19.10.1972
Sameinað þing: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

Ráðgjafi í sendinefnd Ísl. hjá Sameinuðu þjóðunum

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs hér utan dagskrár vegna fréttar, sem við höfum í dag lesið og heyrt varðandi skipun sérlegs ráðunautar við sendinefnd Íslands á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þegar um sendinefnd Íslands til Sameinuðu þjóðanna var rætt á fundi utanrmn. og þá gerð grein fyrir því af hæstv. utanrrh., hvernig hún yrði skipuð, þá minnist ég þess ekki, að þar hafi komið fram, að skipaður yrði sérlegur ráðunautur, sem tæki síðar sæti á þingi Sameinuðu þjóðanna. (Gripið fram í: Ráðgjafi.) Ráðgjafi. Þegar þessar umr. fóru fram í hv. utanrmn., var gert ráð fyrir, að sendinefnd Íslands yrði skipuð með venjulegum hætti, þ.e.a.s. fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, varafastafulltrúanum, ræðismanninum og fulltrúum þingflokkanna, auk hæstv. utanrrh., sem fór á þing Sameinuðu þjóðanna sem formaður sendinefndarinnar. Þá kom m.a. til umr., hvort gerðar yrðu einhverjar breytingar, og umr. snerust m.a. um þann kostnað, sem er af því að sjálfsögðu, að slíkar sendinefndir fari úr landi, og eðlilegast og réttast og sjálfsagt, að þeim kostnaði verði stillt sem mest í hóf. Það var líka vegna þess, að ég hafði einhvers staðar heyrt, að hinn sérlegi ráðgjafi væri á ferðinni til Bandaríkjanna, sem það kom mér á óvart, að hann skyldi nú fara sem ráðgjafi íslenzku sendin. á þingi Sameinuðu þjóðanna.

Mig langar þess vegna til að varpa fram örfáum spurningum til hæstv. utanrrh.: Í fyrsta lagi, hvort hér sé um að ræða sérstaka stöðu hjá utanrrn. eða hvort hér sé um að ræða tímabundið starf, kannske vegna þess, að einhver þau málefni verði á dagskrá Sameinuðu þjóðanna, sem rétt sé, að verði skoðuð af íslenzkum rithöfundi og hann geti orðið ráðgjafi sendinefndarinnar varðandi þessi mál. Ef svo væri, þá væri hér um að ræða heldur leiðinlega kveðju til eins af fulltrúum í sendinefndinni, hv. 4. landsk. þm., Svövu Jakobsdóttur, sem þar situr og er rithöfundur, eins og allir þekkja.

Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. utanrrh. að því, hvort ráðgjafanum er einvörðungu ætlað að veita fulltrúum þingflokkanna ráð eða hvort hann er ráðgjafi allrar íslenzku sendinefndarinnar, þ. á m. fastafulltrúans, varafastafulltrúans og ræðismannsins. Ef svo væri, að hér væri ekki um að ræða ráðgjafa allrar nefndarinnar, heldur einvörðungu fulltrúa þingflokkanna, teldi ég, að það væri verið að gefa þeim fulltrúum þingflokkanna, sem áður hafa setið á þingi Sameinuðu þjóða, ráðningu. Þeir hefðu þá með einhverjum hætti ekki hagað sér sem skyldi og þess vegna talin ástæða til þess að senda með þeim að þessu sinni sérstakan ráðgjafa.