29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

16. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er varla möguleiki á að fara að teygja umr. mikið, ef afgreiða á fleiri mál á dagskrá, svo að ég skal vera stuttorður. Hv. 2. þm. Norðurl. e. kom inn á spurningu, sem var næstum barnaleg og einkennilega út í bláinn, eins og hún var orðuð. Hún var einmitt um það efni, hvort halda ætti áfram að reyna að hanga á 7. gr. og fjalla þar um afkomu framleiðslunnar og önnur hliðstæð atvik, eins og segir í þessari gr. Nú veit ég ekki um það, hvort komin er út reglugerð fyrir sjóðinn. En það verður þá fróðlegt að vita, hvort hún hefur verið samin og skilgreini nokkru nánar, í hverju þetta er fólgið. Hitt er alveg rétt, að alltaf hefur þurft meiri hl. til þess að fá fé úr sjóðnum. Sú ákvörðun meiri hl. eða ákvörðun sjóðsstjórnar, því að sjóðurinn hefur stjórn, er borin undir viðkomandi sjútvrh. og hann staðfestir hana. Það hefur hæstv. sjútvrh. gert. En þessi ákvörðun var engu að síður gerð undir vissum kringumstæðum, með vissri pressu frá hæstv. sjútvrh. eða ríkisstj. Það hefur hver einasti maður í sjóðsstjórninni, sem ég hef spurt í þessu sambandi, sagt við mig.

Ég er því fenginn, að ekki er gert ráð fyrir að halda áfram í sömu átt. Mér fannst það koma fram í seinni ræðunni, og sérstaklega vil ég undirstrika og þakka hæstv. ráðh. yfirlýsingu þá, sem hann gaf og mætti koma fram í ræðu, er hann heldur á morgun á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, að hann muni aldrei standa að því að færa á milli deilda, þ.e.a.s. frá loðnu yfir í bolfisk eða öfugt. Þetta er grundvallaratriði, sem ég ætla að þakka honum fyrir og vona, að hann muni standa við í framtíðinni, hvort sem hann verður lengur eða skemur ráðh. Eins og hann kom réttilega inn á síðar í ræðunni og ég drap einnig á, er hér verið að taka fé með löggjöf af mönnum úr aðeins einni starfsgrein, og er mikilvægt, að ekki sé ráðskazt með það eftir atvikum, þegar grundvallarlöggjöfin fjallar um ákveðna verðbreytingu og ráðstöfunarmyndun í því sambandi til eða frá, þ.e.a.s. tekjuöflun eða greiðslur úr sjóðnum. Ef slíkt yrði gert, er það alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að fara má að fiska eftir því, æðivíða í þjóðfélaginu, að aðrir starfshópar eða greinar komi með hliðstæða kvöð og leggi til hliðar til þess að mæta hugsanlegum vanda í það og það skiptið. En kjarni málsins er sá, að þrátt fyrir nokkra aflaminnkun er vandamálið heimatilbúið, sem hæstv. ríkisstj. ber auðvitað mesta ábyrgð á. Það liggur í hlutarins eðli. Ég er hræddur um, að það hefði eitthvað hvinið í hv. stjórnarliðum í dag, ef stuðningsflokkar fyrrv. ríkisstj. hefðu staðið að slíkum aðgerðum. Svo mikið heyrði maður á sínum tíma í þessari hv. d. um þau vandamál. sem við var að glíma þá, þó að þau væru risavaxin miðað við það, sem hér er um að ræða. Aðalkjarninn er sá, að þetta er heimatilbúinn vandi. Hann þarf auðvitað að leysa. Þetta var handhæg leið, og eigendum var bókstaflega vísað á eigið sparifé, og sagt að gera svo vel. En það er oft flott að bjóða manni út, en segja honum síðan að borga brúsann.