05.12.1972
Sameinað þing: 25. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

280. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Magnús T. Ólafsson):

Herra forseti. 1. fsp. hv. 7. landsk. þm. er þessi: „Hversu margir sveitabæir í Vestfjarðakjördæmi geta enn ekki náð útsendingum sjónvarps?“ Svar við þessum fyrsta lið er það, að 12 bæir í Barðastrandarsýslu munu búa við óhæf skilyrði til sjónvarpsviðtöku og 7 bæir búa við slæm skilyrði. í Vestur-Ísafjarðarsýslu eru 17 bæir, sem búa við óhæf skilyrði og 4 bæir, sem búa við slæm skilyrði. Í Norður-Ísafjarðarsýslu er 21 bær, sem býr við óhæf skilyrði, og 11, sem búa við slæm skilyrði. Og loks í Strandasýslu eru 32 bæir, sem búa við óhæf móttökuskilyrði, og 5, sem búa við slæm móttökuskilyrði. Samtals eru því á þessu svæði 82 bæir, sem búa við óhæf skilyrði til viðtöku sjónvarps, og 27, sem búa við slæm móttökuskilyrði.

2. fsp. er: „Hefur verið gerð áætlun um kostnað við að koma þessum bæjum í sjónvarpssamband?“ Svarið er, að áætlun er um að reisa á þessu svæði 3–4 stöðvar á næstu missirum, er nái til um 30 bæja, sem nú hafa engin skilyrði til sjónvarpsviðtöku, og 10 bæja, sem hafa nú slæm móttökuskilyrði. Hins vegar hefur engin heildaráætlun verið gerð um, að allir bæir á Vestfjörðum komist í sjónvarpssamband.

3. spurningin hljóðar svo: „Er unnið áfram að framkvæmdum í þessu sambandi? Sé svo, hvenær má þá vænta, að þeim verði lokið?“ Svarið er það, að ef nauðsynlegt fjármagn verður fyrir hendi, ættu þær stöðvar, sem ég gat um hér að framan, að verða fullbúnar á árinu 1973. En þetta er, eins og ég sagði, háð fjármálum útvarpsins, og eins og kom fram í svari mínu við 2. fsp., nær þessi framkvæmd aðeins til hluta þeirra bæja á Vestfjörðum, sem búa við óhæf eða slæm móttökuskilyrði sjónvarps.

4. spurningin: „Hefur verið gerð athugun á því, hvort unnt sé að láta útsendingar sjónvarps ná til fiskimiðanna út af Vestfjörðum? Sé svo, hver er þá áætlaður kostnaður af þeirri framkvæmd? Er líklegt, að ráðizt verði í þá framkvæmd fljótlega?“

Svarið við þessum spurningum er, að heildarathugun hefur ekki verið gerð á sjónvarpsskilyrðum á siglingaleiðum og fiskimiðum umhverfis landið, hvorki fyrir Vestfjörðum né annars staðar. Talið er eftir þeim athugunum, sem fyrir hendi eru, að víða séu móttökuskilyrði allgóð, t.d. fyrir Vesturlandi, Suðvesturlandi og Suðurlandi, en þar eru nokkrar sjónvarpsstöðvar vel settar fyrir fiskimiðin, svo sem í Stykkishólmi, á Skálafelli, Vatnsenda, á fjallinu Þorbirni við Grindavík, í Vestmannaeyjum, á Háfelli í Mýrdal svo og á Hornafirði. Stöðin á Gagnheiði liggur vel við Austfjarðamiðum, og einnig ættu fiskiskip að hafa not af Heiðarfjallsstöðinni á Langanesi. Fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum munu skilyrðin vera einna lökust. Lítils háttar athugun hefur verið gerð á staðsetningin og væntanlegum kostnaði við að reisa sjónvarpsstöð vegna Vestfjarðamiða. Bendir sú athugun til, að slík sjónvarpsstöð mundi verða einna bezt sett á Barða og geta þjónað svæðinu frá Bjargtöngum að Straumnesi, þó knapplega nær Látrabjargi en upp að venjulegri siglingaleið. Sú stöð mundi væntanlega einnig ná til nokkurra sveitabæja á annesjum, sem illa eru settir og mjög kostnaðarsamt væri ella að ná til. Mjög lauslega áætlaður kostnaður við slíka stöð yrði allt að 5 millj. kr. Ekki er líklegt, að í slíka framkvæmd verði ráðizt alveg á næstunni.