04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. Spurningar hv. 10. þm. Reykv. eru allmargar og eigi öllum beint til mín, en þær, sem að mér snúa, fjalla fyrst og fremst um inntökuskilyrði í Stýrimannaskólann í Reykjavík og einnig í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, eftir að það frv., sem hér liggur fyrir, væri orðið að lögum. Þá er fyrst að því að víkja, að markmiðið með inntökuskilyrðum er hvorki við þennan skóla né aðra nein meinbægni við væntanlega nemendur, að víkja nokkrum frá, sem fær er um að notfæra sér þá kennslu, sem þar er boðin. Markmiðið með inntökuskilyrðunum, með lágmarksinntökuskilyrðum, er að sjálfsögðu það við þessa skóla eins og aðra að tryggja, að fyrir hendi sé hjá nemendum kunnátta, sem nægi til þess, að þeir geti án meiri háttar vandkvæða náð tökum á því námsefni, sem fyrir þá er lagt, og notfært sér þá kennslu, sem þar er boðin. Það varð að ráði við samningu frv. um Stýrimannaskólann í Reykjavík að setja gagnfræðapróf sem meginkröfu um undirbúningsmenntun. En í sömu grein eru ákvæði um, að þeim, sem ekki hafa gagnfræðapróf, skuli gefinn kostur á undirbúningsnámskeiði. Nú er auðvitað, að ýmsir, sem ekki hafa lokið gagnfræðaprófi, hafa í skóla lífsins máske aflað sér bóklegrar þekkingar, sem fyllilega jafngildir því, og þess vegna er í 9. gr. ákvæði um heimild til þess, að menn geti tekið nokkurs konar inntökupróf, sem jafngildi prófi úr undirbúningsdeild, án þess að sitja í henni.

Hvað varðar þann mann, sem hv. 10. þm. Reykv. gerði hér að umtalsefni, og mál hans, þá er því fljótsvarað, að það hefur aldrei komið til minna álita. Og þar hefur ekki skólanefnd um fjallað, vegna þess að hún er ekki skipuð enn. Síðustu tilnefningar í skólanefnd, sem kveðið er á um í nýju l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík, komu fyrir nokkrum dögum, og skólanefnd hefur því ekki verið skipuð. En hún verður nú skipuð hið fyrsta, þar sem allar tilnefningar eru komnar. Og því er svar við síðari spurningu hv. 10. þm. Reykv. það, að skólanefnd hefur ekki sett þær kvaðir, sem hann segir að hafi þarna orðið umsækjanda að falli. Ég vil lýsa því yfir af minni hálfu, að ég er gersamlega andvígur því, að settar séu nokkrar óeðlilegar hindranir fyrir inngöngu í þennan skóla frekar en aðra. Lámarkseinkunnir á undirbúningsprófum verður að ákveða af fyllstu sanngirni, og ég mun stuðla að því, hvenær sem slík mál ber undir mig.