04.12.1972
Efri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

29. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi lagði ég fram ásamt hv. þm. Páli Þorsteinssyni og Jóni Helgasyni frv. til l. um breyt. á l. um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem var svipuð því frv., sem nú er til umr. Frv. það var sent til umsagnar, og bárust umsagnir frá 5 aðilum. Umsagnir þessar voru allar jákvæðar.

Í umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna er mælt með því, að frv. verði samþ., en vakin athygli á því, að það mætti vera á valdi stjórnar Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins að ákveða, hvar rannsóknastofur þessar yrðu staðsettar í hverjum landsfjórðungi. Einnig barst umsögn frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, þar sem mælt er með samþykkt frv., en vakin athygli á þessu sama atriði, að nánara staðarval mætti ákveða af ráðh. og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Einnig barst umsögn frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem var einnig jákvæð. Þá barst umsögn frá Fiskimati ríkisins, sem er allítarleg og fer nokkuð nákvæmlega út í þetta mál. Sú umsögn er einnig jákvæð. Er þar lögð rík áherzla á mikilvægi þess, að nánar sé fylgzt með gæðum þessarar framleiðslu en verið hefur, og talið, að frv. stefni í þá átt. Loks barst mjög ítarleg umsögn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, þar sem einnig er mælt með samþykkt þessa frv., en eins og í flestum öðrum umsögnum sú skoðun sett fram, að ákveða mætti staðsetningu rannsóknastofanna með reglugerð af ráðh. og aðilum fiskiðnaðarins sameiginlega.

Í samræmi við þessar umsagnir féllumst við flm. frv. á síðasta þingi á að breyta frv. þannig, að staðirnir eru ekki nefndir, og er þar gengið fyllilega til móts við þær aths., sem fram komu í fyrrnefndum umsögnum. Þetta frv. fékk ekki afgreiðslu á síðasta þingi, náði því ekki tímans vegna, og fluttum við það aftur í upphafi þessa þings, við hv. þm. Páll Þorsteinsson.

Sjútvn. hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. eins og það er nú orðið og með tilvísun til þeirra umsagna, sem bárust á síðasta þingi, með þeirri breytingu, að í stað orðanna „um stofnsetningu“ í 1. mgr. 1. gr. frv. komi: um stofnkostnað, og verður þá greinin þannig:

„Stefnt skal að því, að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins starfræki rannsóknastofur, a.m.k. eina í hverjum landsfjórðungi og víðar samkv. ákvörðun ráðh. og að fengnum till. aðila fiskiðnaðarins. Leita skal samstarfs við fiskiðnað, aðra matvælaframleiðendur og sveitarfélög á viðkomandi svæði um stofnkosnað„ — í staðinn fyrir stofnsetningu, — „um stofnkostnað og starfrækslu slíkrar rannsóknastofu“ o.s.frv. óbreytt. Breyting þessi miðar að því að undirstrika, að samstarfs skuli leitað um stofnkostnað þessara nýju rannsóknastofa.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Ég hef mælt fyrir því nú þrisvar í þessari hv. d. Ég vil aðeins geta þess til viðbótar því, sem ég hef áður sagt, að ég hef nýlega haft tækifæri til þess að skoða slíka rannsóknastofu í Vestmannaeyjum. Í fáum orðum sagt vil ég lýsa því hér, að ég hreifst mjög af því, sem ég sá þar, og sannfærðist bæði af því og einnig í viðræðum við forstöðumann þeirrar stofu og menn fiskiðnaðarins, að slík þjónusta, sem þar á að veita, er ekki aðeins nauðsynleg, heldur sjálfsögð. Þar varð samstarf þannig, að fiskiðnaðurinn greiddi stofnkostnað. Tveir starfsmenn eru hins vegar starfsmenn hins opinbera, og eru laun þeirra greidd af hinu opinbera með fjárframlagi, að því er ég bezt veit, að upphæð 1 millj, kr. Síðan tekur stofan gjald fyrir þá þjónustu, sem hún veitir, og er því ætlað að standa undir öðrum rekstrarkostnaði þessarar rannsóknastofu.

Það er sannfæring mín, að hraða beri því að koma upp slíkum stofum víðar. Ég fyrir mitt leyti tel ljóst, að þær verða ekki færri en gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. Þar var minnzt á Ísafjörð, Sauðárkrók, Húsavík og Höfn í Hornafirði. Ég get fallizt á, að þetta staðarval með tilliti til Norðausturlands og Austfjarða er e.t.v. nokkuð til umr., þótt mér virðist enn þessir staðir mjög eðlilegir, eins og mér virtist, þegar við lögðum fram frv. í fyrra. Um Vestfirðina er hins vegar ljóst, að slík rannsóknastofa hlýtur að koma á Ísafirði. Aftur á móti er ekki ólíklegt, að stofunum þyrfti að fjölga, þegar fram í sækir.

Síðan n. hafði þetta frv. til athugunar, hefur verið lögð fram brtt. við frv. af hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, 5. þm. Vestf. Leggur hann til, að í lögunum verði ákveðið, að slíkar stofur skuli a.m.k. vera í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Að sjálfsögðu felli ég mig við þetta, enda í fullu samræmi við það, sem lagt var til í upphaflega frv., og mun því styðja þessa till. En ég vil þó leggja ríka áherzlu á, að þessi brtt. má ekki verða til þess að tefja framgang málsins.