04.12.1972
Neðri deild: 20. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

4. mál, Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það virðist nú svo komið, að annaðhvort þurfi ég að fara í einhvern sérstakan skóla til þess að læra að gera mig skiljanlegan eða einhverjir ákveðnir þm. verði að fara í Heyrnleysingjaskólann til þess að læra að taka eftir því, hvað sagt er. Ég skil ekkert í hv. síðasta ræðumanni, að hafa þau orð, sem hann viðhafði. Hvenær var ég að tala um, að það væru gerðar minni kröfur til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum? Ég sagði aðeins, að þetta eina ár, sem liðið hefur, hafi verið mismunur, vegna þess að þetta ár hefur liðið svo, að Stýrimannaskólinn í Reykjavík hefur krafizt gagnfræðaprófs til inntöku, en ekki Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum. Hins vegar á að gera samkv. frv., sem við erum að ræða núna, sömu kröfur til Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum. Mér þykir vænt um að láta það koma hér fram, að þessi ágæti þm. leitaði til mín, þegar hann var að semja þetta frv., vegna þáltill., sem ég flutti á sínum tíma, 1961, með hv. þm. Eggert G. Þorsteinssyni, um álit okkar á því, hvernig stýrimannaskólar ættu að vera, hvers ætti að krefjast í sambandi við námsefni nemenda í framtíðinni. Og lítið var orðið við því, sem við Eggert bentum á, fyrr en þessi hv. þm., Guðlaugur Gíslason, leitaði álits míns þar um. Og það var Stýrimannaskólinn í Vestmannaeyjum, sem tók ýmislegt af því til greina fyrstur slíkra skóla. Og inn í frv. um Stýrimannaskólann í Reykjavík komst það svo að lokum. En hvernig hann getur misskilið það, sem ég talaði um, svo, að ég hafi talið vera minni námskröfur gerðar þar, skil ég ekki, — ég sagði inntökuskilyrði. Og það er enginn vafi, þar var ekki krafizt gagnfræðaprófs sem inntökuskilyrðis í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum á s.l. hausti. Hins vegar var það gert í Reykjavík samkv. gildandi lögum um skólann hér. Skólinn í Vestmannaeyjum var fullsetinn, en hins vegar ekki Stýrimannaskólinn í Reykjavík. Þetta segir sína sögu, þegar haft er í huga, að Stýrimannaskólinn í Reykjavík þjónar ekki bara Reykjavík, heldur landsbyggðinni að miklu leyti, sérstaklega þegar kemur til framhaldsnáms.

Það má segja, að hjá hæstv. menntmrh. komi sami misskilningur í ljós. Ég var ekki að tala um, að það væru ekki undirbúningsnámskeið, sem væru fyrir hendi og ætluð skv. lögunum. Ég tók það einmitt skýrt fram. Ég var hins vegar að tala um óréttlæti, sem við hefðum gert okkur sek um hér á hv. Alþ., að gera greinarmun á þessum tveimur sambærilegu skólum á yfirstandandi vetri, og benti á einstakling sem dæmi þessa óréttlætis. Þetta er nákvæmlega hliðstætt því, ef það hefði verið krafizt á s.l. hausti mismunandi undirbúnings hjá nemendum, sem fóru í gamla Menntaskólann í Reykjavík og Menntaskólaun við Tjörnina. Að vísu veit ég, að það er hvergi meiri mismunur gerður neins staðar í okkar þjóðfélagi heldur en við inntöku nemenda í menntaskólana okkar, sbr. Hamrahlíðarskólann, sem taldi sig taka við nemendum eftir búsetu, að talið var á sínum tíma. En þeir nemendur, sem lenda í hinum neðra flokki eða kannske í hinum pólitíska flokki, án tillits til búsetu, lenda í Menntaskólanum við Tjörnina. Það er önnur saga, sem ekki verður rædd hér nú, en kannske vinnst tími til þess að ræða um það á öðrum tíma, enda eru aðrir menn, sem ráða þessu, en skyldi í dag. Ég sé, að bæði hæstv. iðnrh. og reyndar menntmrh. brosa, og þó er brosið frosið hjá hæstv. menntmrh. En spurningin, sem ég spurði hæstv. menntmrh., var um það, hvort hefði verið skipuð skólanefnd við Stýrimannaskólann í Reykjavík samkv. lagasetningu þar um á s.l. vetri. Svarið leiðir í ljós, að hún hefur ekki verið skipuð enn. Hann lofar að gera það mjög bráðlega. Ég veit, að það verður mikið flýtisverk þar á, þegar að því kemur, sbr. önnur verk þessa hæstv. ráðh.

