30.11.1972
Sameinað þing: 23. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

72. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Þegar málið, sem nú er á dagskrá, var hér síðast til umr., kom fram í máli manna, hve nauðsynlegt væri í þessu efni að framkvæma og hafa í frammi stóraukinn áróður um skaðsemi áfengis. Þessu hafa menn æ ofan í æ haldið fram hér á Alþ., og þótt sú till., sem fram hefur verið borin til einhverrar lausnar á þessum vanda, verði samþykkt, nær hún vitanlega ekki nándar nærri eins langt og stóraukin fræðsla um skaðsemi áfengis. Við getum ekki verið viss um það, að fólk almennt beri þá virðingu fyrir stjórnmálamönnum, að jafnvel þótt þeir hætti að drekka áfengi í veizlum sínum, þá leggist þar með áfengisneyzla annarra niður eða stórminnki. Við skulum þó vona, að slík breyting hefði einhver áhrif, og má raunar vafalaust telja, að stjórnmálamennirnir sjálfir minnki a.m.k. áfengisneyzlu sína í veizlum, hvort sem um er að ræða opinberar eða einkaveizlur.

Hvað sem því líður, þá var erindi mitt í ræðustólinn að vekja athygli á því, að á t.d. vori samþykktí Alþ. með shlj. atkv. þál. um stóraukna fræðslu um skaðsemi áfengis. Þál., sem samþ. var 16. maí í vor, hljóðaði svo:

Þál. um varnir gegn ofneyzlu áfengis. — Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að eftirfarandi ráðstafanir verði gerðar til að draga úr neyzlu áfengra drykkja:

1. Að efld verði undir forustu áfengisvarnaráðs upplýsingastarfsemi um háskalegar afleiðingar af ofnotkun áfengra drykkja og mjög stuðlað að því, að slík upplýsingastarfsemi fari m.a. fram í öllum fjölmiðlum landsins, svo sem hljóðvarpi, sjónvarpi og blöðum.

2. Að löggæzlu verði hagað þannig, að sem mest áherzla sé lögð á að koma í veg fyrir áfengislagabrot.

Kostnaður vegna þessara ráðstafana verði greiddur úr ríkissjóði.“

Þegar þetta mál var rætt hér, man ég, að flm. þessa máls, hv. þáv. þm. Hjördís Hjörleifsdóttir, lagði á það áherzlu, að e.t.v. væri ekki úr vegi að fara sömu leið í þessu máli og gert var og gert er enn í áróðrinum gegn ofnotkun tóbaks. Það þarf ekki að fara hér neinum orðum um það, hve áfengi er miklu, miklu hættulegra en tóbak, þó að tóbak sé mjög hættulegt. Við þurfum ekki annað en skoða tölur um það, hve mörg mannslát áfengið hefur orsakað, og þess vegna sé ég enga ástæðu til þess að minna frekar á rökin fyrir þessari þál. Um hana voru allir sammála, og við skoruðum á ríkisstj. að beita sér fyrir þessari fræðslu. En ég hef ekki orðið vör við neinn aukinn áróður, sem í frammi væri hafður til þess að kynna mönnum afleiðingar af notkun áfengis, nema þá helzt í sambandi við umferðarslys, sem af notkun áfengis geta orsakazt. Ekki sjást t.d. neinar aðvörunarmiðar á áfengisflöskum. Væri þó ekki úr vegi að láta sér detta í hug, að það væru miðar á áfengisflöskum, þar sem stæði kannske, hve mikið magn af innihaldi þessarar flösku væri óhætt að drekka án þess að verða sér til vansæmdar og öðrum til skapraunar. Það eru uppskriftir á öllum mögulegum pökkum af matvælum, sem við kaupum í verzlunum, hvernig eigi að nota þetta og þetta duftið til búðingsgerðar o.s.frv., en jafnhættulegt efni og áfengið er selt án þess, að þar standi á nokkrar leiðbeiningar um meðferð. Þetta vildi ég einnig benda á og lýk svo máli mínu með því að spyrja einhvern hæstv. ráðh., hvort ríkisstj. hafi beitt sér fyrir því og hvað hún hafi þá gert til að framkvæma þál., sem við samþykktum 16. maí s.l.