04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er fjarri mér að leggjast gegn þessu frv. Þó held ég, að rétt sé að staldra aðeins við, um leið og það kemur hér til 1. umr., og skoða skólamál sjómannastéttarinnar, sérstaklega . þó stýrimannaskólanna, með hliðsjón af því, að við hér á hv. Alþ. samþykktum á s.l. þingi lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík.

Þegar þetta frv. kemur nú fram, þá kemur í ljós, og reyndar var það komið fram fyrr, að við hv. alþm., Alþ. sjálft, höfum gert mikla mismunun gagnvart þegnum þjóðfélagsins. Ég ætla alls ekki að undanskilja mig, og kannske ætti ég frekast að vera sökudólgurinn, því að ég er gamall nemandi úr þessum skóla. En hvað um það, það kemur bezt í ljós, ef við skoðum mál einstaklings, sem kom upp á s.l. hausti og mér skilst, að hafi leitað til æðstu yfirvalda menntamála til þess að fá leiðréttingu sinna mála. En það kom í ljós, að hann var ekki gagnfræðingur, eins og nú er krafizt samkv. lögum þeim, sem gilda um Stýrimannaskólann í Reykjavík. Stýrimannaskólinn í Reykjavík var á s.l. hausti alls ekki fullskipaður. Hins vegar var Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum, sem ekki gerði þessa kröfu til sinna nemenda, fullskipaður og meira en það. Umræddur maður, sem er starfandi sjómaður og reyndar stýrimaður með undanþágu í Grindavik og meðeigandi í bát þar, einn af dugmestu útgerðarmönnum og sjósóknurum, sem þar finnast, gat ekki fengið inngöngu í Stýrimannaskólann í Reykjavík vegna hinna nýju lagaákvæða. Gott og vel, að Alþ. hafi ákveðið, að gagnfræðapróf skyldi verða sá inngangseyrir, sem væri ætlaður væntanlegum skipstjórnendum í Stýrimannaskólann í Reykjavík, og reyndar er núna til þess ætlazt, að það verði jafnframt við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. Maður mundi hafa ætlað, að eitthvert svigrúm yrði gefið, t.d. að skólanefnd, sem ætlað var að taka til starfa í sambandi við hin nýju lög um Stýrimannaskólann í Reykjavík, mundi ekki gera sömu kröfur þetta árið og síðarmeir gagnvart þeim nemendum, sem óskuðu eftir því að setjast í skólann. Nú mun þessum umrædda manni hafa verið heimilt samkv. lögum að taka inntökupróf, hvað hann gerði. En það skrýtna er, að allt í einu kemur um það ákvörðun frá stjórnendum skólans og væntanlega frá æðstu stjórn hans, menntmrh., að það sé ætlazt til lágmarkseinkunnar í ákveðnum fögum, sem aldrei hafa verið falleinkunnir í þessum skóla, en verða það væntanlega og eru það líkast til, þegar gagnfræðaskólastigið verður tekið til grundvallár, þótt um það sé nokkur vafi. Þessi maður varð frá skólanum að hverfa, hann féll í einu fagi, eðlisfræði. Hann hafði haft fjórum sinnum hærra próf í þessu sama fagi frá annarri viðurkenndri stofnun, frá vélstjóranámskeiði Fiskifélagsins. En það, sem kemur í ljós, er, að um leið og honum hafði verið meinað um setu í Stýrimannaskólanum í Reykjavík, — nú veit ég ekki, hvort þessi ákvörðun hefur verið tekin af skólanefnd, sem hæstv. menntmrh. hefur skipað, og mig langar til þess að spyrja hann nú um leið, hvort sú skólanefnd sé ekki til staðar og hverjir skipi hana, því að um hana eru ákvæði í lögunum, — þá gat hann farið niður í rn. og keypt sér undanþágu. Þessu hefur verið haldið fram í opinberum málgögnum, að til þess að gegna þessu sama starfi sé þetta hægt. Og spurning mín er sú, hvort þetta sé vísvitandi eða hvort þetta sé eitthvað, sem fari á milli mála hjá hæstv. ráðherrum, annars vegar þeim, sem hefur með skólamálin að gera, hins vegar þeim ráðh., sem fjallar um atvinnuleyfin og undanþágurnar.

