19.10.1972
Efri deild: 5. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

23. mál, framkvæmd eignarnáms

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. skuli nú liggja hér fyrir hv. þd., og ég hlýt að segja það, að ég hef borið það mikið fyrir brjósti, að þessi endurskoðun færi fram, og skal ekki leyna því, að það stafar að nokkru leyti af því, að ég átti um áratugi sæti í sveitarstjórn og þetta er mál, sem auðvitað hefur snert og snertir sveitarstjórnir landsins mikið. Eins og hæstv. ráðh. gat um í ræðu sinni, hafa þau atriði, sem drepið var á, þegar þáltill. var flutt, sem síðan leiddi svo til þessarar endurskoðunar, — þau atriði, sem ég sem frsm. flutningsmanna þáltill. kom þar á framfæri eða útskýrði nánar, hafa að mér virðist verið tekin til frekari meðferðar hjá endurskoðunarnefndinni auk margra nýmæla, sem í þessu frv. er að finna.

Það getur engum leynzt, að það er mikið vandamál að semja lagareglur um eignarnám. Þar þarf að öðru leytinu að taka tillit til hagsmuna almennings og svo hins vegar tillit til eigenda eigna og verðmæta, sem eignarnáms kann að vera óskað á. Þegar í þáltill. var að því vikið, að óskað yrði eftir, að frv. yrði lagt þá fyrir næsta þing, þá má segja, að þá þegar hafi kannske verið talið, að þar væri að einhverju leyti um fróma ósk að ræða, því að ég held, að öllum megi vera það ljóst, að þetta er vandunnið verk og mörg atriði viðkvæm, sem þar þarf um að fjalla. En nú hefur frv. verið hér lagt fram og komið til umr. og ég vil endurtaka það, að ég fagna því vissulega og tek einnig undir það með hæstv. ráðh., að manni virðist, að þetta verk hafi verið unnið af mikilli vandvirkni, eins og maður reyndar alltaf gerði ráð fyrir með tilliti til þess, hvaða menn völdust í n., sem endurskoðunina framkvæmdi. Frv. kemur fram það snemma á þinginu, að það ætti að mega leyfa sér að vænta þess, að það hljóti afgreiðslu á yfirstandandi þingi, þó að ég hins vegar skilji vel, að þær þn. sem um það fjalla, þurfi að taka sér til þess góðan tíma að athuga málið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lengja mál mitt með neinum efnislegum umr, um einstakar gr. frv. og vil aðeins endurtaka það, að ég lýsi ánægju minni yfir því, að frv. skuli nú liggja hér fyrir.