30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

70. mál, öryggismál Íslands

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þegar forustumenn Íslendinga í frelsisbaráttunni gerðu sér ljóst, að takmark þjóðarinnar hlyti að verða fullur aðskilnaður og stofnun lýðveldis, komu þeir fljótlega auga á þá erfiðleika, sem öryggismál mundu valda íslenzku lýðveldi. Opinberar umr. urðu um þetta mál þegar fyrir aldamót, en hámarki náðu þær í kosningum um uppkastið. Var þá þegar deilt um, hvort sjálfstætt Ísland gæti verið varnarlaust, hvort stofna þyrfti íslenzkt varnarlið eða leita samninga við önnur ríki um að ábyrgjast öryggi þjóðarinnar. Fyrsta ákvörðun í þessum efnum var tekin með sambandslögunum 1918, þegar lýst var yfir ævarandi hlutleysi Íslands. Enn var þá deilt um málið, og bentu ýmsir á, að hlutleysi mundi ekki duga þjóðinni til öryggis. En fátt var um aðra kosti, eins og málum var háttað í lok fyrri heimstyrjaldar.

Hlutleysið brást þegar í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar, og viðurkenndu Íslendingar þá staðreynd með samningunum við Bandaríkin 1941. Eftir ófriðinn var það von margra, að Sameinuðu þjóðirnar mundu tryggja frelsi og öryggi smáþjóða eins og Íslendinga, en því miður reyndust það fljótlega vera tálvonir. Þegar þessi staðreynd varð ljós og kalda stríðið hófst, komst meiri hl. Alþingis að þeirri niðurstöðu, að Íslendingar yrðu að tryggja öryggi sitt með þátttöku í bandalagi, sem nágrannaþjóðir þá mynduðu, Atlantshafsbandalaginu. Síðan hefur þjóðin verið klofin í afstöðu til flestra utanríkismála, ekki sízt til aðildar að Atlantshafsbandalaginu og dvalar varnarliðsins.

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að bandalaginu, var þeim heitið því, að ekki þyrfti að dveljast erlent varnarlið í landinu á fríðartímum. Að vísu hafa allar aðstæður breytzt svo mjög, að óraunhæft er fyrir Íslendinga að krefjast beinna efnda á þessu gamla fyrirheiti. Hitt er þó rétt að minna á, að í meginatriðum mun það skoðun langflestra landsmanna eins og áður, að þeir vilja vera lausir við erlent varnarlið, ef þess er nokkur kostur. Um þetta vitna m.a. yfirlýsingar allra flokka. En margir hafa í tvo áratugi fallizt á dvöl varnarliðsins sem illa nauðsyn. Alþfl. hefur samþykkt dvöl varnarliðsins, af því að hann hefur talið varnarleysi Íslands óraunhæft og stundum hættulegt. Hins vegar hafa jafnaðarmenn borið þá von í brjósti eins og allur þorri landsmanna, að heimsfriður yrði svo tryggður, að varnarliðs yrði hér ekki þörf.

Till. þá, sem hér er til umr., verður að skoða í þessu ljósi. Alþfl. hefur ekki breytt grundvallarstefnu sinni í varnarmálum, en hann hefur hugleitt leiðir til breytingar á skipan þeirra, — leiðir, sem Íslendingar gætu e.t.v. til frambúðar unað betur við en núverandi ástand. Árangur þeirra athugana hefur orðið sá, að síðasta þing Alþfl. ályktaði, að rétt væri að kanna þær nýju leiðir, sem um getur í till.

