19.10.1972
Efri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

23. mál, framkvæmd eignarnáms

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hinn 22. apríl 1970 samþykkti Alþingi svofellda þál.:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um framkvæmd eignarnáms, m.a. að því er varðar eignarnám á löndum og lóðum í þágu ríkis og sveitarfélaga, og verði frv. til nýrra laga um framkvæmd eignarnáms lagt fyrir næsta Alþ. Í frv. verði m.a. kveðið á um skyldu matsmanna til að taka beina afstöðu til tiltekinna atriða, sem áhrif hafa á verð eignarnámslands, og sundurliða og gera allnákvæma grein fyrir, á hvaða forsendum matsfjárhæð er byggð. Þá verði í frv. reglur um ákvörðun þóknunar matsmanna og um skil matsgerða til ákveðinnar stofnunar.“

Flm. þessarar þáltill. voru þm. úr öllum flokkum, og hún var flutt samkv. ósk eða að frumkvæði Sambands ísl. sveitarfélaga. Sveitarstjórnir og samtök sveitarfélaga höfðu þá um nokkurt skeið lýst áhuga fyrir endurskoðun á lögum um framkvæmd eignarnáms og gert samþykktir um það efni, og eins og fram kom í þessari þáltill., sem ég las, þá hafði í þessum samþykktum sveitarfélaganna og sveitarstjórnanna einkum verið bent á þau atriði, sem þar greindi. 1. flm. þessarar till., hv. þm. Auður Auðuns, hafði framsögu fyrir þáltill á sínum tíma og gerði þá frekari grein fyrir þeim sjónarmiðum, sem fram komu í grg. með þáltill. Það var svo skipuð n. samkv. þessari þáltill. 20. okt. 1970, og í n. áttu sæti prófessor Gaukur Jörundsson, sem skipaður var formaður n., og þeir Páll Líndal borgarlögmaður, sem skipaður var að till. Sambands ísl. sveitarfélaga, og Hallgrímur Dalberg skrifstofustjóri samkv. till. félmrn. Þessi n. skilaði mjög ýtarlegri grg. á miðju liðnu sumri ásamt því lagafrv., sem hér er lagt fram.

Auk þeirra meginatriða, sem tekin eru með í grg. frv., gerði n. mjög ýtarlega og umfangsmikla skrá yfir eignarnámsheimildir í íslenzkum lögum, talsvert umfangsmikla grg. um eignarnámslöggjöf í ýmsum löndum svo og um núgildandi réttarreglur um framkvæmd eignarnáms. Það þótti ekki ástæða til að prenta þessa annars ágætu og fróðlegu grg. með frv., með því að það þótti verða þá helzt til þungt í vöfum, en þessi grg. er nú hér, og að sjálfsögðu verða viðkomandi hv. þn., sem fá þetta frv. til meðferðar, afhent eintök af þessari umfangsmiklu heildargrg., sem er 118 vélritaðar síður.

Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, eru teknar til greina, að ég held að segja megi, allar ábendingar þál. og mótaðar reglur um þau atriði, sem þar eru rakin. Það má segja, að þau atriði marki höfuðþætti endurskoðunarinnar. En í annan stað hefur n. fært til skýrari og betri vegar fjölmörg önnur atriði, og má segja að mínum dómi, að n. hafi leyst af hendi frábærilega vandað verk, sem að verulegu leyti skapi grundvöll fyrir nýjum viðhorfum á þessu mikilvæga réttarsviði.

Eins og þál., sem ég nefndi áðan og las upp, ber með sér, þá eru þeir höfuðþættir, þar sem óskað er eftir skýrari lagareglum, þessir:

Í fyrsta lagi um skyldu matsmanna til að taka beina afstöðu til tiltekinna atriða, sem hafa áhrif á verð eignarnámslands, og sundurliða og gera allnákvæma grein fyrir, á hvaða forsendum matsfjárhæð er byggð. Um þetta efni er skýrt ákvæði, að ég ætla, í 10. gr. frv., sem ég leyfi mér að vísa til og sé ekki ástæðu til að fara að lesa hér upp.

Annað höfuðatriði í þál. eru reglur um ákvörðun þóknunar matsmanna fyrir störf þeirra. Um það efni eru markaðar reglur í 11. gr. og er þar um alger nýmæli að ræða að vísu, þar sem reglan er sett þar, að kostnað af starfi matsnefndar skuli greiða úr ríkissjóði, en matsnefnd ákveður hverju sinni í úrskurði sínum, þegar ríkið er ekki eignarnemi, hverja greiðslu eignarnemi skuli inna af hendi til ríkissjóðs vegna slíks kostnaðar. Um það gegnir sama máli og fyrra ákvæðið, og ég leyfi mér að vísa til þess, en er ekki að rekja það nánar hér.

Þriðji höfuðþátturinn í þál. var, að það skyldu liggja fyrir á einum og sama stað upplýsingar um eignarnámsmatið og þau atriði, sem kæmu fram í sambandi við það. Í samræmi við þessa ábendingu eru ákvæði í 18. gr. frv. um skil matsúrskurðar til ákveðinnar stofnunar, þ.e.a.s. til Fasteignamats ríkisins.

