28.11.1972
Sameinað þing: 22. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

89. mál, viðvörunarkerfi á hraðbrautir

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 11. landsk. þm., Ólafi G. Einarssyni, og hv. 1. þm. Reykn., Matthíasi Á. Mathiesen, leyft mér að bera fram till. til þál. á þskj. 102 um sjálfvirk viðvörunarkerfi á hraðbrautum með varanlegu slitlagi. Till. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að fela Vegagerð ríkisins að koma upp sjálfvirkum hálkuviðvörunarkerfum við hraðbrautir með varanlegu slitlagi, einkum við vegarkafla, þar sem athugun hefur leitt í ljós, að sérstök hætta er á hálkumyndun. Kostnaður við framkvæmdina teljist stofnkostnaður viðkomandi hraðbrautar.“

Umferðarslys valda dauða og örorku nokkurs fjölda hér á landi árlega. Vaxandi umferðarhraði veldur þar nokkru um, einkum það, að ökumenn taka ekki nægilegt tillit til akstursskilyrða. Reykjanesbraut hefur nú verið í notkun nokkur ár. Þar hafa orðið mörg umferðaróhöpp og allmörg dauðaslys. Þar urðu á árinu 1970 96 umferðaróhöpp, og, í þeim meiddust 24 og eitt dauðaslys varð. Árið 1969 urðu þar 59 umferðaróhöpp, þar sem 13 meiddust. Og árið 1968 urðu óhöppin 78, og 18 meiddust það árið.

Augljóst er, að allt verður að gera, sem unnt er, til þess að draga úr tíðni umferðarslysa, og þótt okkur sé fullljóst, að hálkan er aðeins einn af mörgum þáttum í þessu vandamáli, lítum við svo á, að nokkru sé vert að kosta til til þess að vara við henni.

Sjálfvirk viðvörunarkerfi, sem gefa merki, þegar það veðurlag kemur, sem líklegt er til þess að valda hálku hafa verið í notkun víða um heim alllengi. Því verður þó ekki neitað, að þau eru dýr, þótt ekki séu þau mörg prósent af kostnaðarverði hraðbrautanna. Hér hefur komið í ljós, að á ákveðnum vegarköflum er hætta á hálku miklu meiri en annars staðar. Sjálfsagt væri þá að byrja á því að setja viðvörunarkerfið upp á þessum köflum og sjá, hvernig það reyndist.

Ég hef nú í augnablikinu ekki fullkomlega öruggar upplýsingar um kostnað. Hins vegar er mér ljóst, að tap þjóðfélagsins vegna slysa á Reykjanesbraut nema a.m.k. á annan tug millj. árlega, og þegar við bætast Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur, má okkur öllum vera ljóst, að allt það, er orðíð gæti til þess að draga úr slysum, er þess vert, að athugað sé.