29.11.1972
Neðri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

95. mál, almannatryggingar

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann mikið nú við þessa umr. málsins.

Það má vel vera, og er sennilega alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að það verði seint sett endanleg löggjöf eða ákvæði um almannatryggingar, enda ber reynsla því nokkur vitni, að þessari löggjöf hefur oft og tíðum verið breytt, en þó e.t.v. ekki svo mjög í grundvallaratriðum fyrr en með löggjöf frá árinu 1971. Hins vegar er það rétt hjá hv. 4. þm. Vesturl., að í raun og veru er 2. gr. eina nýmælið í þessu frv. og mér finnst of miklar umbúðir hér um eitt nýmæli í löggjöfinni. Ég verð að taka undir þau sjónarmið, sem fram hafa komið, að það er ákaflega hæpið að gera ráð fyrir því, að af þessu leiði mikinn sparnað miðað við það, sem verið hefur, eða samkv. þeirri reynslu, sem fengizt hefur af umboðsmönnum Tryggingastofnunarinnar um langt árabil. Mér finnst í raun og veru dálítið annarlegt, þetta sjónarmið, sem kemur fram í grg, fyrir 2. gr. frv., að þessi breytta skipan stefni að miklu nánari samskiptum fólksins í landinu við Tryggingastofnunina og hún ætti að stuðla að betri þjónustu og aukinni þekkingu hvers og eins á rétti sínum. Þeir, sem þekkja nokkuð til starfsemi sýsluskrifstofanna undir stjórn sýslumannanna í landinu vita, að það eru á margan hátt mjög náin tengsl á milli þessara skrifstofa og fólksins í landinu og milli sýslumannanna sjálfra og starfsmanna þeirra og ósennilegt, að í fljótu bragði verði fundið annað kerfi, sem miklu heppilegra er. Auðvitað þýðir þetta ekki það, að menn ekki vilji reyna að bæta margs konar starfsemi og þjónustu stofnunar eins og Tryggingastofnunar ríkisins við almenning, hvar sem er í landinu, en við vitum þó, hvað við höfum í þessu efni, en það er að mínum dómi töluvert ósýnt, hvað við hreppum.

Ég skal nú ekki, eins og ég sagði í upphafi, lengja mál mitt um frv. núna. Þetta eru jafnan mjög erfið frv. fyrir þm., þegar breytingar eru, hvort sem þær eru meiri eða minni, á jafnmargslungnu kerfi og tryggingakerfið er, og það er eðlilegt, að um þetta mál verði fyrst og fremst fjallað í þeirri n., sem fær það til meðferðar. Þess vegna hef ég ekkert á móti því, að málið gangi nú til n., en ég vildi aðeins taka undir þau ummæli, sem fram komu hjá hv. 4. þm. Vesturl. Það þarf vissulega að athuga miklu nánar og betur, áður en frá þessu máli er endanlega gengið, hvort við hreppum betra kerfi eða æskilegra með þeirri breytingu, sem í 2. gr. frv. felst, heldur en það, sem við höfum nú. Það er að vísu rétt, og það kom fram hjá hæstv. ráðh., að þetta gæti verið með ýmsum hætti og þannig m.a., að ráðh. gæti falið þeim sýsluskrifstofum undir stjórn sýslumannanna, sem nú eru, umboðin. En hins vegar þegar á málið er litið og grg., sem með því er eða skýringar, þá hlýtur maður í raun og veru að ætla, að í langflestum tilfellum, ef ekki öllum, yrði gerð gagnger breyting á þessu.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég tek undir aðvaranir, sem fram hafa komið í þessu máli, og vil mælast til þess sérstaklega við þá n., sem fær málið til meðferðar, að það verði vandlega kannað, áður en til slíkra grundvallarbreytinga er stofnað. Það er að vísu mjög illt til þess að vita, að það kom fram í máli ráðh., að ef ætti að gera slíkt frv. að l., þá þyrfti að afgreiða það fyrir áramót. Þá eru nú ekki nema eitthvað þrjár vikur til stefnu til að fara í gegnum báðar deildir, og mér finnst fyrir mitt leyti mjög lítill tími ætlaður til meðferðar slíks máls sem þessa.

Ég læt svo máli mínu lokið, en óska eftir því sérstaklega, að n. geri sér far um að kanna þetta mál og kanna það til hlítar. Það eru geysilega miklir fjármunir, sem um þessar umboðsskrifstofur, hverju nafni sem nefnast, munu fara, og áreiðanlega miklum vafa undirorpið, að hér sé til stofnað af sérstakri hagsýni. Ég hef leyft mér að draga í efla, að þjónustustarfsemin við fólkið í landinu verði miklu meiri. Það eru að vísu aðrar breytingar, sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir í frv. Þær eru kannske veigameiri en ég hef gert mér grein fyrir, en eins og ég sagði: ef það er rétt, að hér sé um aðalbreytinguna að ræða, þá held ég, að við ættum að staldra við og athuga málið nánar, áður en kapp væri lagt á afgreiðslu þess.