Það er af mörgum ástæðum tímabært fyrir Íslendinga að athuga þessi mál frá grunni einmitt nú. Sambúð stórvelda hefur ekki verið betri frá stríðslokum en nú í seinni tíð, og líkur á ófriði í Evrópu eða á heimsófriði eru að flestra hyggju minni en nokkru sinni síðan annarri heimstyrjöldinni lauk. Einmitt í s.l. viku kom saman í Helsinki undirbúningsfundur fyrir öryggisráðstefnu Evrópu og Norður-Ameríkuríkja, og er það eitt sterkur vottur um batnandi ástand. Að vísu er enn háð vígbúnaðarkapphlaup á heimshöfunum, ekki sízt á Norður- Atlantshafi, en við verðum í þessu máli að gera hvort tveggja, að líta á aðstæður næst okkur, en rífa þær ekki úr samhengi við batnandi heimsástand, sem að sjálfsögðu ræður úrslitum um ályktanir í þessum efnum.

Till. okkar jafnaðarmanna byggist á samþykkt siðasta þings Alþfl. og er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar eð tæknibreytingar síðustu ára hafa valdið því, að hernaðarleg þýðing Íslands felst nú að langmestu leyti í eftirliti með siglingum í og á hafinu milli Grænlands, Íslands og Færeyja, ályktar Alþ. að fela ríkisstj.:

1. að láta rannsaka, hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við það öryggisbandalag, sem landið er aðili að, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna, og

2. að rannsaka, hvort Íslendingar geti með fjárhagslegri þátttöku bandalagsins komið upp sveit fullkominna, en óvopnaðra eftirlitsflugvéla, svo og nauðsynlegum björgunarflugvélum og tekið við þessum þýðingarmesta hluta af verkefni varnarliðsins og stjórn varnarsvæðanna.“

Til þess að skýra þær hugmyndir, sem liggja að baki þessari till., er rétt að rekja mjög stuttlega þróun landvarna á Íslandi síðustu 21/2 ár, eða síðan varnarliðið kom hingað. Liðið, sem steig á land á Íslandi vorið 1951, var skipað rúmlega 5000 mönnum úr landher og flugher Bandaríkjanna. Reistar voru 4 ratsjárstöðvar á landshornum og komið fyrir sveit orrustuflugvéla á Keflavíkurflugvelli. Deildir landhersins voru vopnaðar til þess að verja landið gegn hugsanlegri innrás og höguðu sér samkv. því í tíðum skotæfingum. Augljóst er, að þessi varnarskipun var ekki aðeins fyrir Ísland, heldur hluti af keðju stöðva í linu frá Alaska yfir norðanvert Kanada, Grænland, Ísland, Færeyjar og til Bretlands. Þetta varnarkerfi byggðist á þeirri skoðun, að nýr ófriður kynni að brjótast út á þann hátt, að flugvélar og flugskeyti með kjarnorkuvopn kæmu svífandi yfir norðurhvel í áttina til Bandaríkjanna. Þessar hugmyndir voru ríkjandi á árum kalda stríðsins og viðbúnaði hagað eftir þeim með þeirri tækni, sem þá var fullkomnust.

Um 1960 tóku viðhorf að breytast. Kafbátar búnir kjarnorkuflugskeytum komu til sögunnar. Það varð ljóst, að þrátefli kjarnorkuvopna gæti haldizt lengi, en búast mætti við, að ýmislegt annað valdatafl héldi samt sem áður áfram.

Sumarið 1961 var gerð mikil breyting á varnarliðinu. Landherinn var kallaður á brott, en í hans stað voru eftirlitsflugsveitir bandaríska flotans fluttar frá Nýfundnalandi til Íslands. Flotaforingjar tóku við stjórn varnarliðsins af flugforingjum. Fækkað var í liðinu úr 5000 í rúmlega 3000, og ratsjárstöðvar urðu aðeins tvær. Vopnaburður í Keflavík minnkaði til muna, en meginstarf varnarliðsins varð og er enn í dag eftirlitsflug um sundin milli Grænlands, Íslands og Færeyja og annars staðar í nágrenni við landið.

