05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

67. mál, bundnar innistæður hjá Seðlabankanum

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka viðskrh. fyrir upplýsingar hans. Það er alls ekki rétt, sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, að allt það, sem ég spurði um, t.d. skiptingin milli atvinnuveganna, liggi fyrir í opinberum skýrslum.

Mér sýnist á því, sem hæstv. bankamálaráðh. upplýsti, að bundið innstæðufé í Seðlabankanum sé nokkurn veginn helmingi meira en nemur endurkaupum hans á afurðavíxlum, og mér sýnist, að þessi samanburður leiði það einnig í ljós, að iðnaðurinn hafi farið mjög halloka samanborið við aðra atvinnuvegi, hvað snertir endurkaup Seðlabankans, það hafi átt sér stað í tíð fyrrv. ríkisstj. og haldi áfram að verulegu leyti enn. Þó má kannske gera sér vonir um, að þetta batni eitthvað við þá nýju reglugerð, sem hefur verið gefin út um endurkaup bankans á iðnaðarvíxlum, og verður að sjálfsögðu fylgzt vel með því, hvort það verður.

Tíminn leyfir ekki, að ég geri miklar aths. við það, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði áðan. En mér finnst rétt í sambandi við það að benda á, að hann átti tvö tímabil sem viðskrh. og afskipti hans af Seðlabankanum voru stórum betri á hinu fyrra tímabili. Mér finnst rétt í sambandi við þetta að benda á það, að þjónusta Seðlabankans við atvinnuvegina var talsvert meiri í tíð vinstri stjórnarinnar á árunum 1956–1958 heldur en núna. Ég nefni það sem dæmi, að á árunum 1956–1958 námu endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum sjávarútvegs og landbúnaðar 67%, en þau nema nú ekki nema 58%. (Gripið fram í.) Það er annað mál. Má að vísu segja, að Seðlabankinn hafi á þeim tíma ekki keypt mikið af iðnaðarvíxlum, en á það er að benda, að þá átti engin frysting á sparifé sér stað og þess vegna gátu viðskiptabankarnir miklu betur fullnægt rekstrarlánaþörf iðnaðarins heldur en þeir geta nú.

Ég held, að það sé ein meginástæða þess, að atvinnuvegirnir kvarta nú miklu meira undan rekstrarfjárskorti en þeir gerðu t.d. á árunum 1956–1958, að Seðlabankinn veitir þeim ekki í dag sömu þjónustu og hann gerði þá. Og ég get sagt hv. 7. þm. Reykv. það, að ég er alveg sömu skoðunar um það og ég hef áður verið, að ég álít ekki heilbrigt, að það skuli hrúgast upp stórar fúlgur af bundnu innstæðufé í Seðlabankanum á sama tíma og helztu fjárfestingarsjóðir landsins eru hálftómir.