30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

70. mál, öryggismál Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., hefur nú gert svo glögga grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna í varnarmálum, að ég þarf ekki margt um þetta að segja. En mér kom til hugar, að það væri samt eðlilegt að segja nokkur orð í tilefni af því, að það hefur verið vitnað til þess, að hv. Alþfl.- menn væru að nálgast stefnu ríkisstj. í varnarmálunum. Þeir, sem það segja, gera náttúrlega ráð fyrir því, að það sé aðeins ein stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur í þessum málum. En það hefur komið fram, bæði í dag og oft áður, að svo er ekki. Það kom glögglega fram, þegar hv. 4. þm. Norðl. v. talaði hér áðan, að hann hefur allt aðra stefnu en hæstv. utanrrh.

Hv. 4. þm. Norðl. v. sagði hér áðan, að það kæmi Íslendingum ekkert við, hvað gerðist hér á hafinu í kringum landið. Þótt Rauði flotinn, eins og hann nefndi svo, yrði sterkur, væri það Íslandi óviðkomandi. Það væri bezt fyrir okkur að binda fyrir augun og skipta okkur ekkert af því, sem gerðist meðal stórveldanna í varnareða hermálum. Hlutleysið væri okkar bezta vörn, sagði hann. Þetta hefur komið fram áður, bæði hjá þessum hv. þm. og flokksbræðrum hans, þegar um varnarmálin hefur verið rætt. Þeir hafa sagt: Það á að segja upp varnarsamningnum og láta varnarliðið fara á kjörtímabilinu skilyrðislaust. Hæstv. utanrrh. hefur sagt: Það á að endurskoða varnarsamninginn. Við sjálfstæðismenn teljum eðlilegt, að eftir 20 ár fari fram endurskoðun á samningnum. Hæstv. utanrrh. hefur sagt í sjónvarpi og ég ætla víðar, að ef endurskoðunin leiði það í ljós, að varnarliðsins sé þörf hér áfram, þá eigi það að vera hér. Þetta finnst mér skynsamleg og ábyrg afstaða hjá hæstv. utanrrh. Ég vona, að hann haldi við sannfæringu sína í þessu efni og víki ekki frá henni.

Hæstv. ráðh. hefur boðað það, að viðræður við Bandaríkin hefjist í jan. n.k. Þá verða þessi mál skoðuð til grunna. Þá verður athugað, hvernig varnarmálum Íslands verði bezt komið fyrir. Hæstv. utanrrh. telur, að það sé Íslandi fyrir beztu að vera í Atlantshafsbandalaginu áfram, og ég hygg, að hans flokkur sé einnig sammála um það. Ekki er heldur að efa, að Alþfl.-menn, þrátt fyrir þessa till. styðji það. Þetta er einmitt stoðin undir því, sem ég sagði hér áðan, að ríkisstj. hefur ekki eina skoðun í varnarmálinu.

Nú vil ég ekkert fullyrða um, til hvers endurskoðun varnarsamningsins kann að leiða. En líklegt má telja, að hún leiði til þess, að það þyki ástæða til og nauðsynlegt að hafa varnarlið hér áfram. Það er talað um í þessari till. að láta fara fram athugun á því, hvort Íslendingar sjálfir gætu annazt gæzlu hér á landi og til þess yrði þjálfað lið Íslendinga. Það er vitanlega ekki rétt að fullyrða nokkuð um þetta fyrr en að athugun lokinni. En margur mundi vilja spyrja: Hversu fjölmennt þyrfti þetta gæzlulið að vera? Geta Íslendingar látið mannafla til slíks? Vitanlega þarf að fá það upplýst, hvað þetta gæzlulið þyrfti að vera fjölmennt, ef varnarliðið færi. Og vissulega mundi margur hugsa sem svo: Væri nóg að hafa hér gæzlulið, sem gæfi til kynna, ef eitthvað væri að gerast á sjónum, í lofti eða annað slíkt, sem væri hættumerki? Væri þá ekki of seint að sækja varnarliðið til þess að snúast gegn hættunni?

Það hafa tveir hv. ræðumenn vitnað hér í dag í Willy Brandt. Hann vann frægan kosningasigur, eins og kunnugt er. Hann er mikill friðarsinni, enginn efast um það. Hann hefur unnið manna mest að því að koma á þíðunni, eins og það er kallað, milli austurs og vesturs. En hver er afstaða Willy Brandts til erlends varnarliðs í Þýzkalandi og hjá öðrum Evrópuþjóðum? Hvað sagði Willy Brandt, þegar það kom til umræðu í Bandaríkjaþingi að draga heim ameríska varnarliðið, sem nú er í Þýzkalandi, Bandaríkjaþing vildi skera niður fjárveitingar til varnarliðsins í Evrópu? Hvað sagði Willy Brandt? Við viljum ekki missa ameríska varnarliðið frá Þýzkalandi. Ef ekki fæst fjárveiting frá Bandaríkjaþingi, þá viljum við, Þjóðverjar, kosta þetta lið. Og hvers vegna? Vegna þess að Willy Brandt er þrátt fyrir þíðuna. sem nú er, ekki öruggur um varanlegan frið. Hann gerir sér grein fyrir því, að til þess að tryggja friðinn þarf að hafa varnir og jafnvægi í hernaðarmálum. Vitanlega viljum við Íslendingar vinna að friði. Og hvers vegna skyldum við ekki kjósa það að mega vera hér einir í landinu án þess að hafa hér útlent varnarlið? En við höfum tekið þá afstöðu að vera í varnarbandalagi vestrænna þjóða, þeirra þjóða, sem eru okkur skyldastar að hugarfari, stjórnarfari og viðurkenna rétt smáþjóðanna til þess að vera frjálsar. Það er viðurkennt, að síðan Atlantshafsbandalagið var stofnað og það efldist hefur yfirgangurinn að austan að mestu orðið að láta staðar numið. Þótt Tékkóslóvakía hafi að vísu verið innlimuð eftir þetta og Ungverjaland, hefur þó orðið stöðvun á framrás Rússa, eftir að Atlantslafsbandalagið varð jafnöflugt og það nú er. Ef það er að áliti fróðustu manna, að það veiki varnarmátt vestrænna þjóða að láta varnarliðið fara héðan, þá segi ég eins og hæstv. utanrrh. í sjónvarpinu forðum, að þá verður varnarliðið hér áfram. Réttur Íslendinga verður bezt tryggður með því, að varnarbandalag Vestur-Evrópuríkjanna haldi áfram að styrkjast og þjóna þeim tilgangi, sem það var stofnað til.

Um þessa till., sem hér hefur verið rætt um, ætla ég ekki að fara fleiri orðum. Það, sem er aðalatriði í till., er það, að Alþfl.- menn vilja vera áfram í Atlantshafsbandalaginu og þeir segja beinlínis, að ef varnarliðið fari héðan, þá verði eitthvað annað að koma í staðinn, eitthvað annað, sem dugir. Ég fagna því, að hv. Alþfl.-menn eru sama sinnis og við sjálfstæðismenn og hæstv. utanrrh. um þetta. Ég held þess vegna, að við þurfum ekki að hafa sérstaklega miklar áhyggjur af varnarmálunum að svo stöddu, vegna þess að því verður að trúa að hæstv. utanrrh. fari eftir sannfæringu sinni og beztu samvizku í þessu máli.