04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh, fyrir að hafa lagt fram það frv., sem hér er til umr. Mér þykir rétt að fara um þetta mál nokkrum orðum.

Lögin um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum eru frá árinu 1964, ef ég man rétt, og þegar frv. um þennan skóla var lagt hér fram þá, voru um það mjög skiptar skoðanir, hvort rétt væri að marka slíka stefnu að hafa stýrimannaskóla víðar á landinu en hér í Reykjavík. Vestmanneyingar urðu að fórna nokkru fyrir það að koma þessum skóla á. Þeir urðu að taka á sig allan kostnað við stofnun skólans og einnig til að byrja með allan rekstrarkostnað. Það var tekið fram í grg. með frv., að við legðum það mikið upp úr að fá stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum, að við vildum taka á okkur þessar kvaðir, en jafnframt var þess getið, að ef skólinn yrði að fastri stofnun, þá mundi síðar meir verða farið fram á framlög úr ríkissjóði til þess að standa undir rekstrinum. Þetta hefur þróazt í þá átt, að ríkið hefur í vaxandi mæli tekið þátt í kostnaði við skólann, og nú er svo komið, að ég hygg, að flestir og allir viðurkenni, að þarna er um fasta stofnun að ræða, sem hefur orðið til gagns í þjóðfélaginu og aukið menntunaraðstöðu þeirra aðila, sem stýrimannaskóla vilja sækja. Ég tel, að þetta sé dæmi um það, að Alþ. beri mjög að marka þá stefnu, eins og hér hefur oft verið rætt um áður, að ef um er að ræða tilteknar opinberar stofnanir, hvort sem það eru menntastofnanir eða aðrar, sem með eðlilegu móti er hægt að koma fyrir úti á landsbyggðinni, þá sé það til bóta fyrir þjóðfélagið í heild. Ég tel, að Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum sé sönnun fyrir þessari staðhæfingu eða ábendingu.

Hv. 10. þm. Reykv. vék nokkuð að þeim mismun, sem hann taldi hafa verið og vera á l. um Stýrimannaskólann í Reykjavík og Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, að því leyti, að hægara hefði verið að komast inn í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum. Þetta er alveg rétt. Þessi mismunur var í l. og er kannske enn, þó að frv. verði samþ., en ég tel þetta mjög til bóta, og ég er mjög samþykkur því, sem hæstv. menntmrh. sagði hér áðan, að það beri að gæta þess vel að hafa lög um þessa skóla ekki þannig, að mönnum sé beinlínis meinuð innganga í skólana. Það er vitað, að einmitt í slíka skóla, stýrimannaskóla, sækja oft aðilar, sem eru búnir að vera lengi við störf, frá því að þeir hafa lokið sínu upphaflega skyldunámi í gagnfræðaskóla, en hafa reynzt dugandi menn sem sjómenn og vilja auðvitað skapa sér aðstöðu til þess að verða stýrimenn eða skipstjórnarmenn. Ég tel því og er mjög sammála hæstv. menntmrh., að í þessu verði að fara mjög gætilega og hafa lögin ekki svo þröng, að slíkum mönnum sé meinað eða gert ókleift að komast inn í stýrimannaskólana og afla sér frekari menntunar. Ég tel, að aðalatriðið í þessu sé það, að út úr skólunum séu ekki skrifaðir nema þeir menn, sem verða taldir fullhæfir til þess að verða stýrimenn og skipstjórnarmenn.

Af því að einhver kann að hafa misskilið orð hv. 10. þm. Reykv. á þann veg, að í Vestmannaeyjum væri skóli, sem hægara væri að komast í gegnum, þá vil ég mjög undirstrika það, að allt frá upphafi hefur það verið mjög föst ákvörðun stjórnar Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum að tryggja eins og hægt væri, að það yrði enginn munur á burtfararprófum úr þeim skóla og Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Við teljum, að þetta hafi verið gert, og hefur alltaf verið óskað eftir því við menntmrn., þó að þess hafi ekki þurft samkv. lögum, að það skipaði annan prófdómarann héðan úr höfuðborginni og þá helzt þann sama og verið hefur við Stýrimannaskólann í Reykjavík. Ég veit, að framan af var þetta gert, það var sami prófdómari á báðum stöðunum, og ætti það að vera nægileg trygging fyrir því, að út úr þessum skóla kæmu ekki nemendur með verri menntun en úr skólanum hér í Reykjavík. Ég tel, að það hafi vel til tekizt, að stjórn skólans í Eyjum skuli einmitt hafa sett sér þetta mark og tryggi það með því að fá sama prófdómara og hér hefur verið við hinn gamalgróna skóla í Reykjavík til þess að vera einnig prófdómari við skólann í Eyjum. Það er að mínum dómi full trygging fyrir því, að það séu ekki útskrifaðir þar lakari skipstjórnarmenn en frá skólanum hér í höfuðborginni.