29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og síðasti ræðumaður, að ég hafði það út úr orðum hæstv. ráðh., að hér hafi verið um samkomulag að ræða, raunverulega að frumkvæði fiskveiðenda og fiskseljenda. Ég hef nú talað við þessa menn og reynt að sjá þeirra bókanir um málið og alls ekki fengið þennan skilning út úr því eftir þær athuganir, og þess vegna verð ég að gera hér nokkra grein fyrir því, sem ég tel, að hafi átt sér stað. Hins vegar má búast við, að ráðh. hafi nokkuð við það að athuga á eftir. Ég ætla — með leyfi forseta að vitna hér í skýrslu, sem lögð var fram núna á aðalfundi L.Í.Ú., en á bls. 9 og 10 í þeirri skýrslu er fjallað um þennan vanda, og þar segir orðrétt:

„Fulltrúar veiða og vinnslu skýrðu frá því, að þeir hefðu verið kallaðir á fund sjútvrh. s.l. föstudag, 22. sept., þar sem hann gerði grein fyrir afstöðu sinni til lausnar á þeim vanda, sem þessar greinar standa frammi fyrir við ákvörðun fiskverðs frá 1. okt. til áramóta. Að hans áliti væri óhjákvæmilegt, að fiskverð hækkaði til að bæta hlut átgerðarmanna og sjómanna vegna samdráttar í afla og kostnaðaraukningar. En jafnframt gerði hann sér grein fyrir því, að vinnslan gæti ekki staðið undir þessum hækkunum og þyrfti hún einnig að fá bættan rekstrargrundvöll frá því, sem nú er. Þar sem ekki væru fyrirhugaðar neinar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. fyrir áramót til lausnar þessu máll, teldi hann (þ.e. hæstv. ráðh.), að það fjármagn, sem þyrfti til þessara lagfæringa, yrði að takast úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.“

Fulltrúar veiði og vinnslu sögðu, að þrátt fyrir að þeir telji ákvörðun um þetta langt umfram þekkt markaðsverð brjóta í bága við anda laganna um verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, þá ynnu þeir að því að ná samkomulagi um fiskverð, sem skapi báðum aðilum viðunandi rekstrargrundvöll. Og eftir samtölum við þessa menn, þá er ég óyggjandi á þeirri skoðun, að þeir hefðu ekki talið sig eiga neins annars úrkosta, en að reyna að ná samkomulagi um verð, sem menn sættu sig við á þessum erfiða tíma, sem er seinasti hluti ársins í útgerð, eins og hæstv. ráðh. gat réttilega um. Og því náðu þeir samkomulagi, og málið fór ekki til yfirnefndar á þeim grundvelli, að fá við lagabreytingu fé tekið út úr verðjöfnunarsjóði. En það hefur örugglega komið fram í viðtölum mínum við þessa menn, að þeir voru knúnir til þess, og það vil ég undirstrika. Þeir sáu enga aðra leið. Og það kemur líka fram í ræðum, sem yrði of langt mál að eyða tíma í hér núna, — það kemur fram í ræðum í Nd., að ráðherra hefur ekki verið inni á þeirri hugmynd eða fulltrúar ríkisvaldsins í sjóðsstjórn að hækka viðmiðunarverðið það, að greiðsla fengist með því móti til þess að bjarga frá þessum vanda, sem er áætlaður 80–90 millj. kr. eftir aflamagni. Og þetta er kjarni málsins. Þess vegna þarf að breyta lögunum um verðjöfnunarsjóð.

Ég vil undirstrika það, að hér er farið út á hættulega braut. Og ég vil leyfa mér að spyrja mjög ákveðið: Á að halda hér lengra? Á að reyna að leysa þann vanda, sem fram undan er, með því að eyða þessum sjóði, sem hæstv. ráðh. undirstrikar mjög rækilega í ræðu sinni í Nd. að er eign afla og vinnslu? Hann undirstrikar það mjög réttilega að mínu mati, og ég veit, að hann breytir ekki um skoðun í því efni. Þess vegna vil ég leggja á það áherzlu og vona, að hann fari ekki lengra en í þetta sinn í sjóðinn til að bjarga þessum tímabundna vanda, en sjóðurinn fái að jafna út alvarlegar verðsveiflur á erlendum markaði, því að það er útveginum heppilegt, þegar til lengdar lætur. Einnig vildi ég vita um það vegna orðróms, hvort það sé fyrirhugað að nota nú hið háa verð, sem er á loðnuafurðum, til þess að færa á milli deilda, því að þá erum við komnir út á svið, sem er enn hættulegra og ég veit ekki hvar tæki enda, ef slíkt yrði upp tekið, því að þá má setja allan afla í einn sjóð og úthluta síðan eftir einhverju kerfi og tölvuspám, hvað hver á að fá, ef slíkt yrði upp tekið. En ég vona nú, að þessi orðrómur sé algjörlega hugarórar hjá einhverjum mönnum, og vænti þess, að ráðh. staðfesti það hér nú, að slíkt komi aldrei til greina, slík vinnubrögð.

