04.12.1972
Sameinað þing: 24. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 979 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

Rannsókn kjörbréfa

Forseti (EystJ):

Mér hefur borizt svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 30. nóv. 1972.

Magnús Jónsson, 2. þm. Norðurl. e., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Hér með leyfi ég mér, herra forseti, að biðjast leyfis frá þingstörfum fram að jólaleyfi þingmanna vegna óvenjulegra embættisanna í desember. Óska ég þess jafnframt, að 2. varaþingmaður Sjálfstfl. í Norðurl. e., Jón G. Sólnes bankaútibússtjóri, taki á meðan sæti mitt á Alþingi, þar eð 1. varaþingmaður flokksins í kjördæminu situr nú á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.“

Eggert G. Þorsteinsson,

forseti Ed.

Jón G. Sólnes hefur ekki setið á þingbekk áður, og þarf því að fara fram skoðun á kjörbréfi hans. Bið ég hv. kjörbréfanefnd að taka kjörbréfið til skoðunar.

Þá hefur mér einnig borizt annað bréf, svo hljóðandi:

„Reykjavík, 30. nóv. 1072.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, ritari þingflokks Sjálfstfl., hefur ritað mér á þessa leið:

„Samkvæmt beiðni Jóns Árnasonar, 2. þm. Vesturl., sem nú er sjúkur, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að varamaður hans, Ásgeir Pétursson sýslumaður, taki á meðan sæti hans á Alþingi.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um, að þér látið fram fara í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Eggert G. Þorsteinsson,

forseti Ed.

Eins og fram er tekið í bréfi forseta Ed., ber að láta fara fram skoðun á kjörbréfi Ásgeirs Péturssonar sýslumanns, þar sem hann hefur ekki setið á Alþingi á þessu kjörtímabili“

Loks hefur borizt eftirfarandi bréf:

„Reykjavík, 4. des. 1972.

Gísli Guðmundsson, 1. þm. Norðurl. e., hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég af heilsufarsástæðum mun ekki geta sótt þingfundi næstu vikur, leyfi ég mér að biðja um fjarvistarleyfi og með skírskotun til 138. gr. l. um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Framsfl. í Norðurl. e., Jónas Jónsson aðstoðarmaður ráðherra, taki sæti á Alþingi í forföllum mínum.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.“ Jónas Jónsson hefur setið á þingbekk á þessu kjörtímabili og kjörbréf hans verið samþykkt.

Ég býð hann velkominn til starfa. Bið ég hv. kjörbréfanefnd að skoða kjörbréfin tvö, og verður fundarhlé í 8 mín. —