04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

32. mál, loðna til bræðslu

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir afgreiðslu á þessu frv. og taka jafnframt fram, að ég er fullkomlega samþykkur þeim brtt., sem meiri hl. n. gerir við frv. á þskj. 128. Þær breytingar eru í fullu samræmi við þær aths., sem ég gerði í framsöguræðu minni fyrir þessu frv., þegar það var lagt fram. Ég taldi þá rétt að leggja frv. fram nákvæmlega eins og það kom frá þeirri nefnd, sem hafði undirbúið frv., en lýsti jafnframt yfir því, að ég teldi, að það þyrfti að gera á því nokkrar breytingar. Ég var ekki fullkomlega ásáttur með viss ákvæði í 2. gr. frv. Ég held, að enginn vafi leiki á því, að það þarf, eins og þessum málum er háttað, að koma til ákveðin skipulagning varðandi þessi mál, sem nær lengra en ákvæðin í 1. gr. frv. gera ráð fyrir, þ.e.a.s. að skipin skuli afgreidd í þeirri röð, sem þau koma að landi. Það er að vísu mjög þýðingarmikil regla, sem vikið hefur verið frá í einstaka tilfellum á undanförnum árum, þó ekki almennt, en það þarf að koma til frekara skipulag. Ég tel, að það valdsvið, sem n. á að fá samkv. frv., miðað við þær brtt., sem meiri hl. n. gerir, sé nægilegt til þess, að hægt sé að hafa á eðlilegt skipulag og koma í veg fyrir árekstra eins og þá, sem við stóðum frammi fyrir á síðustu loðnuvertíð. Ég held, miðað við þær umr., sem hér hafa farið fram, að ekki ætti að þurfa að verða mikill ágreiningur um þetta, og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mér sýnist ekki þörf á því, hvorki fyrir skipstjórafélagið í Vestmannaeyjum né fyrir hv. 3. þm. Sunnl. að standa gegn því, að upp verði tekið það skipulag, sem samtök þeirra aðila, sem eiga stærstan hlut að máli, hafa komið sér saman um og hér er gert ráð fyrir.

Ég endurtek þakklæti mitt til n. fyrir skjóta afgreiðslu á málinu og vænti, að það nái fljótari afgreiðslu í hv. Alþ., svo að lögin geti komið til framkvæmda fyrir næstu loðnuvertíð.