04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

32. mál, loðna til bræðslu

Frsm. meiri hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 34 miðar að því í fáum orðum sagt að koma nokkru skipulagi á loðnulöndun á komandi vertíð. Þeim, sem til þekkja, er ljóst, að varla verður búið lengur við það fyrirkomulag, sem hingað til hefur gilt, einkum hvað varðar mismunun milli skipa í löndunarröð og að afkastageta flotans hefur ekki nýtzt sem skyldi. Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn að halda utan um afla okkar. Nefndin hefur rætt frv. á þrem fundum sínum og sent það ýmsum aðilum til umsagnar. Umsagnir bárust frá fimm aðilum: L.Í.Í1., stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda, Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Ég vil nú leyfa mér — með leyfi forseta — að lesa þessar umsagnir til að kynna mönnum álit þeirra, sem þarna eiga hlut að máli.

Umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna hljóðar á þessa leið:

„Á stjórnarfundi samtakanna, er haldinn var 16. nóv. t.d., var samþykkt að mæla með framangreindu frv., þó með áskildum fyrirvara um einstakar breytingar, er kunna að koma fram á aðalfundi samtakanna, er haldinn verður dagana 28.–30. nóv. n.k.“

Í sambandi við þetta er hægt að segja, að þeir afgreiða þetta fullkomlega jákvætt, þar sem ekki hefur komið nein athugasemd frá fundinum.

Í öðru lagi er umsögn frá Síldarverksmiðjum ríkisins, en þar segir frá tillögu, sem kom fram á fundi í stjórn Síldarverksmiðjanna 23. nóv. s.l. Tillagan hljóðar svo með leyfi forseta:

„Stjórnin er sammála um að mæla með samþykkt frv. og telur, að mikið ríði á því, að þriggja manna nefnd sú, er skipuð er fulltrúum fiskseljenda, fiskkaupenda og oddamanni, skipuðum af sjútvrh., gefi sér tíma til þess að sinna þessu starfi, jafnframt því sem hún ráði sér framkvæmdastjóra og annað starfslið til aðstoðar. Framkvæmdastjórinn hafi ekki önnur störf með höndum á loðnutímabilinu en annast skipulag á löndun loðnunnar skv. fyrirmælum nefndarinnar. Löndunarnefndin og framkvæmdastjóri skulu flokka skip þau, sem loðnuveiðar stunda, í a.m.k. 3 flokka eftir stærð og sé þess gætt að ráðstafa ekki förmum skipa í minnsta flokknum til fjarlægra hafna frá veiðistað.“

Þetta er samþykkt shlj. á þessum fundi.

Frá Félagi ísl. fiskmjölsframleiðenda kom svipuð umsögn. Hún hljóðar svo:

„Fundurinn telur æskilegt, að reglur um loðnulöndum verði ekki fastákveðnar í upphafi, en verði einvörðungu í höndum loðnunefndar, sem skipuð verði á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar telur fundurinn, að kjörtímabil nefndarinnar eigi ekki að vera nema til eins árs í senn. Þá telur fundurinn nauðsynlegt, að nefndin ráði sér sérstakan framkvæmdastjóra, sem starfi einvörðungu á vegum n. á loðnuvertíðinni. Verði þessar breytingar gerðar á frv., vill fundurinn mæla með samþykkt þess, enda verði tekið fram í frv., að lögin skuli endurskoðuð að lokinni loðnuvertíð 1973.“

Þessi tillaga var samþykkt í einu hljóði á fundi Félags ísl. fiskmjölsframleiðenda.

Að loknum lestri þessara umsagna vil ég segja um þá athugasemd, sem kemur fram í síðastlesinni umsögn, að kjörtímabil nefndarinnar verði ekki nema til eins árs, að það er tekið fram í frv.

Þar sem þessir tveir síðustu aðilar óska eftir, að ráðinn verði sérstakur framkvæmdastjóri, áleit n. ekki nauðsynlegt að taka þetta fram sérstaklega í l., þar sem n. getur að sjálfsögðu valið sér starfsfólk, enda gert ráð fyrir því, að kostnaður af þessu starfi nefndarinnar verði greiddur úr sérstökum sjóði.

