30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

70. mál, öryggismál Íslands

Utanrrh. (Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef hug á því að segja aðeins örfá orð um þá till., sem hér er til umr., till. frá öllum þm. Alþfl. um öryggismál Íslands.

Þessi till. er mikið breytt frá þeirri till. um sömu mál. er sömu hv. alþm. fluttu á síðasta þingi. Hún er allt annars eðlis. Þá var lögð áherzla á afskipti utanrmn. af þeirri endurskoðun varnarsamningsins, sem fyrirhuguð er. Ég lýsti afstöðu minni til þeirrar till. í fyrra, hún er óbreytt, að við utanrmn. beri að hafa mikið samráð og náið um þá endurskoðun, sem hér um ræðir. En efni þessarar till. er tvíþætt, annars vegar að láta rannsaka, hvort Ísland geti verið óvopnuð eftirlitsstöð í sambandi við það öryggisbandalag, sem landið er aðili að, Atlantshafsbandalagið, en síðar meir á vegum Sameinuðu þjóðanna, og svo hins vegar, að það verði einnig rannsakað, hvort Íslendingar geti með fjárhagslegri þátttöku bandalagsins komið upp sveit fullkominna, en óvopnaðra eftirlitsflugvéla, svo og nauðsynlegum björgunarflugvélum og tekið við þessum þýðingarmesta hluta verkefnis varnarliðsins og stjórn varnarsvæðanna, eins og í till. segir.

Ég ætla ekki að hafa um þetta mál mörg orð, en ég vil aðeins segja það, að ég tel þessa till. góðra gjalda verða. Ég lít á hana sem eina leið eða tilraun í þá átt að hrinda í framkvæmd því ákvæði í málefnasamningi ríkisstj., er um öryggismálin fjallar, en þar segir, svo sem þm. er kunnugt, að að óbreyttum aðstæðum skuli núgildandi skipan haldast að því er varðar aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, en varnarsamningurinn við Bandaríkin skuli tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni, að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Og þar segir líka, eins og kunnugt er, að stefnt skuli að því, að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu.

Tilhögun sú, sem gert er ráð fyrir í þessari till., sem hér er um að ræða, að rannsökuð verði, hlýtur vissulega, eins og hv. frsm. sagði, að verða eitt af þeim atriðum, sem til greina kemur, og auðvitað verður þessi leið athuguð í sambandi við þá endurskoðun, sem fyrirhuguð er, en undirbúningur hennar mun hefjast í jan. n.k. Mun ég þá fara til Bandaríkjanna til viðræðna við stjórnvöld þar um þá endurskoðun.

Eins og segir í grg. með þáltill., liggur ályktun frá 34. þingi Alþfl., er haldið var hinn 22. okt. s.l., að baki till. Þessi ályktun sýnist mér vera talsvert frábrugðin því, sem Alþfl. hefur áður ályktað um þessi mál. Það er að mínu mati góðs viti, að annar stjórnarandstöðuflokkurinn skuli nú þegar hafa nálgazt stefnu ríkisstj. í öryggismálunum, og ég vona, að það geti orðið upphaf meiri tíðinda, því að vissulega væri það vel, ef þjóðarsamstaða gæti náðst um þessi þýðingarmiklu mál. Ég vil fyrir mitt leyti ekki heldur að óreyndu trúa því, að nokkrum Íslendingi sé það keppikefli að hafa hér erlendan her um alla framtíð, heldur hljóti allir góðir menn að óska þess, að það ástand skapist, að við getum lifað einir í þessu landi. Hitt er svo annað mál, að á fleira er að líta en óskhyggjuna eina, og ég hef áður lýst því yfir og geri enn, að engin ákvörðun í þessu máli verður tekin án samráðs við Alþ. og að vel athuguðu máli. Ég hygg líka, að í umr., sem urðu hér á Alþ. um þessi mál af öðru tilefni á síðasta þingi, hafi glögglega komið fram, að enginn þm. telur það sitt stefnuskráratriði, að hér skuli vera her um aldur og ævi, þannig að ég hygg, að menn séu sammála um það, að miklu betra væri, ef svo þyrfti ekki að vera.

Það er alveg rétt, sem hv. 1. flm. till., hv. 8. landsk. þm., Benedikt Gröndal. sagði hér áðan, að frá almennu sjónarmiði er óneitanlega ýmislegt, sem bendir til þess, að nokkur bjartsýni um framvindu þessara mála eigi rétt á sér. Öllum er okkur kunnugt um hinn mikla kosningasigur, sem stjórn Willy Brandts kanzlara vann í Vestur-Þýzkalandi fyrir tæplega hálfum mánuði. Samskipti austurs og vesturs eru að færast í eðlilegt horf. Viðurkenning Austur-Þýzkalands liggur nú í loftinu, og við höfum fyrir okkar leyti í ríkisstj. ákveðið, að Ísland viðurkenni austur-þýzka alþýðulýðveldið eigi síðar en um næstu áramót, og vonandi getur það orðið enn þá fyrr. Svipað mun vera um hin Norðurlöndin, og fleiri ríki munu þar á eftir koma áreiðanlega eftir þeim fréttum, sem um þessi mál berast.

Þá hefur það einnig gerzt, að undirbúningur að öryggismálaráðstefnu Evrópu er nú loks hafinn í Finnlandi, og þessa dagana situr ráðuneytisstjóri utanrrn. þar á fundum fyrir íslands hönd, í nánum tengslum við öryggis- og samvinnuráðstefnu Evrópu, eins og ráðstefnan í Finnlandi er kölluð, verður rædd gagnkvæm áætlun um niðurskurð herafla. Fleira mætti tína til, sem gæti stuðlað að því að skapa það ástand, sem um ræðir í margnefndum málefnasamningi íslenzku ríkisstj., þ.e. að friði milli þjóða verði bezt borgið án hernaðarbandalaga. Það ber vissulega að vona, að framhald verði á þeirri hagstæðu þróun, og svo að ég vitni enn til hv. frsm., að það ástand geti skapazt, að til almennrar afvopnunar komi eða verulegrar takmörkunar á vígbúnaði undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna, eins og nú er stefnt að.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til þess, herra forseti, að vera að gera þessi mál hér frekar að umtalsefni eða eyða tíma í að ræða þau hér frekar, nema þá sérstakt tilefni gefist til. Ég vil styðja það og tel sjálfsagt, að þessi till. fái gaumgæfilega athugun í hv. utanrmn., og ég get fyrir mitt leyti lofað þessari till. atkv. mínu, þegar hún kemur þaðan. Það má kannske út af fyrir sig segja, að e.t.v. sé hennar ekki þörf, þar sem alltaf hefur staðið til að athuga mjög nákvæmlega þá leið, sem hún bendir á. Engu að síður tel ég, að sá andi og það viðhorf, sem till. sýnir, sé vissulega mikils virði, og þess vegna fagna ég því spori, sem hv. Alþfl: menn nú hafa stigíð í þessum mikilsverðu málum, öryggismálum landsins.