Ég held, að það sé rétt, að í þessu sambandi komi skýrt fram og það sé dregið fram hér við 1. umr. málsins, að það hafa komið fram mjög hörð andmæli gegn því, hvernig hæstv. ráðh., sem með hefur að gera undanþágur í sambandi við atvinnuleyfi skipstjórnarmanna, hefur framkvæmt þær. Nú skal ég fúslega viðurkenna, að fyrri framkvæmd á málinu var alls ekki sú rétta. Ég held hins vegar, að um leið verði að koma í ljós, að þótt einstök stéttarfélög eða stéttarfélagasambönd hafi mælt með ákveðinni leið til lausnar vanda, sem var kominn upp í deilu tveggja aðila um afgreiðslu undanþáganna, þá sé hún ekki um leið nein lausn, sem fríi okkur frá því að reyna að tryggja hina menntuðustu menn, sem við getum útvegað, til þess að stjórna okkar skipum. Það eru auðvitað þeir menn, sem hafa skipstjórnarréttindi frá Stýrimannaskólanum, annaðhvort hér eða í Vestmannaeyjum, eða, þegar um minni skipastærðir er að ræða, frá öðrum þeim námsstigum, sem kennt er fyrir á námskeiðum, sem þessir skólar halda úti um land. Þetta gildir að sjálfsögðu líka um þá, sem sækja eftir og njóta réttinda vélstjóranámsins. Ég held, að við séum hér með meira mál en við gerum okkur ljóst. Við komum þessu máli í gegnum 1. umr, og til n., en ég vil fyrst og fremst beiðast þess af n., að hún skoði þetta vandasama mál vandlega. Við höfum lent í því, — ég get sagt það sem talsmaður fyrir stóran hóp sjómanna, — að hafa sem mikið átakamál við okkar viðsemjendur, hvort þessi stétt, sjómannastéttin hér á landi, eigi virkilega að geta notið nokkurra frekari trygginga eða sömu trygginga og vegfarandi, sem gengur um Austurstræti í Reykjavík. Það er rétt, að minnast þess, að það er sáralítið sambærilegt með þessari sjómannastétt og sjómannastéttinni á hinum Norðurlöndunum, þótt við höfum alla tíð verið að rembast við að þýða lauslega eða nákvæmlega þær reglur, sem þar hafa gilt í siglinga- og sjómannalögum. Þetta er auðvitað gersamlega óskylt vegna þeirrar aðstöðu, sem íslenzkir sjómenn hafa hér í Norður-Atlantshafi annars vegar og þeir hafa hins vegar í suðlægari innhöfum, Norðursjó og innhöfum út frá Norðursjó. Þau eru kannske samhangandi þessi mál öll. En eitt veit ég, að er öruggt. Það er, að öll sjómannastéttin og þeir, sem í kringum hana standa, ætlast til þess, að það verði ekki hægt að segja á opinberum vettvangi, að sá ráðh., sem hafi að gera með undanþágu atvinnuleyfa, leyfi sér að selja þau, eins og kom fram í einu opinbera málgagninu ekki alls fyrir löngu, heldur sé það gert að yfirveguðu ráði og það sé gert að beztu manna ráði á hverjum stað. Jafnvel þó að það séu verkalýðsfélögin á hverjum stað, sem hafi með umsagnir að gera, og þó að fleiri verði kallaðir til heldur en þeir, þarf það ekki að vera einhlítt. Hitt hlýtur auðvitað að vera grundvallarskilyrði, að við eigum svo marga menntaða menn á þessu sviði, að við þurfum ekki til hinna að leita.

Mér þótti grátlegt að hlusta á eina frétt Ríkisútvarpsins í gær. En þá átti að hefja skipulega leit að vélbát, sem ekki hafði tilkynnt sig, var jafnvel týndur og talinn af, en guði sé lof, þá erum við komnir með hina daglegu tilkynningarskyldu. Báturinn var heill á húfi og áhöfn hans, en þeir höfðu orðið fyrir áfalli. En hvað kemur í ljós? Það kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins, að það var neyðartalstöð um borð, en þeir, sem um borð voru, kunnu ekki með hana að fara. Nú væri gaman að upplýsa líka, hvort þarna hafi verið um borð réttindamenn svokallaðir eða undanþágumenn, sem hafi borgað fyrir undanþáguna 200 kr. eða eitthvað meira til viðkomandi rn., en það þekki ég ekki.

Það fer ekki úr mínum huga, hvað þessi ungi maður sagði, þegar hann komst ekki í Stýrimannaskólann í Reykjavík vegna þeirra laga, sem við settum. Hann hefði getað komizt í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum í haust, en komst þangað ekki. En þegar hann fékk neitunina um dvölina í skólanum hér í Reykjavík, sagði hann: Þá get ég bara farið upp í rn., fengið undanþágu og borgað 200 kr. fyrir. — Nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. menntmrh.: Hefur verið sett skólanefnd við Stýrimannaskólann í Reykjavík? Hefur hún samþykkt þær kvaðir, sem settar voru á nemendur í sambandi við inntökupróf í skólann, sem virðast hafa verið í gildi á s.l. hausti? Og svo vildi ég gjarnan, að það kæmi fram frá hæstv. samgrh., hvaða reglum hann fer eftir, þegar hann veitir atvinnuleyfi til þeirra undanþágumanna, sem veitt eru og hefur verið talað um í opinberum málgögnum, — og ég tek það fram, það er ekki í málgagni mínu svokölluðu, Morgunblaðinu, heldur í öðrum, hvort það séu borgaðar 200 kr. fyrir það eða ekki og hvort það eitt sé talið nóg.