Ég vil þá lesa umsögn frá Sjómannasambandi Íslands, með leyfi forseta:

„Eins og fram kemur í athugasemdum við frv., hefur stjórn Sjómannasambandsins áður fjallað um mál þetta og lýsir sig samþykka því, að frv. verði að lögum.“

Að síðustu vil ég leyfa mér að lesa, með leyfi forseta, umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um frv.:

„Sambandsstjórn hafði þann hátt á að senda umrætt lagafrv. til umsagnar í sambandsfélögunum. Eitt sambandsfélaganna gat ekki samþykkt frv. Þrátt fyrir andstöðu þessa eina félags við frv., lýsir sambandsstjórn eindregnum stuðningi við frv. Teljum vér, að m.a. þurfi að vera í grg. með frv. eftirfarandi:

1. Þegar skip hefur tilkynnt um afla og veiðisvæði, tilkynnir n., hvaða valkostir eru fyrir löndunarhöfn.

2. Hafi verið stöðvuð löndun á einhverri höfn, er óheimilt að halda til þeirrar hafnar og ætla sér að bíða þar eftir löndun.

3. N. taki fyllsta tillit til veðurs og annarra aðstæðna við ákvörðun um löndunarhöfn eða hafnir.

Við athugun málsins kom í ljós mjög eindreginn vilji yfirmanna á bátaflotanum um, að komið verði á flutningasjóði fyrir loðnuskip.

Að framansögðu viljum við fara þess á leit við hv. sjútvn. Nd. Alþ., að athugun fari fram á því, að upp verði tekið í frv. ákvæði um heimild til flutningasjóðs.“

Samkv. því, sem ég hef nú lesið, mætti vera ljóst, að allir aðilar, undirmenn, yfirmenn, útgerðarmenn og loðnukaupendur, eru allir á einu máli um, að frv. nái fram að ganga.

Meiri hl. n. gerði þrjár brtt. við 2. gr. frv., eins og lesa má á þskj. 128.

Fyrsta breytingin, sem meiri hl. n. gerði við frv., var á þá leið, að á eftir orðunum „tilnefningu samtaka fiskseljenda“ í 1. mgr. komi til skiptis frá samtökum sjómanna og frá samtökum útgerðarmanna. — Þetta er gert í þeim tilgangi að koma í veg fyrir árekstra í vall fulltrúa frá sundurleitum aðilum, þ.e.a.s. sjómönnum annars vegar og útgerðarmönnum hins vegar.

Önnur breytingin, sem meiri hl. n. leggur til, er sú, að á eftir 1. mgr. komi, með leyfi forseta: „Eigi er heimilt að stöðva löndun í verksmiðju, meðan móttökuskilyrði eru fyrir hendi.“ Þessi breyting er gerð til þess, að ekki sé hægt að stöðva löndun í höfn í þeim tilgangi einum að jafna hráefni milli verksmiðja.

Þriðja breytingin er gerð til þess að koma til móts við óskir sjómanna varðandi 2. gr., eins og m.a. hefur komið fram í umsögn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Auk þess komu aths. varðandi þessa gr. frá því félagi, sem ekki taldi sig geta samþykkt frv., þ.e.a.s. sjómönnum í Vestmannaeyjum. Þessi breyting er fólgin í því að taka m.a. burt ákaflega ákveðna setningu sem er í 2. mgr. og er á þessa leið: „Fiskiskipum er jafnframt skylt að hlíta fyrirmælum n. um ákveðna löndunarhöfn.“ Þetta þótti okkur heldur stíft til orða tekið og komum þess vegna fram með breytingu, sem ég vil lesa í heild, með leyfi forseta:

„2. og 3. mgr. falli niður og í stað þess komi: Fiskiskipum skulu veittar upplýsingar um móttökugetu einstakra verksmiðja um fjarskiptastöð samkv. ákvörðun n. Fiskiskip er óheimilt að leita löndunar í verksmiðju, þar sem n. hefur stöðvað löndun, en að öðru leyti skal skipstjóri hvers skips ákvarða og tilkynna n., hvar hann muni leita löndunar.“

Að öllum þessum umsögnum og breytingum, sem eru á þskj. 128 athuguðum, mælir meiri hl. n. með því, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.