29.11.1972
Efri deild: 18. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

94. mál, orkulög

Heilbr.- og trmrh. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð til þess að þakka hv. alþm., sem hér hafa tekið til máls, fyrir mjög góðar undirtektir við þetta mál. Ég vil leggja áherzlu á það, að sú þriggja ára áætlun, sem nú er í framkvæmd, er í sjálfu sér ákaflega stórt átak, og vegna þess, hversu mörg býli voru utan samveitna, eða 930, eins og ég gat um, þurfti að sjálfsögðu að setja einhverja reglu um, hvernig ætti að leysa meginhluta þessa vanda, því að annars hefðu menn komizt í þá aðstöðu að þurfa að gera upp á milli á einhverjum annarlegum forsendum. Þessi regla var sett, og hún felur það í sér, að hátt í 800 býli komast í tengingu við samveitur á aðeins þremur árum. Þetta er ákaflega mikið átak. Þetta er mikið fjárhagslegt átak, og þetta er ákaflega mikið vinnuátak líka, og ég segi það hreinskilningslega, að ég hygg, að það kunni að verða mjög örðugt og rafveiturnar verði mikið á sig að leggja, til þess að hægt verði að standa við þessa áætlun. En þessi áætlun er svo stórfelld t.d., að ef við tökum Vestfirðina, þá lætur nærri, að það sé gert ráð fyrir því, að jafnmörg býli á Vestfjörðum séu tengd við samveitur á þremur árum núna og áður gerðist á 25 árum.

Þegar þessu stóra verkefni er lokið, eru eftir rúmlega 150 býli, og þá kemur til álita að minni hyggju að meta þetta á allt öðrum forsendum og þ. á m. á þeim mannlegu forsendum, sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson minntist á, og ýmsum forsendum öðrum. Þegar við sjáum, að um er að ræða býli, þar sem er rekinn myndarlegur búskapur og allar líkur á því, að hann muni baldast um langa hríð, þá er hægt að setja allt aðrar reglur en þær, sem stuðzt er við, meðan verið er að framkvæma þennan áfanga, sem núna er. Og ég hygg, að þegar þessum áfanga er lokið, muni Ísland vera eitt þeirra landa í heimi, — ef tekin eru lönd, sem eru strjálbýl og fjöllótt og erfið eins og Ísland, — eitt þeirra landa, þar sem rafmagn frá samveitum kemur til langflestra þegna, gott ef við erum ekki komnir í fremstu röð á þessu sviði. En ég er alveg sammála því, sem hér hefur komið fram, að það á að gera eins vel og hægt er við þá bændur, sem nú verða utan þessa kerfis, vegna þess að fjarlægðin er talin svo löng, að það svari ekki kostnaði fjárhagslega að leggja línu þangað, — það eigi að gera eins vel við þá og unnt er og meta að sjálfsögðu í því sambandi búnaðaraðstæður á hverjum stað. — Ég ítreka svo þakkir mínar til hv. þm. fyrir góðar undirtektir.