En ég spyr, og það er aðalatriðið í mínu máli, í sambandi við menntun umræddra manna, og ég tók það fram, að ég er ekki að ráðast á hæstv. samgrh. út af því, sem virðist vera orðinn ákveðinn siður hjá embættismönnum hans rn., að afgreiða sjálfkrafa undanþágur til skipstjórnar til manna, sem hafa líf margra annarra manna í sinni vörzlu, getum við sagt. Mundi nokkrum ráðh., sem þar gæti um fjallað, koma til hugar að gefa undanþágu til þess — við skulum segja, að Pétur Sigurðsson fengi réttindi til þess að gegna prestsskap um stundarsakir? Ég veit, að Magnús Kjartansson mundi gera það á stundinni, og þau mundi ég gefa honum líka, ef ég væri ráðh. Ég mundi hins vegar aldrei gefa Þórarni Þórarinssyni þau réttindi. Eða í verkfræði? Mundi hv. þm. Eðvarð Sigurðsson fá réttindi til þess að teikna næstu Sigölduvirkjun, jafnvel þó að hann væri góður teiknari og gæti búið til vangamynd af mér eða hv. alþm. Svövu Jakobsdóttur? Ég er efins í því. En þannig virðist oft og tíðum, að það hafi verið hægt að leyfa og veita mönnum réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar á íslenzka flotanum. Og það er þetta m.a., sem ég álít, að við þurfum að taka til rækilegrar endurskoðunar. Við þurfum að taka þetta til endurskoðunar, eins og reyndar síðasti ræðumaður, hv. þm. Guðlaugur Gíslason, kom inn á. Við þurfum að taka til endurskoðunar, hvort það sé algerlega rétt hjá okkur, að gagnfræðaskólapróf eigi að vera algildandi í þessu efni. Við höfum örugglega með okkar lagasetningu á s.l. þingi um Stýrimannaskólann í Reykjavík verið að fótumtroða réttindi fólks, sem er komið á fullorðinsár. Við erum að miða við unglinga í dag. Við skulum ekki gleyma því, að í þessum skóla eru oft fullorðnir menn, — menn, sem hafa orðið að fresta skólagöngu sinni á þessu sérsviði, sem þeir hafa ætlað sér að ganga, vegna þess að þeir hafa t.d. verið orðnir heimilisfeður. Þeir eru orðnir fullþroska menn, eins og í því tilfelli, sem ég benti á áðan, þegar að því kemur, að þeir ætla að fara í þennan skóla. Þá er allt í einu krafizt gagnfræðaprófs. En þetta nám var ekki skyldunám, þegar þeir voru að ljúka sínu skyldunámi, þá var ekki gagnfræðanámsskylda, þess var ekki krafizt af þeim. Við skulum viðurkenna, að það erum við hv. alþm., sem höfum gert rangt í þessu máli. Ég held, að við ættum, um leið og við afgreiðum þessi lög um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum, hreinlega að setja ákvæði til bráðabirgða um báða skólana, þess efnis, að við veitum eitthvert svigrúm í nokkur ár fyrir þessa menn, sem eru að komast út úr millibilinu á milli skyldunámsins, sem var, og skyldunámsins, sem er, þótt ekki væri meira. Og svo hitt líka, og skal ég svo ekki hafa fleiri orð þar um. Ég veit og það er ábyggilega rétt, og ég skal fúslega viðurkenna það, að ég trúi því ekki, að hæstv. samgrh. kæmi til hugar að afgreiða nein undanþáguleyfi, sem hefðu í för með sér skylduna til ábyrgðar, stjórnunar, jafnvel verndunar eða gæzlu mannslífa, þannig, að það væri peningagreiðslnanna vegna, enda voru það ekki mín orð. Þótt það kæmi fram, að þessi ásökun hefði komið fram hjá aðilum, þá veit ég, að svo er ekki. Hins vegar vil ég æskja þess, að þessir hæstv. ráðh. báðir og reyndar sjútvrh. líka tækju þetta mál til mjög rækilegrar endurskoðunar og reyni að finna þá lausn, að þeir einstaklingar, sem æskja eftir að fá að njóta þessarar menntunar og vilja eyða tíma og fé til þess að ná henni, þeir fái til þess það tækifæri, sem þeim ber.