19.10.1972
Sameinað þing: 4. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

Ráðgjafi í sendinefnd Ísl. hjá Sameinuðu þjóðunum

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að þessi nýi háttur Alþingis á fsp.-tímum fer með eindæmum vel af stað og verður tæpast á betra kosið. Ég skal lofa hæstv. forseta því, að ég þarf engar 10 mínútur til þess að svara þessari fsp., þó að ræðutími fyrirspyrjanda dygði honum tæpast. Það, sem ég vil segja um þetta mál, er, að Thor Vilhjálmsson rithöfundur, ráðgjafinn, sem hv. 1. þm. Reykn. ber svo mjög fyrir brjósti, er um þessar mundir staddur í Bandaríkjunum, þar sem hann á sæti í alþjóðlegri nefnd rithöfunda til úthlutunar bókmenntaverðlaunum. Fyrir skömmu barst mér beiðni frá heilbrrn. um að greiða fyrir því, að Thor Vilhjálmsson gæti fylgzt með umr. um mengunarmál í þeirri n. Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, sem um þessi mál fjallar. Taldi ég það vera ávinning fyrir okkur, — aðrir kunna að vera á annarri skoðun um það, — og auk þess útgjaldalítið að verða við þessari beiðni, enda fer það mjög í vöxt, að ekki einungis fræðimenn, heldur einnig ýmsir aðrir, þ. á m. rithöfundar, láti sig mengunarmál skipta. Féllst ég því á að greiða fyrir umræddri beiðni með því að útnefna Thor ráðunaut eða ráðgjafa, — ég man nú ekki, hvort heldur var, — íslenzku sendinefndarinnar um þessi mál.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Reykn. og ég get vel beðið hann afsökunar á því og aðra hv. utanrmn: menn, að ég hef sennilega ekki talið þetta mál það mikillar náttúru, að ég þyrfti að greina frá því í utanrmn. Það má vera misskilningur minn, og get ég beðið afsökunar á því út af fyrir sig. En kostnaði við þessa ráðstöfun þarf hv. 1. þm. Reykn, ekki að hafa miklar áhyggjur af, því að hér er aðeins um dagpeninga að ræða í mjög skamman tíma. Hér er m.ö.o. ekki um sérstaka stöðu hjá utanrrn. að ræða. Allar áhyggjur hv. þm. af því eru óþarfar. Hitt skil ég vel, að hann hafi umhyggju fyrir þingsystur okkar, Svövu Jakobsdóttur, og ég vona eins og hann, að þessi útnefning verði ekki til þess að varpa skugga á hennar ágætu störf hjá Sameinuðu þjóðunum að þessu sinni.

Fyrirspurnirnar, sem voru á dagskrá, voru teknar út af dagskrá.