vil minna á það, að samtök dreifbýlisfólks hafa ekki einasta komið á fót gistiaðstöðu í fjölmörgum — og ég vil segja öllum fjölmennari dreifbýliskjörnum sinna byggðarlaga, heldur hafa samtök dreifbýlisfólks einnig hlaupið í skrápana hér í höfuðstaðnum og byggt hér, þegar mjög brýn þörf var fyrir það, myndarlegt hótel og rekið það með myndarbrag. Þar að auki er það staðreynd, að mjög margir af heimavistarskólunum úti í strjálbýlinu eru nýttir að sumrinu sem gistihús fyrir innlenda og erlenda ferðalanga. Ef á þetta er litið, finnst mér það ákaflega eðlilegt og einkar sanngjarnt, að hugsað sé fyrir því og a.m.k. vandlega kannað, hvort ekki er hægt að nýta hér að vetrinum hótelpláss, sem kynni að vera lítil þörf fyrir til almennrar gestamóttöku, einmitt fyrir skólafólk dreifbýlisins, eins og till. fjallar um. En fyrir utan þetta sanngirnissjónarmið er mergurinn málsins, að hér er um mjög brýnt og aðkallandi vandamál að ræða.