Það má deila um það hvað fiskverðshækkun eigi að verða mikil. Það kemur hér fram í frv., í grg., að það er sagt, að um 10% almenna fiskverðshækkun sé að ræða og siðan 5%. Ég spurði rækilega um þetta og leitaði að bókun í verðlagsráðinu um þetta. Þessu afneituðu þeir allir og sögðust ekkert vita, hver væri höfundur að svona sundurliðun. En þetta var aldrei rætt hjá þeim og ekki hægt að fá stafkrók frá þeim um þetta að skipta þessu þannig upp. Menn geta skipt þessu með einhverjum hætti til eða frá. En þetta kemur ekki svona frá þeim, a.m.k. neita þeir algjörlega að sýna þetta, og í þeim gögnum, sem ég hef í höndum, kemur þetta hvergi fram. Þvert á móti hefur þessari grg. verið mótmælt í samtali. Hitt kann að vera, að þeir af öðrum ástæðum kunni ekki við að mótmæla því opinberlega. En það væri fróðlegt að vita, hver er höfundur að svona sundurliðun.

Hér er auðvitað um erfiðleika að ræða fyrir sjávarútveginn af ýmsum orsökum, minnkandi afla og hækkandi rekstrarkostnaði hér heima fyrir. En einhvern tíma hefði það ekki þótt stór tala að bjarga 80–90 milljónum, og við höfum annan sjóð, sem ekkert hefur verið minnzt á í þessu sambandi, sem heitir aflatryggingasjóður. Hann er sæmilega stæður, þó má hann vera miklu betur stæður. Hann varð að borga mikið í vetur vegna lélegra aflabragða. En hann gegnir þessu hlutverki hliðstætt og bjargráðasjóður við landbúnaðinn, að hlaupa undir bagga, þegar illa árar. Tilgangur verðjöfnunarsjóðs er allt annar, og ég vara eindregið við því að fara út á þá braut, að kippa út úr verðjöfnunarsjóði undir svona tímabilsbundnum erfiðleikum, vegna þess að eins og réttilega var drepið á áðan af 2. þm. Norðurl. e., þá er jafnan hér á Alþingi mjög barizt við að bjarga framleiðslunni til sjávarins út af verðsveiflum. Þess vegna var það mjög merk löggjöf að mynda verðjöfnunarsjóð, sem drægi úr þessum áhrifum og hefði meiri kjölfestu en verið hefur í þjóðarbúinu og öllum rekstri og öllu atvinnulífi. Ef þetta á nú að rifa niður, þá tel ég illa farið. Hins vegar vil ég mjög undirstrika það, að það verður að meta það í hófi, hvað á að leggja í þennan sjóð frá ári til árs. Það er engin ástæða til þess, að sjávarútvegurinn einn taki slíkar kvaðir á sig, ef mikil þensla er í landinu og hagsæld þar ríkjandi. Þá væri vel hugsanlegt, að jafnvel iðngreinar, sem byggju við mjög góð skilyrði, legðu líka fyrir til þess að jafna sveiflur hjá sér á milli ára. Þess vegna sagði ég á sínum tíma við undirbúning þessa frv., að meira en 10% til eða frá væru ekki að mínu skapi, 5–8% væri skynsamlegt frá ári til árs, hitt væri of mikið, sérstaklega þegar það er haft í huga, að hér er aðeins ein framleiðslugrein, sem hefur þessa kvöð á sinni könnu.

Ég vona, að hæstv. ráðh. staðfesti það, að hér verði ekki haldið áfram og að þetta sé einstakt tilfelli til þess að bjarga frá erfiðleikum í ár, bundið við haustúthaldið, og ég skal þess vegna ekki lengja umræður hér, þó að það væri hægt að fara út í ýmislegt í kringum þetta, frv. er búið að velkjast furðulega lengi hér í Alþingi, — vegna nauðsynjar á, að það fari í gegn. Ég er í grundvallaratriðum ekki samþykkur þeirri aðferð, sem um er að ræða, vegna þess að við höfum annan sjóð, sem áttí að grípa til í þessu tilfelli og hefur verið notaður. Hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á þessu, og hún auðvitað leiðir það áfram með sínum meirihl. Það má reikna með því a.m.k. En ég vil óska eftir svörum við þessum grundvallarspurningum um, hvort hér á að halda áfram á þessari braut og hvort hæstv. ríkisstj. hefur í huga að skattleggja nú loðnuafurðir og færa á milli yfir í aðrar vinnslugreinar, því að þá er hún komin út á hála braut.