05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

62. mál, bankamál

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Spurt er: „Hvaða sjónarmið voru höfð í huga við val manna í n. þá, sem skipuð var s.l. sumar til að endurskoða bankakerfið?“ Þau sjónarmið voru höfð í huga að sjálfsögðu að velja í n. hæfa og góða menn. Ég taldi, að það skipti miklu máli, að í n. veldust menn, sem þekktu vel til þeirra verka, sem átti að vinna, og væru líklegir til að geta leyst þann vanda, sem hér er um að ræða, þar sem eitt aðalverkefnið, sem n. var falið að vinna að, var að fækka bönkum í landinu, sameina banka, sem fyrir eru, og einfalda allt bankakerfið.

Í öðru lagi er spurt: „Hversu marga fundi hefur n. haldið? Hvernig miðar starfi hennar? Hvenær má gera ráð fyrir, að hún ljúki störfum?“ 10. nóv. barst mér bréf frá formanni n. og í því segir: „Fyrsti fundur n. var haldinn 2, júní s.l., en alls eru fundirnir nú orðnir 11 talsins.“ Síðan mun n. hafa haldið eina 3–4 fundi, ég veit það ekki nákvæmlega. Það hafði verið lagt fyrir n. að ljúka störfum í síðasta lagi um áramót. „N. hefur,“ eins og segir í bréfi formanns n. orðrétt á þessa leið, safnað mjög yfirgripsmiklum gögnum um þróun, núverandi skipulag og stöðu bankamála hér á landi. Einnig hefur verið aflað gagna um þessi mál frá öðrum löndum, fyrst og fremst hinum Norðurlöndunum. Bréfaskipti hafa átt sér stað við Samband ísl. sparisjóða og Samband ísl. samvinnufélaga og fundir verið haldnir með þessum aðilum til að ræða um málefni sparisjóðanna og innlánsdeilda samvinnufélaga. Nú þegar liggja fyrir drög að till. um breytingar á skipulagi bankamála, og samin hafa verið frumdrög að till. um almenna löggjöf um viðskiptabanka og löggjöf um aðrar innlánsstofnanir.“Og síðan segir: „Gera má ráð fyrir, að almenn tillögugerð n. liggi fyrir í lok þessa árs.“ Sem sagt, n. hefur þegar komið sér saman um megintill. í málinu og gert nokkra grein fyrir þeim, en endanlegar till. liggja ekki enn fyrir eða frv., sem hún ráðgerir að semja um málið.

Þá er í þriðja lagi spurt: „Hyggst ráðh. beita sér fyrir því, að starfsfólk ríkisbankanna fái aðild að bankaráðum, þegar kosið verður um þau á yfirstandandi Alþ.?“ Svar mitt er nei. Ég tel, að bankastarfsfólk eigi ekki meiri rétt en aðrir landsmenn til þess að stjórna bönkum landsins, t.d. ekki meir en viðskiptamennirnir eða aðrir, og sé ekki ástæðu til að heita mér fyrir því, að sá háttur verði upp tekinn.

Í fjórða lagi: „Hyggst ráðh. beita sér fyrir því, að bankastjórastöður verði auglýstar lausar til umsóknar?“ Ráðning bankastjóra er samkv. lögum í höndum bankaráða, en ekki ráðh. Ég er því persónulega hlynntur, að opinber störf séu auglýst, og tel, að það eigi að gera í öllum þeim tilvikum, þar sem hægt er að koma slíku við með eðlilegum hætti. En það er á valdi löggjafans sjálfs að gefa fyrirmæli um þetta, og svo að öðru leyti er það bankaráðin, sem fara með þessi mál.

Vænti ég þá, að ég hafi svarað því, sem um var spurt, hvort sem það hefur orðið mjög spennandi fyrir hv. fyrirspyrjanda að heyra þetta eða ekki.