29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

94. mál, orkulög

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Þegar hugleitt er efni þess frv., sem hér er til umr., þá rifjast upp, að það er ekki nema stuttur tími síðan hægt var að benda á það með nokkurri vissu, hvaða bæir mundu trúlega verða utan við samveítur, þ.e. eftir að sú heildarrafvæðingaráætlun var gerð, sem hafin var af fyrrv. ríkisstj. og nú hefur verið yfirfarin. Mér skildist á ræðu hv. 1. þm. Vestf., að hún sé enn í endurskoðun og tala þessara bæja muni geta breytzt. En mér verður hugsað til þess, að ég hef reynt alla mögulega þætti þessara raforkumála. Ég hef átt við það að búa að búa við algert rafmagnsleysi, ég hef átt við það að búa að notast við ófullkomna vindrafstöð, ég hef átt við það að búa að nota dísílrafstöð, og ég hef átt við að búa rafmagn frá samveitum. Og öllum þeim, sem þessi þróunarskeið hafa lifað, verður það ljóst, að þeim finnst hið fyrra ástand vera það, sem ekki er hægt að sætta sig við.

Ég segi þetta ekki til þess að gera lítið úr þeirri endurbót, sem þetta frv. gerir ráð fyrir á fyrirgreiðslu til þeirra bænda, sem lenda utan samveitnanna. Ég bendi á þetta til þess að minna á þá sérstöku erfiðleika, sem þeir menn eiga við að búa, sem ekki eru tengdir samveitum. Ég vil benda á það t.d., að þó að um dísilvélar sé að ræða, þá eru viðhaldserfiðleikar þessara manna svo miklir, að þeir mega heita torleystir fyrir hvern einn einstakling. Það er einstök undantekning, ef hann getur fengið viðgerðarmann til að leysa sinn vanda, ef eitthvað verður að stöðinni. Honum er kannske ekki sjálfum fyllilega ljóst, hvort það er dísilvélín, sem hefur bilað, eða hvort það er rafallinn. Og ef hann er svo óheppinn að biðja fyrst um rafvirkja til þess að gera við hjá sér og ef það er svo dísilvélin, sem er biluð, þá kostar þetta tvo menn heim, því að það eru ekki ýkjamargir menn, sem eru menntaðir til þess að geta sinnt viðgerðum á báðum þessum tækjum. Vegna þess arna, sem ég hef nú verið að lýsa, og vegna þess að það fer að verða ljóst, um hversu stórt dæmi er að ræða, þegar rætt er um erfiðleika þeirra, sem standa utan samveitnanna, þá flýgur manni það í hug, hvort ekki megi ganga nokkuð lengra en þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég vildi aðeins koma hér fram með hugmyndir í því efni, til þess að sú n., sem þetta frv. fær til athugunar, geti hugleitt það, sem mér finnst, að þarna komi til greina. Mér finnst, að þegar dæmið er ekki orðið allt of stórt, þá geti komið til greina, að einhver opinber aðill, Orkusjóður Rafmagnsveitur ríkisins eða einhver annar ætti blátt áfram stöðvar þær, sem eru hjá þessum aðilum úti á landi, og tæki eftir þær leigu, eins og t.d. Landssíminn tekur af talstöðvum hjá bátum og öðrum, og hefði um leið viðhaldsskyldu á stöðvunum, skyldu til þess að veita þá þjónustu. Það mætti líka hugsa sér að ganga frá þessu eins og hér er gert ráð fyrir, að sá, sem á rafvæðingunni þarf að halda, fái lán, sem nemur kostnaðarverði stöðvarinnar. En ég tel, að það sé á engan hátt nægilega séð fyrir þessum málum, ef viðhaldsþjónustan verður ekki leyst hjá sameinuðum aðila, til þess að sá, sem verður að notast við rafvæðingu með þessum hætti, þurfi ekki að leita til fleiri manna um að leysa vandræði sín.

Eins og ég sagði fyrr í þessum fáu orðum mínum, þá ber að þakka það, að þarna er aukin nokkuð sú fyrirgreiðsla, sem hið opinbera hefur haft við þá menn, sem eru illa settir hvað varðar rafvæðinguna. Það ber að þakka það, og ég vil styðja það, svo langt sem þetta nær. En ég vildi óska eftir því, að iðnn. tæki þessar hugmyndir mínar til athugunar og hugleiddi það, hvort ekki væri hægt að fella þær saman við þessi lög. Allavega tel ég, að það verði mjög fljótlega að skipa þessum málum betur en enn er ráðgert að gera.