Eins og ég drap á áðan, var í framsögu fyrir þáltill. á sínum tíma drepið á ýmis atriði og reyndar líka í umr., sem fram fóru um þáltill. drepið á ýmis atriði og vikið að ýmsum atriðum, sem æskilegt væri að hafa skýrari, og það eru ýmis nýmæli frv. gerð með hliðsjón af þeim ábendingum, sem þá komu fram. Veigamesta nýmæli frv., sem ekki er beint markað í ábendingum þál., tel ég, að það er ákveðið í þessu frv., að vera skuli föst matsnefnd eignarnámsbóta, þar sem formaðurinn er fastskipaður af hæstarétti tif 5 ára í senn og annar til vara, en formaður kveður svo til tvo eða fjóra matsmenn með sér hverju sinni til meðferðar hvers máls. Um nánari ákvæði um þetta vísa ég til frv., en fer ekki nánar út í það. Meiningin með því að setja upp þannig að vissu leyti fasta stofnun og fasta matsnefnd, er að sjálfsögðu að koma meiri festu í þessi mál en sumum a.m.k. hefur þótt vera að undanförnu.

Ég held, að það megi segja — eða það er mín skoðun a.m.k., að það séu nýmæli í flestum gr. þessa frv., sem horfi til bóta, og þar sé að finna skýrari reglur heldur en í núgildandi lögum. Mér þykir ekki ástæða til við þessa umr. að tefja tímann með því að rekja þau atriði grein fyrir grein. Þau varða réttarfarið, framkvæmd eignarnámsins og margvísleg önnur atriði, og ég held, að það yrði e.t.v. ekkert sérstaklega uppbyggilegt fyrir hv. þdm., að ég færi að lesa þau upp og rekja þannig efni þeirra. En þó get ég aðeins vakið athygli á ákvæði frv. um rétt aðila til að láta eignarnám ná til eignarinnar allrar, sem er í 12. gr., svo og heimild til að tjón verði bætt að einhverju eða öllu leyti með jafngildri eign. Þá er líka vert að henda á það ákvæði í frv., að leita megi úrlausnar dómstóla um lögmæti eignarnáms, þ. á m. um fjárhæð eignarnámsbóta, en um siðast nefnda atriðið hefur verið talinn vafi samkv. gildandi löggjöf.

Ég tel í stuttu máli, án þess að ég fari að rekja það hér nánar, hér vera um mjög merkilegt mál að tefla. Eins og kunnugt er, hefur stjórnarskráin sérstakt ákvæði um friðhelgi og vernd eignarréttar. Það segir í hátíðlegri stefnuyfirlýsingu í upphafi, að eignarrétturinn sé friðhelgur. Réttarleg þýðing þess ákvæðis út af fyrir sig er ekki ýkjamikil, en aðalréttarlega þýðingin felst í síðari lið 67. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir, að enginn verði skyldaður til þess að láta af hendi eign sína, nema almannaþörf krefji, og þurfi til þess lagaboð og komi fullt verð fyrir. Ákvæðið um það, að lög þurfi til eignarnáms, má segja, að sé út af fyrir sig kannske ekki svo þýðingarmikið, vegna þess að það mundi hafa verið talið samkv. grundvallarreglum laga, að lög hefði þurft til slíkrar eignarskerðingar sem eignarnáms, þó að það hefði ekki verið ákvæði um það sérstakt í stjórnarskránni. Nú er ákvæðið um almannaþörf auðvitað þýðingarmikið, en hve mikið hald er í því, getur verið spurning, vegna þess að það er matsatriði, og þá er nokkuð mikið undir því komið, hvaða aðili það er, sem hefur á hendi það mat, og eins og það hefur verið skilið hér hjá okkur, þá hefur það verið talið í valdi löggjafans, þó að kenningar séu uppi um það, að dómstólar ættu einnig að geta metið það atriði. Aðalöryggisákvæðið í 67. gr. er auðvitað það, að fullar bætur eigi að koma fyrir eign, sem tekin er eignarnámi. Það er nú svo, að þó að 67. gr. bendi þarna á tiltölulega eignarskerðingu, sem kölluð hefur verið eignarnám, þá vita allir, að það geta ýmsar eignarskerðingar jafnvel samkv. beinum ákvæðum stjórnarskrárinnar farið fram, án þess að þær falli undir þetta ákvæði. En hvað um það, þá er ekki neinn vafi á því, að þetta stjórnarskrárákvæði veitir eignarréttinum mikla vernd, einmitt sérstaklega með þessu síðastnefnda ákvæði, sem ég nefndi um það, að fullt verð eigi að koma fyrir eign. En þrátt fyrir það er það svo, að þetta eftirlætur almenna löggjafanum allmikið svigrúm, og þess vegna getur raunhæf vernd eignarréttarins mjög farið eftir því, hvernig það er nánar formað í lögum um framkvæmd eignarnáms, hvernig bætur eru ákveðnar, og fleira í því sambandi. Þess vegna tel ég, eins og ég sagði, að löggjöf um framkvæmd eignarnáms sé mjög merkileg löggjöf. Hún verður auðvitað að vera hér í skjóli og innan ramma stjórnarskrárákvæðisins, en hún er nauðsynleg til fyllingar á því, og það fer, eins og fram var tekið, mjög eftir því, hvernig þeirri löggjöf er háttað, hversu raunhæf hin raunverulega vernd eignarréttarins er.

Ég sé svo ekki, herra forseti, ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en leyfi mér að leggja til, að því sé vísað til 2. umr. og hv. allshn. Og eins og ég sagði, þá getur sú n. að sjálfsögðu fengið til athugunar þær nánari upplýsingar, sem felast í þeirri grg., sem nm. skiluðu með frv., en þótti það löng, að ekki var talið fært að leggja í það að prenta hana.