04.12.1972
Efri deild: 19. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

74. mál, vélstjóranám

Fram. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. menntmn. hefur athugað frv. til I. um breyt. á l. nr. 67 frá 10. maí 1966, um vélstjóranám, og mælir með samþykkt þess óbreytts. Dálítið er svipað farið um þetta frv. og það, sem rætt var hér í fyrri dagskrárlið. Frv. var lagt fram á síðasta þingi og hlaut þá meðferð n. Það var sent út til umsagnar, og umsagnir bárust frá þremur aðilum. Umsögn barst frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, þar sem mælt er með því, að frv. verði samþ., einnig frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sem sömuleiðis mælir með því, að frv. verði samþ., og loks allítarleg umsögn frá Vélskóla Íslands, þar sem einnig er mælt með samþykkt frv., en ýmsar mikilvægar ábendingar gefnar. Í þeirri umsögn kemur m.a. fram, að skólastjóri iðnskólans á Ísafirði hefur vakið athygli á því, að vel mætti starfrækja það vélstjóranám, sem um ræðir í frv., í tengslum við iðnskólann þar, og virðist Vélskóli Íslands telja hagkvæmt, að svo verði.

Fyrir þessu frv. hefur verið ítarlega mælt af frsm., bæði á síðasta þingi og þessu þingi, og þarf ég ekki fara um það mörgum orðum. Hér er fyrst og fremst um staðfestingu á vaxandi nauðsyn að ræða. Það er vaxandi nauðsyn á vel menntuðum vélstjórum á stækkandi bátaflota, stærri bátum með flóknari vélar og hvers konar útbúnað. Vafalaust er, að þetta nám, a.m.k. fyrstu stig þess, ber að færa út í landsbyggðina. Það er með tilliti til þess, sem hv. menntmn. mælir með samþykkt frv.