Í margar aldir hafa Engilsaxar, fyrst Bretar, en síðan Bandaríkjamenn, haft alger yfirráð á Atlantshafi og raunar öllum öðrum heimshöfum. Þetta hefur haft víðtæk áhrif á mannkynssöguna og örlög margra þjóða, þ. á m. okkar Íslendinga. Á síðustu árum hafa Sovétríkin ráðist í stórfellda uppbyggingu Rauða flotans. Sovézku herskipin eru af nær öllum gerðum og hin fullkomnustu. Þau sigla í vaxandi fjölda um heimsins höf og sýna fána sinn í höfnum allra meginlanda. Rauði flotinn skiptist í fjóra hluta, og hefur hinn stærsti og öflugasti þeirra Norðurflotinn svokallaði, heimkynni í höfnum á Kólaskaga. Þessi floti hefur stækkað og umsvif hans aukizt á hverju ári nú undanfarið. Norskir sérfræðingar við utanríkismálastofnunina í Osló hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að Sovétríkin telji nú tvímælalaust, að Framvarnarlína þeirra á Norður-Atlantshafi sé á milli Íslands og Færeyja. Margir fleiri aðilar hafa látið í ljós sömu skoðanir um hernaðarstöðu og þýðingu Íslands í dag, en rökstudd andmæli hafa verið lítil sem engin. Ísland hefur því nú á dögum aðra, en að ýmsu leyti meiri hernaðarlega þýðingu en áður.

Enda þótt sambúð stórvelda haldi áfram að batna og líkur á heimsófriði að minnka, bendir ekkert til þess, að vígbúnaðarkapphlaupið á hafinu sjálfu verði stöðvað í næstu framtíð. Það er því með öllu óraunhæft að okkar hyggju, að varnarliðið hverfi frá Íslandi, án þess að eitthvað komi í staðinn. Ef óvopnað eftirlitsflug og annað, sem því fylgir, skiptir nú mestu máli, eins og rök benda mjög eindregið til, hljóta Íslendingar að athuga vandlega, hvort þeir geta tekið það hlutverk að sér og þar með rekstur varnarstöðvanna. Reynist þetta við nánari athugun fært, er ástæða til að ætla, að ríkisstj. Íslands muni í fyrirsjáanlegri framtíð jafnan eiga ýmissa frekari kosta völ til að tryggja öryggi þjóðarinnar, ef ástand alþjóðamála breytist til hins verra og talin er ástæða til að gera sérstakar ráðstafanir.

Meðan hlutverk varnarliðsins var að mestu vopnaburður, kom ekki til mála, að Íslendingar tækju við því. Nú krefst meginhlutverk varnarliðsins, eftirlitsflugið, ekki vopnaburðar.

Þess vegna er varpað fram þeirri spurningu, hvort ekki nægi að hafa hér vopnlausa eftirlitsstöð, en Íslendingar taki að sér eftirlitið. Landhelgisgæzlan eða annar aðili mundi þá koma á fót eftirlits- og björgunarsveit, sem gæti fylgzt vandlega með öllum siglingum, fiskveiðum og annarri hagnýtingu á auðæfum hafsins, hættum á mengun og öðru, sem máli skiptir. Á nokkrum árum mundu Íslendingar taka alveg við rekstri og stjórn varnarliðsstöðvarinnar. Meðan Atlantshafsbandalagið starfar og Íslendingar eru í því, hlyti þessi starfsemi að verða í nánum tengslum við það. Í framtíðinni kemst vonandi á almenn afvopnun eða a.m.k. víðtæk takmörkun á vopnaburði undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Að því stefnum við öll og það hlýtur að vera það mark, sem Sameinuðu þjóðirnar vinna að. Ef slík skipan kæmist á, gæti Ísland gegnt mjög mikilvægu hlutverki sem eftirlitsstöð með samningum eða eftirlitsstöð með afvopnun.

Að sjálfsögðu er á þessu stigi fjölmörgum spurningum ósvarað varðandi þetta mál. Hugmyndum þeim, sem fram komu á flokksþingi Alþfl., er varpað fram til athugunar og íhugunar. Einmitt nú, þegar boðaðar hafa verið viðræður við Bandaríkjastjórn um varnir landsins í byrjun næsta árs, virðist slík athugun vera tímabær.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til utanrmn.